Gjald friðarins

Gjald friðarins

Þess vegna segir Elhanan að gjald friðarins sé hæfnin til þess að sýna náunga sínum sömu virðingu og maður vill sjálfur njóta, að vera tilbúinn til og taka ákvörðun um að elska náunga sinn eins og sjálfan sig. Og í orðum Jesú um að elska óvini sína felst eðli máls samkvæmt sú krafa að hætta að líta á óvini sína sem óvini og fara að líta á þá sem náunga sinn. Og það er nákvæmlega það sem þeir Bassam og Elhanan og öll hin sem tilheyra fjölskyldunum 600 í Parents Circle hafa gert.
Mynd

Prédikun flutt í Seltjarnarneskirkju 12. nóvember 2023.

Lexía: 1Kon 17.8-16; Pistill: Post 20.32-35; Guðspjall: Mrk 12.41-44

https://kirkjan.is/kirkjan/kirkjuarid

Á dögunum var maður spurður af blaðamanni í viðtali í virtu tímariti: „Þér hafið sagt, að átakalínan í Miðausturlöndum liggi ekki á milli palestínskra múslíma og ísraelskra gyðinga heldur á milli þeirra sem vilja ekki frið og þeirra sem eru tilbúin til þess að greiða gjald fyrir frið. Hvert er gjaldið?“ Svarið hljómaði þannig: „Það er sáraeinfalt: Gjaldið er hæfnin til þess að sýna náunga þínum sömu virðingu og þú vilt að þér sé sýnd.“

Blaðamanninum fannst þetta svar – sem við sjáum öll að er að inntaki seinni hluti tvöfalda kærleiksboðorðsins – nokkuð einfeldningslegt og tjáði efasemdir sínar um að þetta væri einhver lausn á þeim pólitíska og landfræðilega hnút sem ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs væri í. Viðmælandi hans viðurkenndi að svo væri og að það yrði erfitt að leysa þann hnút og myndi ekki gerast á næstunni en hann tryði því samt að það myndi takast á endanum með því að aðilar hættu að fyrirlíta hvor annan. Ísraelar og Palestínumenn væru dæmdir til þess að búa saman á þessu svæði og því væri enginn annar möguleiki í stöðunni en að setjast aftur að samningaborðinu sem Jassir Arafat og Jitzak Rabin sátu við á sínum tíma og finna praktíska lausn á því að skipuleggja tvö sjálfstæð ríki Ísraels og Palestínu.

Sá sem þannig talar heitir Rami Elhanan, 73 ára ísraelskur gyðingur sem býr í Jerúsalem og hann var í viðtali sem birtist í þýska fréttatímaritinu Spiegel 4. nóvember sl. En hann var aðeins annar af tveimur viðmælendum. Hinn viðmælandinn heitir Bassam Aramin, 55 ára palestínuarabi sem býr í Jeríkó. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa báðir misst barnunga dóttur í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Dóttir Elhanans lést 1997 14 ára gömul þegar hryðjuverkamaður á vegum Hamas sprengdi sig í loft upp en dóttir Aramin var aðeins 10 ára á leið heim úr skólanum þegar ísraelskur landamæralögreglumaður skaut hana til bana árið 2007. Með sameiginlega reynslu af slíku tagi myndi maður ekki ætla að þessir tveir menn teldu sig eiga nokkuð sameiginlegt þess fyrir utan nema ef vera skyldi hatrið; en því er þveröfugt farið. Þeir heilsast með því að kalla hvor annan „bróður“ og hafa verið bestu vinir í mörg ár. Þeir tilheyra samtökum sem nefnast The Parents Circle, sem stofnuð voru 1995 og samanstanda af 600 gyðinga- og arabafjölskyldum sem misst hafa ættingja í átökunum og berjast fyrir friði í Ísrael og Palestínu. Saman hafa þeir ferðast bæði um heimahaga sína sem og um allan heim til þess að tala fyrir samtali og friði á milli stríðandi fylkinga – eitt par af mörgum álíka í samtökunum. Í ljósi yfirstandandi atburða er saga þeirra svo hjartnæm að hún er í raun tilbúin fyrir hvíta tjaldið eins og blaðamaður Spiegel orðar það. Og enda hafi enginn annar en Steven Spielberg það í bígerð.

Það er eitthvað óendanlega dýrmætt við það að lesa slíka frásögn – þótt það sé bara eitt viðtal – til mótvægis við allar hinar fréttirnar sem tröllríða fjölmiðlum og samfélagsmiðlum daglega, af blóðsúthellingum, hatri og hryllingi – fréttum sem skilja ekkert annað eftir en fullkomið vonleysi um að friður muni nokkurn tíma komast á í landinu sem fyrir gyðingum, kristnum og múslimum er „landið helga“. En fólk eins og Elhanan og Aramin og fjölskyldurnar allar í The Parents Circle sýna að möguleikinn á friðsamlegri lausn er til staðar svo lengi sem slíkir friðmælendur eru til staðar.  Og það má ekki sópa þeirri von út af borðinu eins og hefur orðið æ meira áberandi síðastliðin ár og kannski áratug í opinberri umræðu um ástandið, þ.e. að lýsa tveggja-ríkja-lausn Arafats og Rabins dauðadæmda. Elhanan og Aramin tala um tvö ríki hlið við hlið sem einu raunhæfu lausnina og á það hafa helstu heimsleiðtogar einnig lagt áherslu undanfarnar vikur.

En vonleysi andspænis þessu ástandi er auðvitað fullkomlega skiljanlegt og það er vonleysi fönikísku ekkjunnar frá Sarefta í lexíu dagsins líka. Það er þurrkur og uppskerubrestur og hún á aðeins hnefafylli af mjöli og örlitla olíu og hún sér ekki fram á það í náinni framtíð að geta útbúið aðra máltíð handa sér og syni sínum. En þá birtist útlenskur maður, Ísraelíti, og biður hana að útbúa fyrir sig máltíð. Eðlilega skorast hún undan í ljósi skorts síns en lætur þó undan og bakar handa honum lítið brauð úr hluta af mjölinu þegar Elía sannfærir hana um að ef hún geri það muni mjölið og olíuna ekki þrjóta þangað til fari að rigna og náttúran gefi sína eðlilegu uppskeru á ný. Vonleysi ekkjunnar er algjört og hún er sannfærð um að vís dauði blasir við. Og kannski skiptir það þá ekki svo miklu máli hvort hún taki hluta af mjölinu og olíunni og gefi Elía.

En frásögnin gefur samt skýrt til kynna að ekkjan eigir von í fyrirheiti Elía, eins fráleitt og ótrúlegt það er, og það meira að segja af munni útlends manns sem er spámaður annars guðs en hennar, guðs sem hún lítur ekki svo á að beri skylda til að koma henni til hjálpar. En rökvísi frásagnarinnar felst í því sem persóna Elía og höfundur frásagnarinnar þykjast vita en hún veit ekki og það er sú „staðreynd“ að það er bara einn Guð sem fæðir jafnt Fönikíumenn sem Ísraelíta. Hann er formlega guð Elía sem talar fyrir munn hans en hann reynist fönikísku ekkjunni líka Guð sem fæðir og lífgar. Fönikíumaðurinn og Ísraelítinn, ekkjan og Elía, standa saman undir merkjum lífsins Guðs, sem er sannarlega Guð og skapari allra manna. Guð sem spyr Kain á akrinum: „Hvað hefurðu gert? Blóð Abels, bróður þíns, hrópar til mín af jörðinni.“ Kain sem hafði svarað eftirgrennslan Guðs eftir Abel með hinum fleygu orðum: „Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?“

Saga Kains og Abels er saga mannsins en hún er ekki eina saga mannsins. Sagan af miskunnsama Samverjanum er einnig saga mannsins, miskunnsama Samverjanum sem segir við gyðinginn sem hann finnur í blóði sínu: „Bróðir minn. Ég skal gæta þín.“ Eins og Bassam Aramin og Rami Elhanan segja hvor við annan.

Þegar ég las viðtalið við þessa ólíklegu vini varð mér líka hugsað til eyris ekkjunnar, fátæku ekkjunnar í guðspjalli dagsins sem gefur af skorti sínum til þess að gera skyldu sína og til þess að vinna hina góða brautargengi. Þeir hafa misst börnin sín og líklegustu afleiðingarnar af því hefðu verið þær að festast í því að hata „óvininn“ – ekki bara einstaklingana sem tóku líf barnanna þeirra heldur þjóðina sem þeir tilheyrðu. En sú sorglega staðreynd að það eru algengustu viðbrögðin við slíkum hörmungum skýra að hluta til hatrið sem ríkir.

En eins og fátæka ekkjan gefur af fullkomnum skorti sínum ákveða þeir að gefa úr hyldýpistómi síns óbærilega missis – og gjöf þeirra beggja er kærleikur, einmitt sú birtingarmynd kærleika sem Páll talar um í pistli dagsins og seinni hluti tvöfalda kærleiksboðorðsins er að tala um og Jesús teygir á enn frekar með því að láta það ekki aðeins ná til „náunga síns“ heldur einnig til „óvinar“ síns. Það væri misskilningur að halda að þessi kærleikur sé spurning um persónulegar tilfinningar; hann snýst ekki um að manni líki við þennan eða hinn. Þessi kærleikur snýst fyrst og fremst um meðvitaða virðingu fyrir öðrum manneskjum og rétti þeirra til lífs í reisn. Það má með góðum rökum halda því fram að merking sagnarinnar „að elska“ á hebresku sé í grunninn að hafa e-ð í hávegi og sú krafa að elska náungann eins og sjálfan sig merki því að leggja hans eða hennar rétt og hagsmuni að jöfnu við eigin rétt og hagsmuni. Að láta sér annt um ekkjuna, munaðarleysingjann og útlendinginn er sprottið úr þessu viðhorfi og einnig þeirri trúarsannfæringu að öll séum við Guðs börn og jafn dýrmæt í augum hans. Þessi krafa hefur því ekkert með ást að gera eins og við upplifum hana gagnvart fjölskyldu okkar og bestu vinum. En engu að síður er hún nógu mikil áskorun: að virða rétt og hagsmuni annarra eins og um sína eigin væri að ræða.

Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þessi kærleikur um frið, um að í samfélaginu ríki ástand sem geri sérhverjum íbúa þess kleift að njóta öryggis og velsældar.

Þess vegna segir Elhanan að gjald friðarins sé hæfnin til þess að sýna náunga sínum sömu virðingu og maður vill sjálfur njóta, að vera tilbúinn til og taka ákvörðun um að elska náunga sinn eins og sjálfan sig. Og í orðum Jesú um að elska óvini sína felst eðli máls samkvæmt sú krafa að hætta að líta á óvini sína sem óvini og fara að líta á þá sem náunga sinn. Og það er nákvæmlega það sem þeir Bassam og Elhanan  og öll hin sem tilheyra fjölskyldunum 600 í Parents Circle hafa gert. Og á meðan slíkir vitar brenna er enn von um að náist til lands og hlutverk kirkjunnar og kristinna manna yfirleitt hlýtur að felast í því að vera slíkum vitum ljósmeti og að vera sjálf slíkir vitar vonarinnar.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.