Nú var vígsluhátíðin í Jerúsalem og kominn vetur. Jesús gekk um í súlnagöngum Salómons í helgidóminum. Þá söfnuðust Gyðingar um hann og sögðu við hann: "Hve lengi lætur þú oss í óvissu? Ef þú ert Kristur, þá seg oss það berum orðum."
Jesús svaraði þeim: "Ég hef sagt yður það, en þér trúið ekki. Verkin, sem ég gjöri í nafni föður míns, þau vitna um mig, en þér trúið ekki, því að þér eruð ekki úr hópi sauða minna. Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni. Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er meiri en allir, og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins. Ég og faðirinn erum eitt."Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.Jh 10. 22-30
Það er vígsluhátíð í Jerúsalem, gyðingar minnast endurreisnar og hreinsunar musterisins. Það er kirkjudagur í borginni helgu. Meistarinn gengur um í súlnagöngum Salómons, það dregur til tíðinda, þessi umdeildi vakningarpredikari er kominn á áfangastað. Gyðingarnir safnast saman og leggja fyrir hann spurningu. Það verður að komast á hreint hver þessi maður er og hvert umboð hans er.
Meðal fyrirspyrjenda eru lærðir menn, farísear og prestar. Spurningin sem brennur á vörum allra er sett fram, eftirvæntingin er mikil og blendnar tilfinningar ríkja meðal áheyrenda. Þarna eru nokkrir sem í einlægni vilja fá það staðfest hvort Jesús sé hinn smurði Drottins, sem heilagar ritningar hafa lofað að komi til að leysa þjóðina úr álögum.
Aðrir eru fyrirfram ákveðnir. Jesús er hættulegur uppreisnarmaður sem ógnar hagsmunum klerkanna og því valdi sem þeir hafa á fólkinu með kenningunni og stjórn helgihaldsins. Þeir vilja leiða hann í gildru og sanna á hann trúvillu og því næst þjarma að honum og gera hann óskaðlegan.
Svarið kemur og það er afdráttarlaust. Jesús tekur af skarið, dregur línurnar skýrt og greinilega og á hnitmiðaðan hátt nefnir hann forsendurnar og tínir til rökin. Það er ekki hægt að útskýra þetta betur.Hann lýsir kirkju sinni í örfáum setningum, nýr tími er að renna upp, nýtt samfélag, ný framtíð, það er enginn vafi lengur í huga þeirra sem á hann hlýða. Áhrifin eru sterk, frelsarinn er mættur á staðinn.
Þjónunum í musterinu sortnar fyrir augum og það fer hrollur um prestana – fræðimennirnir standa á öndinni og fólkið er furðu lostið þegar aðkomupredikarinn klikkir út með setningunni: „Ég og faðirinn erum eitt.“ Og Gyðingarnir taka aftur upp steina til að grýta hann.
Aftur erum við stödd á kirkjudegi og nú hér í Reykholti. Hér er musteri, nýtt og glæsilegt og við rifjum upp söguna og hefðina. Hver kirkjudagur, já hver guðsþjónusta í þessu húsi er haldin til að minna okkur á kjarnann í boðskap kirkjunnar, þess safnaðar sem Kristur stofnaði með lærisveinum sínum. Í hverri guðsþjónustu erum við að draga þennan boðskap fram í dagsljósið, hreinsa musterið – kalla söfnuðinn saman og endurnýja sambandið við Guð, styrkja okkur í trúnni og gleðjast yfir fyrirheitunum sem hann hefur gefið okkur.Við heyrum kallið og við fylgjum honum sem sagði um söfnuð sinn: „Ég þekki þá, og þeir þekkja mig og enginn skal slíta þá úr hendi minni.“ Reykholt varðveitir minjar og minningar um rithöfundinn Snorra Sturluson sem hér sat umdeildur höfðingi á 13. öld. En hvernig kemur þessi auðmaður og stjórnmálamaður við sögu íslenskrar kristni? Hvað koma sögur af Noregskonungum okkur við þegar við komum saman á kirkjudegi í Reykholti? Hvað hefur Snorra-Edda með kristinn sið að gera?
Snorri hlaut klassíska menntun í kristnum fræðum á mesta höfðingjasetri landsins í Odda á Rangárvöllum. Hann hefði getað valið klerkdóm eins og uppeldisbróðir hans Páll Jónsson, sem varð biskup í Skálholti, en frændur hans og vinir sáu í honum veraldlegan höfðingja og stjórnmálamann og þeir höfðu rétt fyrir sér. Snorri varð valdamesti og auðugasti höfðingi landsins. En það kom einnig í ljós að með dvöl hans á menntasetrinu í Odda hafði verið lagður grunnur að einstökum lærdóms- og rithöfundarferli.
Í Odda hefur Snorri komist í kynni við forna sagnageymd, sem lifað hafði ásamt með klerklegum lærdómi að öllum líkindum frá upphafi byggðar á Íslandi. Þetta voru sögur af landnáminu, ættarsögur, sögur af framandi þjóðum, goðsögur og dýrlingasögur. Þessir tveir heimar, hinn klassíski kristni – byggður á Biblíunni og helgihaldi kirkjunnar og goðsagnaheimur heiðninnar, fengu að lifa hlið við hlið á miðöldum og frumleiki Snorra og trúverðugleiki felst ekki síst í því hvernig hann samþættir þá að því er virðist átakalaust í ritum sínum. Þetta má heita merkilegt einkenni á íslenskum bókmenntum og sennilega einsdæmi á tíma þegar miðstýrð kirkja var búin að rótfesta sig í landinu.
Það er því ekki óeðlilegt að spurt sé hvort Snorri hafi verið blendinn í trúnni eins og landnámsmaðurinn Helgi magri, tilbeðið Krist heima hjá sér í friði og spekt, en heitið á Þór í harðræðum og harki stjórnmála – hvort það sem hann skrifaði hafi verið frumstæður, grunnfærinn sambræðingur ólíkra trúarbragða – og jafnvel hvort Íslendingar hafi nokkurn tímann orðið almennilega kristnir. Því hefur ósjaldan verið haldið fram og ýmislegt tínt til því til sönnunar. Það er jafnvel talað um frumkristni á Íslandi.
Margt bendir til þess að aldrei hafi orðið hlé á kristnu helgihaldi frá því að fyrstu menn stigu hér á land. Munkarnir sungu sínar tíðir á latínu og fluttu með sér bókmenningu og þegar grant er skoðað er það ólíklegt að engin tengsl hafi skapast milli þeirra og kristinna landnámsmanna og fylgdarliðs þeirra frá Írlandi. Einsetumunkarnir sátu ekki alltaf einir í skútum sínum og hellum, þeir voru kennarar og læknar og sálusorgarar sem fólkið leitaði til. Við getum því ekki tekið Ara fróða sem algilda heimild þegar hann skrifar sína bók um landnámið um miðja 12. öld.
Helgihaldið útheimti margvíslega þekkingu, t.d. tímatalsfræði því að það varð að reikna út páskana á hverju ári. Predikunin byggði á frásögum af heilögum mönnum, heimsviðburðum, fréttum af konungum og annálum úr sögu kirkjunnar. Trúarkennslan þurfti þýðingar, útleggingar og heimfærslu, þ.e. þekkingu á ríkjandi menningu og táknheimi.
Það er augljóst að löngu fyrir hina opinberu kristnitöku var farið að temja fornnorrænt mál að kristinni hugsun. Það má sjá í Eddukvæðum, jafnvel þeim sem talin eru alheiðin. Elstu íslensku textarnir sem varðveist hafa sýna að ekki var um neina frumstæða og eða skrumskælda tjáingu kristinnar játningar að ræða heldur háþróað málfar þar sem gömul heiti og kenningar fá klassískt kristið inntak og vitna um þroskaða trúarhugsun. Sólarljóð eru gott dæmi um þetta og myndræn túlkun þeirra prýðir suðurglugga kirkjunnar hér.
Keltnesk kristni sem hefur verið útbreydd hér á landi áður en skipulögð Rómarkristni, studd biskupum og konungsvaldi, varð allsráðandi. Sú grein kristninnar er umburðarlynd gagnvart þeirri menningu sem fyrir er og lagar sig betur að aðstæðum en hin miðstýrða kristni sem Noregskonungar sendu út hingað.
Ég tel að Snorri hafi byggt á þessum arfi og að bjargföst kristin hugsun hans og grunnmentun hafi gert það að verkum að hann gat færst það í fang að safna goðsögum og heimildum um hið forna skáldskaparmál, án þess að eiga yfir höfði sér fordæmingu kirkjunnar. Hann var öruggur um sína trú og vissi að hin fornu ljóð og sögur grófu ekki undan starfi og stöðu kirkjunnar.
Sagan og menningin vitna um mátt kristins boðskapar sem hér hefur verið fluttur frá upphafi byggðar – og margt á eftir að finna og grafa úr jörð til þess að myndin verði skýrari. Við verðum að leggja rækt við hefðina og forsendur hennar og varðveita hana.
Þegar við tileinkum okkur hefðina verður hún lifandi á ný. Í henni er fólginn grunnur samfélagsins og lykillinn að hamingju okkar sem einstaklinga og þjóðar.
„Verkin sem ég gjöri í nafni föður míns þau vitna um mig,“ segir meistarinn frá Nasaret, sem svaraði spurningunni í súlnagöngum Salómons forðum.
Hefðin og sagan færist inn í nútímann og Orðið fær líf. Þannig endurnýjum við hefðina og flytjum nýjum kynslóðum kjarna boðskaparins sem er traustið á einn sannan Guð. Í ljósi hans skulum við skoða og endurskoða hefðina og stofnunina, því aðeins ef við gerum það getum við trúað á framtíðina, trúað á nýja tíma. Megi þessi kirkjudagur og öll guðsþjónusta í landinu verða til þess að endurreisa og hreinsa musteri hans. Þá höldum við hátíð í orðsins fylstu merkingu.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Predikun á Reykholtshátíð 29. júlí 2007