“Ég veit ekki hvort ég treysti mér “ – sagði konan “þetta er svo, eitthvað svo mikið, að útdeila sakramentinu, ég? Ég veit ekki hvort ...”
Hún horfði á okkur hin sem litu uppörvandi til hennar með hvatningarorðum.
“Jæja kannske, - jú, ég geri það” bætti konan við nokkuð ákveðin.
Við vorum stödd inni á skrifstofunni hans sr. Birgis Ásgeirssonar í Hallgrímskirkju, sex manna hópur sem þekktist takmarkað en átti það sameiginlegt að vera starfandi í Listvinafélagi Hallgrímskirkju. Samskot komandi sunnudags áttu að renna til listastarfs kirkjunnar og því höfðu prestar hennar kannað hvort fólk úr Listvinafélaginu vildu skipa messuhópinn fyrir þann sunnudag. Því var tekið með fúsleika og sr. Birgir skipaði okkur í störf.
Verkefnin voru vel skilgreind. Tvö áttu að vera við dyrnar og bjóða fólk velkomið, rétta því sálmabók og messublað, sérstaklega átti að gefa sig að þeim sem kæmu einir. Tvö áttu að lesa textana úr Gamlatestamentinu og úr pistlunum og fengu þá í hendur á blaði með stóru letri. Fjögur áttu að fylgja eftir samskotabaukunum, tvö byrjuðu á fremstu bekkjunum og önnur tvö á aftasta bekk og þegar þau mættust áttu þau að ganga með baukana upp að altarinu og afhenda þá prestunum með einföldu formi. Þrjú áttu að lesa kirkjubænina og skrifa hana sjálf. Skyldi bænin snerta þau bænarefni sem tekin eru fyrir í kirkjubæninni í handbók kirkjunnar en hinsvegar færa þau til dagsins og þess sem tengdist atburðum hans. Tvær konur skyldu aðstoða prestanna við útdeilingu altarissakramentisins. Síðan átti hópurinn að ganga inn með prestunum og kórnum í prósessíu, bera kross og kertaljós og ganga út með sama hætti.
Séra Birgir útskýrði verkefnin þannig að allir vissu hvað þeim bar að gera og gátu gert sitt í fullu öryggi. En síðan tók við áhugaverð samræða. Hópurinn ræddi við sr. Birgi um það sjónræna í messunni eins og það blasti við kirkjugestum og fékk skýringu á ýmsu því sem gerist þar án þess að hinn almenni kirkjugestur viti hversvegna. Og síðan var rætt um texta dagsins. Við lásum hann upphátt og ræddum út frá okkar ólíku sjónarhornum og hann opnaðist með áhugaverðum hætti. Við greindum frá því hvernig hann talaði til okkar hvers og eins, hvað var torskilið og óþægilegt. Og sr. Birgir skrifaði þetta allt hjá sér.
Svo rann upp sunnudagurinn. Það var ekki laust við að taugaóstyrks gætti í hópnum, þótt flest okkar væru nokkuð vön að koma fram fyrir fólk. En allt gekk að óskum.
“Sjaldan hef ég hlustað eins vel á predikun í messu” sagði einn í hópnum,“ ég var svo spenntur að heyra hvernig Birgir myndi taka á þessum erfiða texta – og hvort hann myndi nota eitthvað frá mér!“ Allir voru sammála að ræðan hefði sannarlega fjallað um það sem skipti máli og hefði vakið til mikillar umhugsunar. Og sr. Birgir kvað þetta vera óskastöðu hvers prests, að vinna predikun í samvinnu við væntanlega hlustendur.
Þau í mótttökunni sögðust vera endurnærð. Að fá að taka persónulega á móti svona mörgu elskulegu fólki, fá að verða til aðstoðar og uppörvunar þeim sem greinilega leið ekki of vel, þetta væri yndisleg reynsla.
Kirkjugestir voru örlátir , samskotin gengu vel, listastarfið fékk góðan sjóð.
Við græddum öll.
“Eigum við ekki að gera þetta aftur eftir nokkrar vikur?” sagði ein konan “Þá mun ég hlakka til og þakka fyrir að mega aðstoða við útdeilingu sakramentisins.”
Mér sem presti með 44 ára starf í þjónustu kirkjunnar var þetta góð reynsla að vera í þjónustu leikmannsins í kirkjunni. Mér varð ljóst eina ferðina enn hvað það er fólki mikils virði að fá að þjóna í kirkjunni, þegar verkefnin eru viðráðanleg og innan tímamarka. Að fá að gefa af sér og eiga þátt í starfinu.
Mér sýnist líka að slíkir messuhópar séu afbragðs úrræði fyrir presta þegar þeir mæta fólki sem vill gjarnan stíga fyrsta skrefið í kirkjulegri þjónustu. En slíkir hópar geta líka verið afbragðs úrræði fyrir presta sem eru einyrkjar og finna til einsemdar í starfi sínu.
Ekki þurfa allir messuhópar að vera eins fjölmennir og hóparnir í Hallgrímskirkju né heldur þjónustan jafn margþætt. En presturinn þarf að halda nokkuð vel utan um hópinn og hópurinn mun hlynna að honum.
Við græðum öll – þegar messuhópar komast á laggir í söfnuðinum.