Fegursta leyndarmál heimsins

Fegursta leyndarmál heimsins

Nú leggjast allir á eitt. Mitt í kjaraskerðingum og þrengingum er eins og menn hafi uppgötvað einhver djúp sannindi.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
22. desember 2009

Jólaskraut

Og við sátum í garðinum, tvö fátæk börn. Það var þá, er þú sagðir mér leyndarmál þitt, hið mikla leyndarmál, sem enginn hafði áður haft vitneskju um. Það var svo fagurt og dularfullt, það var fegursta leyndarmál heimsins. Steinn Steinarr: Kvæðið um Krist

Já, hvert er þetta fegursta leyndarmál heimsins? Snýst líf okkar ekki um leitina að því?

Stundum er þó eins og við sjáum ekki handa skil, blindumst af ásókn í það sem dregur okkur frá tilgangi okkar. Þá heyrum við ekki hvað það er sem talar til okkar sannleikann.

Tímarnir æða áfram. Breytingar eru allt í kringum okkur. Að því kemur að dagar okkar eru á enda. Það er óumflýjanlegt hlutskipti alls þess sem lifir. Margt af því sem við gerum og sýslum við er eins og mótvægi við þeirri þróun. Þegar við komum upp föstum hefðum, eins og gjarnan er á helgum jólum, er eins og við spornum við þeirri óhjákvæmilegu þróun. Við upplifum eins og eilífðarkorn mitt í hinni stöðugu hrynjandi.

Allt er þetta hluti af því góða sem lífið býður upp á.

En leyndarmálið sem Steinn segist lesa út úr lífi frelsarans? Hefur það ekki verið að opnast fyrir okkur nú á þessum síðustu og verstu?

Höfum við ekki upplifað margfalda gleði við að gefa og styðja heldur en okkur hlotnaðist þegar ævintýralegar sögur gengu af landvinningum og ofsagróða? Nú leggjast allir á eitt. Mitt í kjaraskerðingum og þrengingum er eins og menn hafi uppgötvað einhver djúp sannindi.

Kristur sagði að sælla væri að gefa en þiggja. Gjafir okkar segja svo mikið til um það hver við erum. Við hugleiðum það nú sem aldrei fyrr hvert hlutskipti okkar er. Við tökum jú ekkert með okkur í gröfina en við skiljum hins vegar sitthvað eftir okkur.

Og það er einmitt þetta sem tilveran getur snúist um. Að skilja eftir sig það sem er gott og verðmætt, það sem lifir áfram, já lifir jafnvel lengur en við sjálf. Er það ekki fegursta leyndarmálið?