Viljirðu líkjast lífi hans ...

Viljirðu líkjast lífi hans ...

Kirkju Krists er ætlað að vera heilsulind þar sem orð og áhrif og andi miskunnsemi og friðar og fyrirgefningar syndanna á sér skjól og er iðkað með orði og athöfn og helgum hefðum sem laða fram hið góða og fagra í mannlífi og samfélagi. Sú laðan, boðun, vitnisburður, er kristniboð.

Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn og allt fólkið kom til hans en hann settist og tók að kenna því. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.

Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum.

Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“ En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“

Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“ Jh 8.2-11

Fyrri ritningarlestur þessa Drottins dags, 4. sunnudags eftir trinitatis, er upphaf Musterisræðu Jeremía. Drottinn sagði honum að taka sér stöðu við hliðið að húsi Drottins og flytja þar ræðu. Og það er sannarlega mögnuð ræða og erindið brýnt og tímabært: „Bætið breytni yðar og verk, þá mun ég búa meðal yðar hér á þessum stað....“ Guðspjall dagsins er úr 8. kafla Jóhannesarguðspjalls, og leiðir okkur líka að dyrum helgidómsins. Það er reyndar ein frægasta frásögn guðspjallanna. Jesús er staddur þarna við musterið í Jerúsalem og fólkið þyrpist að til að hlýða á hann kenna. Þá koma þar farisear og fræðimenn, það er sérfræðingar í siðgæði og trú. Þeir leiða konu á milli sín og hrinda henni að fótum Jesú. Hún hafði verið staðin að verki, hórsek kona, og þá dauðasek samkvæmt lögmáli Móse og nú spyrja þeir, sigri hrósandi: „Þessa konu ber að grýta, það segir sjálfur Móse í lögmálinu, hvað segir þú nú?” Þetta var lúmsk gildra. Þeir voru að safna saman ákæruatriðum gegn Jesú, því til sönnunar að hann hvetti til óhlýðni við lögmálið og Guðs vilja. Þá væri hann dauðasekur, eins og hún. Hverju svarar Jesús?

Hann segir ekkert, heldur beygir sig niður og skrifar í sandinn, og segir síðan: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.” Þeir glúpnuðu og gengu sneyptir burt. Hann leit á hana og sagði: „Hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig? Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar!”

Oft er til þessarar sögu vitnað, og það er gott, við megum aldrei gleyma henni. Heimurinn má aldrei gleyma henni. Hún er dæmigerð fyrir Jesú frá Nasaret og fagnaðarerindi hans. Erindi og hlutverk kristinnar kirkju, boðun hennar, þjónusta og fræðsla er það að bera áfram afl þess og áhrif. Í ræðu sinni setti Jeremía fram kröfuna skýrt og skorinort: „Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði yður til tjóns, þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað....“

Þeir sem voru með skilyrðin og skilmálana á hreinu, lögin og sannleikann sín megin komu sigri hrósandi til Jesú og vildu úthella blóði, lögmálið krafðist þess, enda var þessi kona sek, það vissu allir. Annars vitum við fæst um þessa konu. Eitt megum við þó vita: Þeir sem kölluðu hana „bersyndugu konuna” létu hið mesta ósagt. Og þannig er það nú einatt. Okkur er tamt að setja merkimiða á fólk. En Drottinn metur á annan hátt. Jesús sá manneskju, sem þarfnaðist uppreisnar og hann mætti henni með virðingu og kærleika.

Leyndardómur manneskjunnar er mikilleikinn sem hylst að baki því sem sést og skilst. Þess vegna segir Jesús að dómurinn sé óvæginn þeim sem niðrar náunga sinn og kallar bjána og þannig gerir hann þýðingarlausan. Og hann brýnir fyrir okkur að dæma ekki: „Dæmið ekki!“ segir hann,„Sakfellið ekki!“ „Sýknið! Með þeim mæli sem þér mælið mun yður mælt verða.“ Fyrir mörgum árum voru nokkrir ungir menn, háskólastúdentar, í byggingarvinnu.

Verkstjórinn, hann Ingimundur rétti einum tommustokk og sagði: „sæktu spýtu sem er 1.20 á lengd.“ Enginn sem varð vitni að því getur gleymt undrunarsvipnum á honum Ingimundi þegar stúdentinn kom aftur eftir langa mæðu, tómhentur, og sagði alvarlegur í bragði: „Það er ekki hægt að mæla þessa spýtu!“ „HA?“ „Sko, hérna, tommustokkurinn er ekki nógu langur!“

Orð og verk Jesú er alls ekki ónothæfur mælikvarði. Jesús kallar hlutina réttum nöfnum og fordæmir það sem er illt og rangt. En Jesús bendir á að við erum öll fyrir dómstóli Guðs. Þar kemur að við verðum eitt og sérhvert krafið reikningsskila af honum.

Margt í nútíma samfélagi ber vott um aukna skinhelgi og dómhörku, fjölmiðlar og spjallrásir blása ótt að þeim glæðum, og margur upptendrast af hinni réttlátu reiði og vandlæting. En eins og einn hinn fornu kirkjufeðra sagði:„Það er hættulegt að dæma aðra, ekki svo mjög sakir þess að þér geti skjátlast heldur af hinu að þú kannt þá að leiða í ljós sannleikann um sjálfan þig.” Öll erum við í glerhúsi, og því eins gott að sleppa því að grýta aðra.

Spámaðurinn veit upp á hár hvað þarf til að Drottinn haldi tryggð við helgidóm sinn og þjóð. Það liggur í augum uppi, „ef þið.... þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað!“ En svo var Drottinn þarna mitt á meðal þeirra, og þeir þekktu hann ekki. Drottinn allsherjar, sem um síðir mun dæma heiminn, hann kom á jörð, hann tók sér bústað meðal vor, tók á sig sektina okkar og synd, hann sem bar burt synd heimsins. „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Þetta er fagnaðarerindið. Hin dýrmæta gjöf kristinnar kirkju til heimsins, til menningar og samfélags á hverjum tíma. Orð krossins, fagnaðarerindið um Jesú, um fyrirgefningu syndanna, friðþæging, fyrir krossdauða hans og upprisu frá dauðum. Af rótum þess hafa þeir ávextir sprottið sem dýrmætastir eru alls. Og það er ekki bara orð.

Gagnmerk kona, sem ég kynntist sem ungur prestur, kraftmikill Vestfirðingur og einarðleg kristin kona, hún kenndi mér vísu, sem ég held hún hafi ort sjálf:

„Viljirðu líkjast lífi hans, sem læknaði dýpstu meinin, ritaðu´ í sandinn misgjörð manns, meitlaðu´ hið góða í steininn.”
Við erum kölluð til að líkjast lífi hans, sem læknaði dýpstu meinin. Kirkju Krists er ætlað að vera griðland og athvarf miskunnsemi og fyrirgefningar, og heilsulind, heiminum til lífs og lækningar. Heilsulind þar sem orð og áhrif og andi miskunnsemi og friðar og fyrirgefningar syndanna á sér skjól og er iðkað með orði og athöfn og helgum hefðum sem laða fram hið góða og fagra í mannlífi og samfélagi. Sú laðan, boðun, vitnisburður, er kristniboð. Við erum kölluð, frátekin og send til að gera allar þjóðir, alla menn, að lærisveinum. Og það getum við aðeins með því að vera lærisveinar sjálf. Leiðtogar sem eru þjónar og fylgjendur, fræðarar sem eru lærisveinar, prédikarar sem boða orð hans og vilja og laða til fylgdar við Jesú Krist. Það er kristniboð. Boðun, þjónusta, fræðsla, í orðum og með eftirdæmi. Þetta er hlutverkið, sem þið vígist til, kæru vinir, hér í dag, sem prestar og sem kristniboðar. Mismunur er á þeim náðargáfum og embættum, en Drottinn hinn sami.

Landsfrægur rútubílstjóri kallaði vegaskiltin „Vegpresta“ vegna þess, sagði hann, að þau benda á veginn án þess að fara hann. Þetta er auðvitað bæði grín og dýpsta alvara. Bílstjórinn var að bergmála orð Jóns biskups Vídalín, sem vafalaust hefur brýnt það fyrir vígsluþegum sínum:„Fyrir því, Drottins kennimenn, verum ekki eins og vörður þær eð standa á heiðum uppi og vísa að sönnu veginn en ekki fara þær úr stað svo þær leiði hinn vegfandi til híbýla...” Og einu sinni var sagt við prest:„Líf þitt lætur svo hátt að ég heyri ekki hvað þú segir!“ Þetta er hin sígilda hvatning og krafa og áminning til prestsins, og glíma okkar við okkur sjálf. En þá verðum við líka að minnast þess að kristindómurinn er ekki trú ofurmenna. Jesús snýr sér að þeim sem hefur mistekist í lífinu, hafa brugðist og brostið, Sakkeus, Leví Alfeusson og konan í guðspjalli dagsins, - og ég og þú. Jesús leitar okkur uppi og vill vera vinur syndarans og bróðir. Og okkar vegna er krossinn reistur. Okkar vegna þjáist Guðs sonur. Postular hans voru engin andleg eða siðferðisleg ofurmenni. Þegar við hlustum eftir vitnisburði þeirra, hinna stóru og sterku í trúnni þá er það ekki til að heyra afrekasögur sigurvegara, heldur til að heyra um það hvernig Kristur reisti þau á fætur. Þau hrösuðu og féllu. En lágu ekki eftir, þau risu upp og sneru sér til Drottins sem veikum vægir og auðmjúkum veitir náð. Það er svo satt að sérhver dýrlingur á sér fortíð og sérhver syndari framtíð.

Mér eru hugstæð orð Jóhannesar Páls páfa I. sem einungis sat á páfastóli nokkrar vikur fyrir réttum þrjátíu árum. Hann sagði:„Drottinn velur að rita sumt í sandinn fremur en á stein eða í málm. Ef skriftin stendur eftir og fýkur ekki burt með vindinum, þá verður ljóst að þetta er verk Guðs. Ég er sandur, aðeins ryk, og á það hefur Drottinn ritað.“ Svo mörg voru þau orð. Við erum kölluð til þjónustu fagnaðarerindisins. Hvað erum við nema sandur, ryk, en Drottinn hefur ritað á okkur með fingri sínum? Þetta snýst um hann! Þegar okkur lærist að sleppa lönguninni að meitla okkar eigin nöfn og svip á stein þegar við sleppum þörfinni að marka okkar spor þá verður til rými sem áður var fyllt af ótta og hroka og reiði. Og þá kemst Guð þar að og læknandi áhrif anda hans.

Elskulegu vinir, Fanney og Fjölnir, sem nú vígist sem kristniboðar, haldið til starfa hjá hinni ungu dótturkirkju okkar í Pokot, og þið, Erla og Þorgeir, sem vígist hér sem prestar í íslensku Þjóðkirkjunni. Það er langt milli Keflavíkur og Pókot, og margt ólíkt þar og hér. Nema það sem máli skiptir! Þar er Jesús á ferð með náð sína, ljós og anda, fagnaðarerindið um fyrirgefningu syndanna.

Við gleðjumst með ykkur og gleðjumst yfir ykkur á helgum vígsludegi. Og við samgleðjumst ástvinum ykkar og samstarfsfólki ykkar, og söfnuðunum sem njóta munu krafta ykkar í þjónustunni. Það verður prýði af ykkur og þið munuð verða blessun hvar sem þið komið að starfi og þjónustu fagnaðarerindisins.

Það er háleit köllun og heilagt hlutverk. Ég hvet ykkur, já og okkur öll, með orðum postulans „Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs.“ Já, ef vitund okkar er ekki bundin við okkar stöðu heldur Krist, sem sendi okkur ekki vegna þess hver við erum heldur vegna þess að hann er sá sem hann er, Drottinn, frelsarinn, sem er mitt á meðal vor, krossfestur og upprisinn.