Nýhöfn

Nýhöfn

Nýhöfn. Að finna sér nýja höfn, nýjan stað, nýja tilvist við nýjar aðstæður. Vonir þeirra, sem yfirgáfu Evrópu á síðustu fjögur hundruð árum og stefndu til Ameríku, stóðu til þess að finna sér nýjan stað, nýja tilvist í nýju landi. Þeir upplifðu sig margir hverjir vera í sömu sporum og Ísraelsmenn forðum er þeir yfirgáfu Egyptaland undir forystu Móse.
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
16. mars 2009

Húsið sem ég bý í til vors er í borginni New Haven í Connecticut, skammt austan við Quinnipiac ána, sem dregur nafn sitt af þjóðflokki indíána sem bjó á strandsvæðinu fyrr á öldum og fangaði fisk og ræktaði sér maís til matar. Hollendingar komu á svæðið árið 1614, stunduðu viðskipti við indíána en hurfu þaðan fljótlega.

Árið 1638 kom fimm hundruð manna hópur Púrítana á svæðið sem hafði yfirgefið nýlenduna við flóann í Massachusetts. Forystumenn hópsins voru þeir séra John Davenport og Theophilius Eaton, kaupmaður. Ætlan þeirra var að stofna nýtt og betra samfélag á guðfræðilegum grunni, einskonar guðveldi.

Hin náttúrulega höfn var þeim vonarhöfn. Þeir sáu í henni mikla möguleika. Quinnipiac-indíánarnir, sem átt höfðu í erjum við nágranna sína af Pequot-ættflokki, seldu Púrítönum land sitt í skiptum fyrir vernd. Og staðurinn hlaut nafnið New Haven - Nýhöfn.

Nýhöfn. Að finna sér nýja höfn, nýjan stað, nýja tilvist við nýjar aðstæður. Vonir þeirra, sem yfirgáfu Evrópu á síðustu fjögur hundruð árum og stefndu til Ameríku, stóðu til þess að finna sér nýjan stað, nýja tilvist í nýju landi. Þeir upplifðu sig margir hverjir vera í sömu sporum og Ísraelsmenn forðum er þeir yfirgáfu Egyptaland undir forystu Móse. Þetta var þeirra exódus, brottför úr landi þar sem þeir höfðu ekki notið frelsis. Þeir kusu með fótum sínum og fóru. Ameríka var fyrirheitna landið. Og enn flytur fólk til annarra landa í leit að hamingjunni. Exódus-þemað er sterkt í heiminum. Á öllum öldum hefur fólk ferðast á vit draumalandsins í leit að betra lífi. Marteinn Lúther King Jr. átti sér draum eins og fram kom í hans fleygu orðum og líklega áhrifamestu ræðu liðinnar aldar. Hann sá fyrir sér þjóð þar sem samlandar hans af afrískum uppruna hefðu sömu réttindi og aðrir. Draumalandið hans var ekki í öðru landi, ekki handan hafs, heldur var staður þess í hjörtum fólksins heima, í endurnýjuðu þjóðfélagi. „Ég á mér draum“, sagði þessi stórkostlegi maður og prédikari. En hann lifði það ekki að komast sjálfur til draumalandsins fremur en Móse. En draumurinn lifði og hélt fólkinu gangandi, vonin um betri tíð og bærilegri aðstæður var fólki drifkraftur, sem dró fleiri og fleiri með í hið feiknamikla ferðalag. Og nú, rúmlega fjörutíu árum eftir ræðu hins svarta spámanns, hefur bandarískt þjóðfélag upplifað að sjá drauminn rætast að miklu leyti. En ferðinni til hins fyrirheitna lands draumanna er samt ekki lokið, henni lýkur aldrei, hvorki þar né hér.

Enn er fólk á ferð. Við, Íslendingar, erum á ferð til betra lífs. Við höfum komist að því að það þjóðfélag sem við sköpuðum okkur sjálf á liðnum áratugum reyndist á margan hátt vera meingallað og spillt. Og nú viljum við yfirgefa Egyptaland. En okkur vantar Móse, kunna einhver ykkar að segja. Rétt er það. Hann hefur í það minnsta ekki komið fram sem einstaklingur enn sem komið er. Og kannski kemur hann ekki fram sem slíkur. Kannski kemur hann fram sem hópur eða stefna. Ég veit það ekki. Guð einn veit. En hvað sem því líður þá skulum við leitast við að beina sjónum okkar fram á veginn, að nýrri höfn. Hún þarf ekki að vera handan hafs eða í annarri álfu. Hún getur verið fólgin í nýjum hugmyndum, nýju fólki, nýrri skipan, nýrri reglu, innri nýhöfn, nýrri hugsun.

Nýhöfnin vestra þar sem ég bý um þessar mundir var stofnuð af fólki sem átti trú á Guð og byggði líf sitt á grunni kristinnar trúar. Landnemarnir sóttu hugmyndir sínar í helga bók, hugmyndir um réttlátt þjóðfélag þar sem allir ættu að njóta sama réttar til frelsis, athafna og hamingjusóknar. Í anda þeirrar trúar sem við, Íslendingar, höfum fylgt um aldir er það nú gríðarlega brýnt verkefni að við jöfnum byrðarnar og kjörin, leitum sannleikans og réttlætisins. Ef við ætlum að komast af sem þjóð og komast hjá því að brjóta friðinn, sem Þorgeir vissi forðum að var þjóðinni fyrir bestu, verðum við að takast á við þetta mikilvæga verkefni. Og ef okkur auðnast að taka réttar ákvarðanir sem einstaklingar og þjóð í þessum efnum þá bíður okkar fyrirheitin friðarhöfn, sannkölluð nýhöfn. Áfram Ísland!