Réttlæti Guðs í hjarta og heimi

Réttlæti Guðs í hjarta og heimi

Kynslóðirnar sem lögðu grunn að því þjóðfélagi sem við búum við í dag létu lotningu fyrir Drottni stjórna gerðum sínum. Með kærleiksboðskap kristninnar og boðorðin tíu að leiðarljósi kaus íslenska þjóðin að byggja sér samfélag samheldni og hjálpfýsi.

Eigi skal myrkur vera í landi því sem nú er í nauðum statt... (Jes 9.1 samkv. Biblíu 1981) Sú þjóð, sem í myrkri gengur sér mikið ljós... (Jes 9.1) Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn... (Jes 9.5)

Spádómsbók Jesaja er full af fyrirheitum sem áttu við á sinni tíð, en einnig í dag. Við glímum að sönnu ekki við stríðsógnir, en finnum þó vegið að öryggi okkar á ýmsa vegu. Spádómsorð komu fram á liðnu sumri um dökk ský yfir Íslandi, ský græðgi og eiginhagsmunasemi. Sá spádómur kom fram og þjóðin er skekin.

En Guð skilur okkur ekki eftir ein. Boðskapur jólanna er sá að Guð er með okkur: Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel, það er Guð með oss (Jes 7.14). Hver jól hljómar sá boðskapur á nýjan leik, já hver nýr dagur, hvert augnablik flytur með sér þann veruleika guðsríkisins að Guð lætur sér annt um hvert og eitt okkar.

Hið lítilmótlega í heiminum

Lítið barn, lagt í jötu. Fyrir utan þau Jósef og Maríu voru dýrin einu vitnin að undursamlegri komu Guðs inn í heiminn. Fjárhúsið fátæklega er staður hinnar nýju sköpunar, fjarri spillingu mannheimsins. Sælir eru fátækir í anda, sagði frelsarinn síðar, sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki (Matt 5.3).

Fjárhirðarnir á Betlehemsvöllum sem gættu um nóttina hjarðar sinnar (Lúk 2.8) staðfesta þá mynd. Staða hirðanna í mannfélaginu var ekki beysin. Það vitum við. Þeir voru ekki í hópi þeirra sem marktækir þóttu. Vitnisburður þeirra var ekki tekinn gildur fyrir dómi. En einmitt þá valdi Guð til að verða vottar að dýrð sinni, að komu himnaríkis inn í heiminn í litlu barni. En Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum (1Kor 1.28-29).

Við höfum séð aukna stéttaskiptingu á landinu okkar á liðnum árum. Bilið milli fátækra og ríkra hefur breikkað. Á öldum áður var þetta bil reyndar býsna stórt og mannfélagið setti sér skýr mörk um stéttir. Með aukinni almennri velmegun þegar líða tók á síðustu öld breyttist þetta og jöfnður varð meiri, bæði hvað varðar fjárráð og virðingu.

En svo virðist að síðustu misserin hafi þetta snúist við aftur. Við munum eftir allri umræðunni um ofurlaun fámennra hópa í landinu og slakari kjör öryrkja og aldraðra. Við kynnumst þessu vel, prestarnir, því til okkar leita margir í fjárhagsvanda sínum, eiga ekki fyrir nauðsynlegum lyfjum og jafnvel ekki mat og húsnæði. Og ytri velmegunartákn virðast vera það sem öllu skiptir hvað varðar mannvirðingu, ytri tákn en ekki innra réttlæti.

Guð fer ekki í manngreinarálit

Biblían talar mjög skýrt um hvaða augum Guð lítur fólk. Hann fer ekki í manngreinarálit (Ef 6.9), eins og segir í Speki Salómons (6.7):

Því að sá sem yfir öllum ríkir fer ekki í manngreinarálit og er ófeiminn við steigurlæti. Hann hefur sjálfur skapað háan og lágan og elur jafnt önn fyrir öllum. Þessi hvatning til okkar er í Síðari Kroníkubók (19.7):

Látið nú lotningu fyrir Drottni stjórna gerðum ykkar. Gætið að því sem þið gerið því að hjá Drottni, Guði okkar, er hvorki til ranglæti, manngreinarálit né mútuþægni.

Kynslóðirnar sem lögðu grunn að því þjóðfélagi sem við búum við í dag létu lotningu fyrir Drottni stjórna gerðum sínum. Með kærleiksboðskap kristninnar og boðorðin tíu að leiðarljósi kaus íslenska þjóðin að byggja sér samfélag samheldni og hjálpfýsi. Það var algjörlega óháð flokkslínum. Langamma mín í móðurætt, Guðrún Lárusdóttir, sem var landskjörinn alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn á fjórða áratug síðustu aldar (1930-1938) og langafi minn í föðurætt, Ágúst Jósefsson, sem um svipað leiti sat í bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir Alþýðuflokkinn (1916-1934) voru þannig bæði fulltrúar hugsjónar um manngildi og jafnrétti til handa öllum þegnum þjóðfélagsins.

Væntanlega eru fulltrúar þjóðarinnar í sveitarstjórnum og á Alþingi enn vel meinandi fólk. Vonandi er það svo að hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi en ekki auðsöfnun á fárra hendur. Ég vil trúa því að þær þrengingar sem íslenska þjóðin gengur í geng um núna verði okkur til góðs, að þær minni okkur á hin raunverulegu gildi og mikilvægi þess að láta ekki ranglæti, manngreinarálit né mútuþægni viðgangast.

Frá því í lok ágúst höfum við komið saman um tuttugu manns úr hinum ýmsu kristnu trúfélögum til að biðja fyrir þjóðinni og um visku til handa ráðamönnum hennar. Það er svar okkar við aðvörun spádómsorðanna um hið dökka græðgisský yfir Íslandi. Við trúum því að Guð heyri bænir okkar og muni snúa við hag þjóðarinnar að nýju. Til þess að svo megi verða þarf þjóðin hins vegar að líta í eigin barm, skoða líf sitt út frá réttlætisviðmiði guðsríkisins, hverjum hjartað tilheyrir, Guði eða mammon, réttlætinu eða ranglætinu. Við þurfum hvert um sig að opna hjarta okkar fyrir kærleika Guðs, að hann sé okkar undraráðgjafi og eilífðarviðmið.

Tákn jötunnar

Barnið litla var lagt í jötu. Ég þarf ekki að minna ykkur á hvaða tilgangi jatan þjónaði öllu jöfnu og að ólíklegt verður að teljast að hún hafi verið hrein og glansandi eins og helstu hreinlætisstaðlar nútímans gera kröfu um. Jatan getur meðal annars minnt okkur á tvennt: Að hjarta okkar þarf ekki að vera hvítskrúbbað til að Guð geti átt sér þar íverustað – að Guð kemur inn í allar aðstæður og einmitt þær sem þarfnast hreinsunar og endurnýjunar við. Þetta var annað.

Og hitt getur jatan verið okkur áminning um að eins og dýrin þáðu fóður sitt og lífsviðurværi þaðan, þannig þiggjum einnig við líf og næringu úr jötu Jesúbarnsins. Jatan var hinn fyrsti hvíldarstaður Guðs, tákn sjöunda dags sköpunarinnar og minnir okkur á að þiggja allt úr hendi hans.

Hjá Jesaja spámanni er talað um réttvísina, sem mun setjast að í eyðimörkinni og réttlætið sem mun búa í aldingarðinum (32.16-18):

Ávöxtur réttlætisins verður friður og afrakstur réttlætisins hvíld og öryggi um eilífð. Þá mun þjóð mín búa í friðsælum heimkynnum, í öruggum hýbýlum, á næðissömum hvíldarstöðum.

Jata Jesúbarnsins getur verið okkur tákn þessa friðar, hvíldar og öryggis. En forsenda þess er að réttvísin setjist að í eyðimörk hjarta okkar, að réttlætið búi sér aldingarð innra með okkur, hverju og einu, og þjóðinni sem heild, að við hlúum hvert að öðru og höfum Guðs orð fyrir leiðarstein í stafni, eins og sungið var við ferminguna mína forðum.

Vil ég mitt hjartað vaggan sé... Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla, hann skal nefndur: Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.

Búum jólabarninu, Jesú Kristi, stað í hjarta okkar. Við þörfnumst svo sannarlega Undraráðgjafans, Guðhetjunnar, Eilífðarföðurins, Friðarhöfðingjans. Tökum undir með prófastinum í Heydölum, sr. Einari Sigurðssyni, sem orti svo fyrir um fjórum öldum:

Þér gjöri´eg ei rúm með grjót né tré, gjarnan læt ég hitt í té, vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér, minn kæri...

Vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér, minn kæri. Gleðileg jól.