Aðfangadagur jóla 2014. Dómkirkjan.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Ég óska öllum, nær og fjær, gleðilegrar jólahátíðar.
Enn höldum við jól; klukkurnar hafa kallað okkur til helgra tíða; nú er orðið heilagt, eins og gjarnan er sagt; þessi dagur og þessi stund er ekki hversdagurinn heldur hátíð, hátíðin þegar við með ákveðnum hætti endurlifum atburði sem gerðust endur fyrir löngu. Um það snýst nefnilega helgihaldið öðrum þræði; að stíga út úr hversdagnum og tengjast því sem gerðist í öndverðu. Í helgihaldi jólanna er sagan rifjuð upp og endurlifuð, og þar með gefst okkur kostur á því að verða þátttakendur í henni; við verðum eins og samtíðarmenn atburðanna á Bethelehmsvöllum og í fjárhúsinu fábrotna þar sem himinn og jörð mættust.
Þegar barnið fæddist.
Það þekkja reyndar allir foreldrar, að þegar barn kemur í heiminn, er eins og maður hafi himin höndum tekið og að því leyti má vel segja að himinn og jörð sameinist þegar hvert barn fæðist; þar er komið nýtt líf sem manni er falið, og í meðgjöf fylgir ný von; vissulega ábyrgð líka, en fyrst og fremst von.
En við vitum líka að fæðing Jesúbarnsins hefur aðra og dýpri merkingu og bendir okkur lengra inní leyndardóm guðsríkisins, fyrirætlunar Guðs og gefur ákveðnar vísbendingar um samband Guðs og manns. Þar sem Guð gefur sjálfan sig mannkyni, lægir sjálfan sig og verður mönnum líkur, þeim til hjálpræðis.
Ef það er ekki fagnaðarefni og tilefni til hátíðar þá veit ég ekki hvert það ætti að vera.
Og enn höldum við jól og endurlifum þessa fast mótuðu sögu sem Bethlehemsfrásögnin er. Söguna af því þegar þau ætluðu á ættarmótið, þau María og Jósep. Auðvitað var það ekki opinberi tilgangurinn; sá var vitaskuld að keisarinn vildi láta skattskrifa allan heiminn; það var því ekki framtakssami aðilinn í stórfjölskyldunni sem hafði tekið að sér að kalla saman ættingjana, eins og alltaf er, þegar blásið er til ættar¬móts, heldur sá keisarinn um það fyrir þau. Engu að síður var þarna kærkomið tækifæri að hitta frændfólk sem þau María og Jósep höfðu kannski heyrt um en aldrei séð og vissulega hlaut það að verða tilhlökkunarefni. Að vísu hefðu þau gjarnan kosið heppilegri tímasetningu, en það er bara eins og það er með ættarmótin, tíminn hentar aldrei öllum; þarna var þó enginn möguleiki að biðja um frest eða gá hvort einhver önnur helgi væri ekki heppilegri. Boðið kom beint að ofan og ekkert undanfæri. Ekki einu sinni hægt að sleppa því þá að mæta! Ég reikna með að þið vitið öll hvernig sagan endar. Hæpið er að tala um að þau hafi hitt nokkurn ættingja sinn í Bethlehem, nema kannski þá sem sögðu við þau: "Farið burt, hér er ekkert pláss." Alla vega er ekkert talað um það í jólaguðspjallinu. Enda skiptir það heldur engu máli hvernig þetta ættarmót fór allt saman. Meira máli skiptir það sem gerðist hjá Maríu og Jósef fjarri ættingjunum.
Já það eru jól og hvað varðar okkur um ættarmót; jafnvel þótt það sé að keisarans boði. Við fylgjumst hins vegar með því að himinninn opnast og að dýrð Drottins ljómar; að dýrð hans á himnum er líka á jörðu og opinberar þannig Guð á jörðu. Að hann birtist mönnum í barninu og gengur á hólm við illskuna, ekki með offorsi heldur hógværð og sakleysi barnsins. ---
Spurt hefur verið að því hvort þetta sé satt, allt það sem kemur fram í sögunni frá Bethlehem. Hvort Lúkas hefði ekki betur tekið námskeiðið Sagnaritun 101 áður en hann skráði guðspjallið sitt. En þá má líka spyrja; hvernig satt? Hvers eðlis er sá veruleiki sem hann vill koma orðum að? Og hvernig komum við því í orð sem að sínu leyti er ósegjanlegt? Er það ekki þannig að jafn mikilvægt er að gefa gaum að tilfinningum og kenndum eins og rökhugsun og atburðalýsingum í tímaröð, þegar fjallað er um andleg málefni, eilífðarmál; sem skv. orðanna hljóðan hljóta að vera annarrar víddar en hin tímanlega saga? Að rétt sé líka að huga að þeim blæ sem sögunni er búinn og þeim vísunum og tengingum sem heldur tala til hjartans en heilans. Hvernig gætum við annars nálgast Guðdóminn? Þetta eru nefnilega ekki slíkar sögur sem aðeins eru sagðar til afþreyingar eða af því þær séu skemmtilegar í dægrastyttingunni heldur miðla þær sístæðum veruleika. Sístæðum veruleika sem þýðir að þær eru alltaf að gerast, ekki í rauntíma heldur á tímaskeiði hjálpræðisins. Svo þær geti orðið okkar eign, og við, sem oft og tíðum eru stödd í myrkrinu, fáum að líta ljós kærleika Guðs sem skín frá jötunni. Að hann er kominn til þín í myrkinu og laðar fram í þér kærleika og ást til barnsins; að hann hrærir þig til meðaumkvunar til þeirra sem svipað er ástatt um og Maríu og Jósef en þó fyrst og fremst að hann vill benda þér á ljósið í myrkrinu. Sem er hann sjálfur.
Sagan af Maríu og Jósef og barninu í Bethlehem er einmitt ein af þeim sögum sem snertir okkur og er á margan hátt heilög; það má ekki hrófla við henni. Sem betur fer, liggur mér við að segja, því hún bendir út fyrir hversdaginn okkar og í heim og veruleika hátíðarninnar þar sem tíminn er eins og upp hafinn.
Hugsanlega er hér einnig ástæða þess að við viljum gjarnan halda jólin nú með líku sniði og síðast og þar áður. Og þar á undan því. Því við viljum lifa jól bernskunnar, finna sama fögnuðinn, sömu tilhlökkunina og hinn sama anda og einkenndi hátíðina, svo langt sem við munum og helst lengra. Þessi kennd sameinar okkur.
Hún sameinar okkur öll hvort sem við skynjum jólin sem hátíð komu Krists í heiminn eða leyfum bara ytra byrðinu að halda utan um okkur og hvílum í samkenndinni sem myndast. Jólin eru þannig sameign okkar allra og þess vegna hugsum við sérstaklega til þeirra sem ekki eru með fjölskyldum og vinum á hátíðinni; til þeirra sem eru á sjúkrastofnunum, hvort sem það er vegna vinnu sinnar eða sjúkleika, við hugsum til fanga og einstæðinga, til sjómanna og farmanna allra og biðjum að birta jólanna nái að skína um alla sköpunina, í hvert hús og hvert hjarta. Jólin birta erindi Guðs við manninn og það erindi hefur heldur ekki breyst. Það er nú hið sama og áður. Það er, að hann, sem þekkir hvert þitt æðarslag og hvern þinn þanka, hann birtir þér sig og vill að þú þekkir hann einnig. Að fyrir þennan leyndardóm og friðþægingarverk Krists erum við endurleyst og veruleiki Guðs í lífi okkar er allt annar. Já hann birtist þér í barninu og þá gerist það líka að barnið kallar þig til ábyrgðar; að með því að játast barninnu í jötunni gengst þú jafnframt undir það að sjá Kristi í náunga þínum. Þá fæðist Kristur dag hvern í þínu lífi. Og nafn hans skal vera Immanúel. Guð með oss.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.