Hver sagði að það væri sjálfsagt?

Hver sagði að það væri sjálfsagt?

Við höldum að allir sem það vilja geti klárað framhaldsskóla. En krakkarnir sem koma til Hjálparstarfs kirkjunnar vita að það er ekki sjálfsagt. Unglingar sem búa við þröngan fjárhag foreldra þekkja því miður annan raunveruleika.

framtidarsjodur

Við höldum að allir sem það vilja geti klárað framhaldsskóla. En krakkarnir sem koma til Hjálparstarfs kirkjunnar vita að það er ekki sjálfsagt. Unglingar sem búa við þröngan fjárhag foreldra þekkja því miður annan raunveruleika. Þau sjá fram á, að ef ekkert breytist, þá geti þau gleymt öllu námi. Þau sjá hvað getur verið stutt í sömu stöðu og foreldrar þeirra eru í ‒ oft í láglaunastarfi vegna lítillar menntunar eða óvinnufærir vegna sjúkdóma, slysa eða óreglu. Hjálparstarf kirkjunnar komst að þessu í gegnum viðtöl við þessa sömu foreldra. Í kjölfarið var Framtíðarsjóðurinn stofnaður.

Enginn í alveg sömu sporum

Hún vissi um Framtíðarsjóðinn, stúlkan sem kláraði menntaskólann sinn á skemmri tíma til að komast sem fyrst að heiman úr erfiðum aðstæðum. Hún fékk stuðning fyrir sumarönn við Fjölbraut í Breiðholti. Duglega sveitastelpan sem þurfti að sækja skólann sinn langt að, hafði líka frétt af sjóðnum. Hún gat látið drauminn um menntun rætast þegar hún fékk greiddan heimavistarkostnað frá Hjálparstarfinu og inneignarkort í matvöruverslun til að brúa bilið fram að sumarvinnunni.

Strákurinn sem horfði á einstæða móður sína vinna myrkra á milli fyrir þremur börnum, ætlaði að hætta í skóla og fara að vinna. Góður kennari kom honum til okkar og saman fundum við lausn sem dugði. Við gátum bent á félagslegar bætur sem móðir hans vissi ekki um og breyttu öllu. Hann fékk stuðning til bókakaupa og fyrir skólagjöldum. Hann hélt áfram í átt til betri framtíðar. Annar var með stöðugan höfuðverk og þreyttist fljótt á lestri. Hann fékk gleraugun sem hann hafði ekki haft efni á. Lausnirnar eru oft ekki flóknar, en samt utan seilingar.

Virkjum hæfileikana og viljann

Aðstæðurnar eru ólíkar og lausnir Hjálparstarfsins því mjög einstaklingsbundnar. En allar miða þær að því að hjálpa ungu fólki að ljúka námi sem gefur því starfsréttindi eða aðgang að lánshæfu námi. Þannig virkjum við hæfileika og vilja ungs fólks til að vera fullnýtir samfélagsþegnar sem skapa sér eigin framtíð. Þú getur styrkt þennan þátt í starfi okkar til dæmis með gjafabréfi í Framtíðarsjóðinn á www.gjofsemgefur.is. Þú getur stutt innanlandsaðstoð okkar með því að greiða valkröfuna í heimabankanum þínu. Hún bíður þín fagnandi!

Hjálparstarf kirkjunnar veitir ungmennum um allt land stuðning til að ljúka framhaldsnámi til starfsréttinda eða lánshæfs náms. Það er ein leið til að rjúfa vítahring lítillar menntunar, lágra launa og fátæktar.