Verið glöð

Verið glöð

Orð postulans: „Verið glöð!“ fá aðra merkingu. Hvatning hans snýr að því að gleðin sé afleiðing þess að eiga sér tilgangsríkt líf, inntak og merkingu sem gefur dögunum aukið gildi og á nóttinni fær sálin frið og hvíld. Það er nefnilega fegurð í trúnni. Hún ávarpar okkur, hvert og eitt sem einstakar sálir, ómetanleg verðmæti sem höfum gildi þrátt fyrir veikleika okkar og vankanta.

Nú erum við farin að flytja hvert öðru kveðjuna fallegu, gleðileg jól. Og á föstudaginn, sjálfan aðfangadag, ómar hún um heimili og kirkjur – já ósk okkar um að jólin verði rík að gleði og hamingju.


Gleðin


Gleðin er merkilegt fyrirbæri. Við lifum á tímum þar sem gleðin skipar stóran sess. Fáir njóta viðlíka hylli og skemmtikraftarnir, þeir sem fá okkur til að hlægja. Aðstæðurnar eru líka þannig að við getum á augabragði fundið eitthvað fyndið og skemmtilegt. Myndum er deilt á samfélagsmiðlum og sumar hverjar eru, já þannig gerðar að við verðum kát, já glöð eitt andartak.

 

Það væri víst fjarri öllu viti að amast yfir þessu. Ég hef skellt upp úr yfir Ara Eldjárn og starfssystkinum hans sem fara á kostum við að leika þjóðþekktar persónur, þessa þjóðaríþrótt okkar. Ég man líka eftir því þegar ég sótti afmæli og mannamót fyrir hrun að þeir gestgjafar sem komist höfðu í góðar álnir buðu gjarnan með einhver skemmtiatriði. Jóhannes eftirherma var tíður gestur. Þegar gleðin sú var á enda og gróðinn fuðraði upp, þá datt mér í hug viðskiptatækifæri ef einhver saknaði eftirhermunnar en hafði ekki efni á henni. Ég bauðst semsagt til að herma eftir Jóhannesi eftirhermu gegn vægu gjaldi. Eftirspurnin reyndist vera engin.


Verið glöð

 

Í textum dagsins er gleðin við völd, getum við sagt. „Hversu yndilegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur...“ Svona hefst þessi texti úr Spádómsriti Jesaja og unnendur tónskáldsins Handels kannast við aríu úr Messíasi sem flytur einmitt þennan texta á undurfagran hátt. Og postulinn ávarpar Filippímenn og segir: „Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð!“

 

Ég lofaði að amast ekki við gleðinni en verð samt að segja að þessi skipun hljómar svolítið eins og tilmælin sem allir grínistar óttast: „Vertu fyndinn!“ „Verið glöð!“ Þarf ekki eitthvað að koma til í umhverfi okkar og líðan til þess að við getum glaðst? Verður ekki einhver snillingurinn að finna fyndinn flöt á grámósku umræðunnar til að við brosum? Þurfum við ekki að hafa þokkalega umgjörð utan um líf okkar til að við getum glaðst?

 

Reyndin var reyndar önnur í tilviki höfunda þessara texta. Jesaja þessi var enn í útlegð með hluta þjóðarinnar þar sem þau höfðu þrælað í landi Babýlóníumanna. Þetta örlagaár 587 fyrir Krist vann Nebúkadnesar konungur þeirra sigur á Ísraelsmönnum og rak stóran hóp fólks frá heimahögum sínum í ánauð í sínu eigin landi. Orðin sem hann flytur boða endalok þeirrar ánauðar. Þau myndu fá að snúa aftur til síns heima og hefjast handa við að reisa musterið upp úr rjúkandi rústum. Þau höfðu þraukað, ekki glatað sérkennum sínum og eðli og nú tækju við nýir og bjartari tímar.

 

Sjálfur var postulinn í fangelsi þegar hann skrifaði þessi orð. Það skýrir mögulega þessa afdráttarlausu skipun sem hann flytur Filippímönnum – orðunum beinir hann mögulega ekki síður að sjálfum sér: „Vertu glaður!“ Um leið greinum við ákveðna þætti á gleðinni. Hún getur magnast upp við mótlætið en þá fyrst og fremst þegar við höfum eithvert háleitt markmið sem við stefnum að. Postulinn talar líka um ljúflyndi fólks og vonina um að Drottinn sé í nánd sem ástæðu gleðinnar. Og þennan frið sem hann segir vera æðri öllum skilningi. Af hverju skyldi það vera? Getur ekki verið að friðurinn búi innra með fólki og víki ekki þótt umhverfið sé fjandsamlegt?

 

Sjálft guðspjallið er svo helgað leiðtoganum Jóhannesi sem hafði til að bera þá auðmýkt sem ómar af sjálfstrausti. Hann var ekki að hreykja sér upp eða hefja sig yfir aðra: „skóþveng [þess sem kemur á eftir mér] er ég ekki verður að leysa“ segir Jóhannes. Og kristnir menn hafa skynjað styrkinn sem býr í orðum hans. Honum varð síðar helgaður einn fegursti og bjartasti dagur ársins – sjálf Jónsmessan þegar sólin er hæst á lofti.


Að gleðja aðra

 

Blökkumannaleiðtoginn Martin Luther King talar inn í þessa hefð þar sem hann barðist fyrir því að hörundsdökkir landar hans þyrftu ekki að vera í ánauð og oki reglna sem settu þá skör neðar hvítum íbúum landsins. Hann sagði á einum stað að þau sem væru ekki að leita hamingjunnar væru líklegust til að finna hana. Þau sem aftur á móti hafa gert hana að sínu æðsta markmiði vilja gleyma því að vísasta leiðin til hamingju er að gera aðra hamingjusama.

 

Segja þessi orð ekki sitthvað um gleðitímana okkar sem hafa þó á sér nokkur einkenni þess að vera gleðisnauðari en í fyrstu mætti ætla.


Tímar kvíða

 

Nú í síðustu viku flutti Björn Hjálmarsson, geðlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans okkur dapurlegar fréttir sem snertu einmitt á þessu. Það var ekki annað að heyra á honum en að hann teldi suma gleðivaka samtímans hafa rænt mörg ungmenni gleðinni og fyllt þá andstæðu hennar, kvíðanum. Þetta eru vond tíðindi en við vitum það þó mörg að sá vágestur sem kvíðinn er, sækir að mörgum á okkar tímum og sá hópur virðist fara ört stækkandi.

 

Björn þessi staðfestir þær grunsemdir í viðtalinu. Að hans sögn hafa „rúmlega 11 prósent stúlkna á aldrinum 12 til 17 ára [...] fengið uppáskrifuð þunglyndis- eða kvíðalyf á árinu samkvæmt Landlækni, og hafa þær aldrei verið fleiri. Línuleg aukning hefur orðið á notkun þessarra lyfja allt frá árinu 1998.“

 

Það vakti athygli mína hvert geðlæknirinn horfði þegar hann leitaði að skýringum. Jú, hann benti á glaðværðina sem mætir okkur hverja vökustund á samfélagsmiðlum. Hún getur grafið undan sjálfstrausti og sjálfsmati fólks. En hann sagði meira: „Sorgin er að verða meira og meira sjúkdómsvædd. Þeir sem eru sanntrúaðir, þeir geta sótt svo mikinn mátt í trúna. Trúarheimspeki, það að geta sótt styrk í æðri mátt, trúin á hið góða, hið fagra og hið fullkomna er mjög góður styrkur.“

 

Mér varð einmitt hugsað til þessa viðtals þegar ég hugleiddi þessa texta sem við hlýddum hér á. Þetta er ekki innantómur hlátur og andartaks innlit í líf hinna fögru og frægu. Nei, þetta er raunveruleg sannfæring sem segir fólki að jafnvel þegar heimurinn sýnir á sér sínar verstu hliðar, er Guð alltaf nærri og hjálpin þar með. Það er þessi friður sem er æðri öllum skilningi.

 

Þessi „trúarheimspeki“ sem læknirinn orðar svo snýst öðru fremur um það að geta horft á lífið á erfiðum stundum og skynjað að við erum ekki ein í mótlæti okkar. Við greinum mögulega á milli yfirborðs og þess sem býr þar undir, á milli umbúða og innihalds. Við finnum og skynjum að við tilheyrum því sem er ekki forgengilegt heldur lifir þvert á móti áfram. Eins og Jesús sagði: „Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.“

 

Björn talar um tómarúmið sem trúleysið skilur eftir. Tæknihyggjan reynir að mæta því með því að ávísa meiri og meiri lyfjum til ungra einstaklinga. En þau eru engin framtíðarlausn eins og hann bendir á. Þau veita ekki inntakið þaðan sem gleðin vex upp. En í heimi þar sem gleðin getur orðið óþægileg kvöð á fólk, ekki síst unga fólkið okkar, það til að fyllast sektarkennd ef hún er ekki til staðar.


Gleðin ef afleiðing

 

Orð postulans: „Verið glöð!“ fá aðra merkingu. Hvatning hans snýr að því að gleðin sé afleiðing þess að eiga sér tilgangsríkt líf, inntak og merkingu sem gefur dögunum aukið gildi og á nóttinni fær sálin frið og hvíld. Það er nefnilega fegurð í trúnni. Hún ávarpar okkur, hvert og eitt sem einstakar sálir, ómetanleg verðmæti sem höfum gildi þrátt fyrir veikleika okkar og vankanta.

 

Stundum er látið eins og boðorð trúarinnar miði sífellt að því að grafa undan öryggi okkar og sálarró. En því er þveröfugt farið. Þeim er aðeins ætlað að tryggja það að samfélagið geti unnið og starfað, að þar ríki friður og réttlæti. En þegar kemur að því að leggja dóm á okkur sjálf þá boðar kristin trú í það minnsta að náðin Drottins sé okkur nóg. Það er þessi skilyrðislausi kærleikur sem við trúum að standi ofar hverri kröfu. Og hvetur okkur auðvitað til að miðla þeirri ást áfram til náungans og umhverfis okkar, þar sem hamingjan okkar sjálfra birtist óvænt – eins og leiðtoginn Martin Luther King benti á.

 

Gleðileg jól! þetta ávarp er þegar farið að hljóma og mun vonandi berast á milli fólks af enn meiri innlifun og einlægni þegar hátíðin svo gengur í garð. Er hún ekki svipuð orðum postulans? „Verið glöð!“? Að baki henni er jú þessi ósk að við látum ekki hið tímanlega og hverfula móta líf okkar um of, að við setjum okkur ekki undir dóm og kastljós þess sem er ekki varanlegt heldur gufar upp og gleymist á augabragði og nýir mælikvarðar taka við.


Fegurðin í látleysinu

 

Hún beinir sjónum okkar að látleysi jötunnar þar sem hvítvoðungurinn hvílir og segir við okkur: Hér sérðu hinn æðsta og máttugasta í allri sinni dýrð.

 

Dýrðin hans snýr ekki að því að hann drottni yfir öðrum í krafti máttar og yfirburða. Hún er þvert á móti mátturinn sem auðsæranlegt og hjálparvana ungbarnið hefur jafnvel í meiri mæli en nokkur annar. Það er máttur kærleikans. Barnið fær okkur til að gleyma okkur sjálfum og helga okkur umhyggjunni við hið varnarlausa líf. Og það þekkja þau sem ala önn fyrir börnum, að hversu slítandi sem sú umhyggja getur verið, stundum vanþakklát og rýr á svefn og hvíld, þá fyllir hún líf fólks tilgangi og merkingu.

 

Já, gleðin leynist oft þar sem hennar er síst von. Ósk mín er sú að við getum öll á gleðileg jól og gleðiríkt líf sem byggir á innihaldi og sönnum tilgangi.