Tíska hinna meðvituðu

Tíska hinna meðvituðu

Ég verð að segja að það er svolítið sérstök tilfinning að ganga á sokkaleystunum og beltislaus í gegnum hliðið. Mér finnst ég berskjölduð þegar skórnir eru farnir. Þeir eru hluti af mér þegar ég er utandyra eða á opinberum stað eins og flugvöllur er.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
08. ágúst 2010

Vegna ótta við hryðjuverk, sem alls ekki er ástæðulaus, þurfa ferðalangar sem fara í gegnum öryggishlið í Leifsstöð að afklæðast skóm, taka af sér beltið sem heldur uppi buxunum og afklæðast yfirhöfninni. 

Ég verð að segja að það er svolítið sérstök tilfinning að ganga á sokkaleystunum og beltislaus í gegnum hliðið. Mér finnst ég berskjölduð þegar skórnir eru farnir. Þeir eru hluti af mér þegar ég er utandyra eða á opinberum stað eins og flugvöllur er. 

Ég nota föt til þess að skýla mér við kulda og roki, við sól og regni. Ég nota einnig föt til þess að tjá, bæði fyrir sjálfri mér og umheiminum, hver ég er. Ég viðurkenni að ég hef gaman að fallegum fötum og spái töluvert í bæði tísku og hvaða snið henta vaxtalagi fólks. 

Ef ég hefði ráð, myndi ég eyða mun meira í flíkur. Ég veit að þetta er hégómlegt og ég dáist í laumi að fólki sem lætur sig þetta engu varða. Ég lít á það merki um ákveðinn innri styrk og sjálfsöryggi þegar fólk þarf ekki að merkja sig með fötum. 

Þó held ég að við segjum öll eitthvað með því sem við klæðumst. Það er líka ákveðin yfirlýsing að láta sig föt engu varða. Sumir hafa líka töluvert fyrir því að klæða sig eins og föt skipta þau ekki máli. 

Það sem ég þó ber mesta virðingu fyrir, er þegar fólk aðeins klæðir sig í, og kaupir, notaðar flíkur og gerir það að hugsjón. Það er víst svo að hver einasta ný flík sem við kaupum hefur áhrif á umhverfið. Hver nýr hvítur stuttermabolur hefur neikvæð áhrif á umhverfið. 

Væri ekki svolítið flott ef við hættum öll að kaupa ný föt og nýttum aðeins það sem nú þegar er til? Það er hægt að vera umhverfisvæn á svo margan annan hátt en að endurnýta pappír og slökkva ljós. 

Kannski væri það verkefni fyrir æskulýðsfélög í íslenskum söfnuðum að safna saman notuðum fötum í söfnuðunum og selja til styrktar hjálparstafi kirkjunnar. Kannski krakkarnir gætu útvegað sér saumavélar, fengið aðstoð hjá einhverjum sem kunna til verka og breytt fötum svo þau líkist meira tísku dagsins í dag. Kannski geta þau jafnvel, með þessu móti, skapað tísku morgundagsins. 

Tísku hinna meðvituðu. 

Ég á kunningja, presthjón, sem reyna að kaupa aldrei neitt nýtt, ekki nýjan bíl eða barnakerru, ekki nýja eldhúsinnréttingu eða föt. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim og deili í raun hugsjónum þeirra en ég fæ alltaf svolítið samviskubit þegar ég er með þeim yfir því að eyða allt of miklu í nýja hluti. Ég versla oft notað. Ég endurvinn töluvert en ég veit ekki hvort ég hafi það sem þarf til þess að taka þetta alla leið. Mér þykir erfitt að segja það, en ég held að hégóminn sé hugsjóninni yfirsterkari þegar kemur að fallegum hlutum. Ætla þó að halda áfram að reyna.