Máttur kærleikans

Máttur kærleikans

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
24. desember 2001
Flokkar

Guðspjall: Lúk. 2:1-14

Ó Jesú barn, þú kemur nú í nótt og nálægð þína ég í hjarta finn Þú kemur enn, þú kemur undra hljótt í kotin jafnt og hallir fer þú inn.

Hin helga jólahátíð er gengin í garð og hjörtu okkar gleðjast því að við finnum fyrir nærveru barnsins helga Jesú Krists sem hvílir í stalli lágum. Lausnari heimsins er fæddur og hrærð og auðmjúk krjúpum við á kné við jötu hans. Og Jesú barnið knýr dyra og það eru margir sem opna hjörtu sín fyrir þessu barni á jólum.

Það er undursamlegt hversu mikið vald börnin hafa yfir okkur því að okkur langar til að umvefja þau og veita þeim alla þá hlýju sem við eigum til að bera frá fyrstu tíð. Þannig birtist máttur kærleikans í litlu barni sem þarf að reiða sig á umhyggju foreldra sinna og þeirra styrku hönd þegar það fetar fyrstu skrefin út í lífið. Og þetta kærleiksvald ber sigur úr býtum þegar á hólminn er komið. Það stenst enginn þetta vald til lengdar sem hefur eitthvað annað í hyggju. Máttur kærleikans sem birtist t.d. í fyrirgefningunni, góðvildinni, umburðarlyndinu, og langlyndinu er svo sterkt að allt sem vill brjóta þessar dyggðir víkur fyrir því.

Ljósið er sterkara en myrkrið. Boðskapur jólanna hlýtur að vekja með okkur vonarríkar kenndir þegar við horfumst í augu við myrkrið sem víða ríkir í heiminum. Við höfum áhyggjur af þróun mála í heiminum, t.d fyrir botni Miðjarðarhafs í landinu helga þar sem stjarnan skein forðum svo skært yfir Betlehem. Þar virðist hið illa hafa náð undirtökunum eins og svo oft áður. Hatur, illvilji, kuldi og kærleiksleysi valda sárum og sundrungu. Þjóðir heims reyna nú allt sem hægt er til þess að fá Ísrael og Palestínu til að setjast að samningaborði í þeirri trú að hægt sé að sigra illt með góðu. Það gerist þegar við fyrirgefum og þegar kærleikur og miskunnsemi ná yfirhöndinni

Vald kærleikans birtist einnig í umhyggju hirðanna á Betlehemsvöllum gagnvart kindunum sem þeim var trúað fyrir að gæta dag og nótt. Þeir voru tilbúnir til þess að leggja líf sitt í sölurnar fyrir þær.

Máttur kærleikans birtist í umhyggju engilsins sem flutti hirðunum gleðilegan boðskap: Verið óhræddir. Yður er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks. Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu. Hirðunum hlotnaðist sá heiður að heyra fyrstir manna þennan gleðiríka boðskap. Sem gyðingar höfðu þeir beðið eftir að Messías kæmi og þessi yfirskilvitlega reynsla á Betlehemsvöllum vakti með þeim þrá að fara og finna þetta reifaða ungbarn sem lá í jötu en engillinn hafði sagt þeim að það væri frelsari þeirra.

Máttur kærleikans birtist hirðunum í umhyggju Maríu og Jósefs fyrir sínu nýfædda barni sem gáfu því alla þá ást sem þau áttu til. Þegar hirðarnir sögðu þeim frá því sem þeir höfðu séð og heyrt á Betlehemsvöllum þá styrktist María í sinni trú að Guð hefði falið sér að fæða sjálfan son sinn í þennan heim. Og auðmjúk axlaði hún þá ábyrgð sem í því fólst og ól barnið þegar sá tími kom að hún ætti að verða léttari.

Vald kærleikans birtist í viðbrögðum gistihúseigandans sem vísaði Maríu og Jósef á gripahúsið. Hann hefði getað sleppt því að minnast á gripahúsið en gerði það ekki sem betur fer. Það var miklu betra fyrir þau að fá inni í gripa húsinu innan um skepnurnar og þefinn sem frá þeim lagði og töðunni heldur en að vera í yfirfullu gistihúsi þar sem mannaþefur og skarkali var yfirgengilegur. Í gripahúsinu ríkti kyrrð og friður. Þar var þurr taða og jatan þægilegur og hlýr áningarstaður fyrir Jesú barnið. Þeir sem þekkja til segja að það sé gott að liggja sem lengst á garðanum og anda að sér töðulyktinni og hlusta á hljóðin sem fylgja skepnunum í fjárhúsinu. Í hinni helgu frásögu er ekki sagt frá því hversu lengi María og Jósef dvöldu ásamt barni sínu í gripahúsnu. Þar máttu þau dvelja eins lengi og þau kusu sjálf. Þannig birtist þeim gestrisni Guðs sjálfs í þeirra garð. Þetta var allt hluti af áætlun Guðs að grípa með þessum hætti inn í aðstæður þeirra, þegar þau fengu inni í gripahúsi.

Máttur kærleikans birtist Jesú barninu í atferli og gjöfum vitringanna þriggja sem ferðuðust um langan vel á úlföldum sínum og tóku mið af stjörnunni uns hún staðnæmdist yfir Betlehem. Þeir færðu barninu dýrmætar gjafir, gull, reykelsi og myrru. Þessar gjafir vitringanna minna okkur á sjálfa jólagjöfina sem öllum gjöfum tekur fram, barnið í jötunni, manninn á krossinum, hinn upprisna frelsara okkar Jesú Krist sem hefur gefið okkur þá von sem aldrei deyr. Því svo elskaði Guð heiminn að hann GAF son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Máttur kærleikans verður okkur hverju og einu augljóst þegar við opnum hjartadyr okkar til fulls fyrir Jesú og leyfum anda hans að hafa áhrif á líf okkar, leyfum honum að móta það, efla og blessa á alla lund. Guð vill að við tileinkum okkur hið góða, fagra og fullkomna í trú, von og kærleika svo að við getum verið gjafara ljóssins og lífsins sem börn ljóssins og að allt sem við gerum og segjum sé í kærleika gjört og talað.

Ef þú vilt að vald kærleikans verði augljóst í lífi þínu þá skaltu gera eftirfarandi:

Farðu inn í herbergi þitt og játaðu syndir þínar frammi fyrir almáttugum Guði og bið þú hann um að fyrirgefa þér þær og trúðu því að hann hafi fyrirgefið þér syndirnar. Síðan skaltu biðja Jesú að koma inn í hjarta þitt og vera með þér á vegum þínum. Farðu síðan og biddu þá um fyrirgefningu sem þú hefur brotið gegn og vertu sjálf/ur reiðubúin/n að fyrirgefa þeim sem hafa brotið gegn þér.

Ef þú veist af einhverjum sem er einmana um þessi jól þá skaltu bjóða honum heim til þín og ala önn fyrir honum þar eða heimsækja hann færandi hendi. Ef þú veist af einhverjum sem er hungraður þá skaltu gefa honum að borða. Ef þú veist af einhverjum sem býr við skort þá skaltu gefa honum af gnægtaborði þínu. Ef þú veist af einhverjum sem er klæðlítill þá skaltu gefa honum eitthvað af fatnaði þínum. Ef þú veist af einhverjum sem er veikur þá skaltu hlú að honum eftir bestu getu. Ef þú veist um einhvern sem sorgin þjakar þá skaltu veita aðstoð þína og ég minni á söfnunina á Ólafsvík í þessu sambandi. Ef þú veist um einhvern sem er atvinnulaus þá skaltu leitast við að útvega viðkomandi vinnu ef það er á þínu valdi. Ef þú fréttir af einhverjum sem sannarlega er rangindum beittur þá skaltu verja hann og tala vel um hann í eyru annarra.

Láttu ekki hjá líða að hjálpa náunga þínum en með því móti ber þú trú þinni á Jesú Krist vitni.

Leggjum kapp á að ástunda það sem er gott, fagurt og fullkomið og byrjum heima hjá okkur hverju og einu með því að líta í eigin barm með hjálp jólaljóssins. Berum síðan þetta ljós til samferðafólksins með þá bæn í brjósti að það megi gefa því bjarta framtíð. Guð gefi okkur til þess kærleika, djörfung og frið á þessum jólum og þegar þeim sleppir