Skálholt, staðurinn og skólinn, er grundvallarstofnun íslensku Þjóðkirkjunnar. Endurreisn staðarins verður ekki aðgreind frá varðstöðunni um tilveru íslensku Þjóðkirkjunnar. Í Skálholti er nú grundvöllur biskupsþjónustu og kirkjulegrar akademíu í samstarfi ólíkra stofnana kirkjunnar, Guðfræðideildar H.Í. og fleiri stofnana íslensks samfélags.
Ég nefni Þrettádaakademíuna, fyrirlestra og fjölbreytt námskeiðahald á vegum rektors skólans í samstarfi við ýmsa aðila, ekki síst Guðfræðideild Háskóla Íslands. Ber þar fremst að nefna samstarf Guðfræðideildar og Skálholtsskóla um símenntun þjóðkirkjunnar sem kirkjuráð hefur nú ákveðið að styðja ekki lengur fjárhagslega. Ég nefni tengsl skólans og stuðning við praktíska þætti guðfræðinámsins sem ég hef mótað í samstarfi við rektor skólans.
Hér ber einnig að nefna reglubundin predikunarnámskeið Kjalarnessprófaststdæmis og þau námskeið sem haldin hafa verið í tengslum við Helgisiðastofnun Skálholtsstaðar. Skálholtsbiskup og rektor skólans hefur staðið fyrir heimsóknum fremsta fræðafólks í heiminum á sviðum guðfræði og helgisiðafræði og hefur Háskóli Íslands notið góðs af samstarfi um það, fyrirlesarar hafa haldið erindi í H.Í. og fyrirlestrar þeirra birst í íslenskum guðfræðiritum. Guðfræðinemar hafa sótt þessa fyrirlestra og námskeið á sérkjörum.
* * *
Á rúmlega 60 árum hefur staðurinn verið endurreistur sem kirkjuleg miðstöð og ef nú verður dregið í land er öll sú endurreisn unnin fyrir gýg. Hún verður þá ekki bara hégómi, eins og Þórhallur Bjarnarson biskup spáði fyrir um, heldur sér þá fyrir endann á hlutverki íslensku þjóðkirkjunnar og ítökum í íslenskri menningu og samfélagi.
Tveir áratugir munu ekki líða fyrr en Þjóðkirkjan líður undir lok í þeirri mynd sem við þekkjum hana ef dregið verður í land með þá uppbyggingu sem nú vantar aðeins herslumuninn á að nái margyfirlýstu takmarki sínu sem sífellt hefur verið vitnað til á hátíðarstundum allt frá því að Íslendingar og kirkjuvinir á Norðurlöndum vöknuðu til vitundar um hlutverk Skálholts í sögu og samtíð.
Ástæðurnar eru fjárhagslegar og táknrænar, sögulegar, menningarlegar, trúarlegar og pólitískar. Nú er bráðum hálf öld síðan þjóðkirkjan var viðurkennd sem fjárhaglega sjálfstæð stofnun með því að ríkið skilaði henni Skálholtsjörð. Af sögulegum og kirkjupólitískum ástæðum er jarðeignarréttur kirkjunnar tengdur menningarlegu hlutverki biskupsstólanna fornu og þar með Skálholti, en eins og kunnugt er urðu Hólar til sem kirkjuleg stofnun út frá Skálholti.
Það er pólitísk staðreynd að eignarréttur kirkjunnar á jörðum eru sögulega skilyrtur og um það má flytja langt mál. Hirði Þjóðkirkjan sjálf ekki lengur um veg og virðingu staðarins mun þjóðin og stjórnmálaöflin í landinu ekki standa vörð um framtíð Þjóðkirkjunnar. Hún á því ekki annarra kosta völ en ljúka endurreisn staðarins á næstu vikum og mánuðum.