"Við yfirgáfum okkar eigið og fylgdum þér"

"Við yfirgáfum okkar eigið og fylgdum þér"

Pólitísk orðræða og prédikun kirkjunnar hafa það kannski sameiginlegt að hvort tveggja byggist á hugsjónum eða því sem á erlendum málum er kallað ídeal, einhvers konar hugmynd um hið besta mögulega ástand á hverju sviði, og marga hefur dreymt um að koma á fót fyrirmyndarsamfélagi í hugmyndasögu mannsins. En sá sem prédikar og sá sem gefur kosningaloforðin kemst fljótt að því að hægara er um að tala en í að komast. Prédikarinn missir sig gjarnan í að verða siðapostuli og kosningaloforðin ganga, þegar öllu er á botninn hvolft, yfirleitt um að kynda undir æstum dansi lýðsins í kringum gullkálfinn.

Prédikun flutt í Háteigskirkju 12. september 2021.

Ritningartextar: 2Mós 32.1-8; 1Tím 6.6-12; Lúk 18.28-30


Ég heilsa ykkur með kveðju postulans: Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Nú líður að kosningum eins og líklega hefur ekki farið fram hjá neinum.

Fallegar ljósmyndir af brosandi frambjóðendum prýða strætóskýli og fleiri fleti og kosningaslagorð gefa fögur fyrirheit. Og það er ekki laust við að maður dæsi þegar maður sér þau, vitandi að það er léttara að gefa kosningaloforð en að efna þau - rétt eins og það er auðveldara að prédika kærleika og fyrirgefningu en að iðka hvort tveggja.

Pólitísk orðræða og prédikun kirkjunnar hafa það kannski sameiginlegt að hvort tveggja byggist á hugsjónum eða því sem á erlendum málum er kallað ídeal, einhvers konar hugmynd um hið besta mögulega ástand á hverju sviði, og marga hefur dreymt um að koma á fót fyrirmyndarsamfélagi í hugmyndasögu mannsins. En sá sem prédikar og sá sem gefur kosningaloforðin kemst fljótt að því að hægara er um að tala en í að komast. Prédikarinn missir sig gjarnan í að verða siðapostuli og kosningaloforðin ganga, þegar öllu er á botninn hvolft, yfirleitt um að kynda undir æstum dansi lýðsins í kringum gullkálfinn.

Orð eru samt sem áður til alls fyrst – en þau eru jafnframt dýr. „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér“ segir Pétur og hinn gríski texti Lúkasarguðspjalls segir okkur að þar á hann við að þeir lærisveinarnir lögðu til hliðar allt sem þeir voru að sýsla, allar skyldur sínar gagnvart heimili og fjölskyldu og fylgdu Jesú: „Við yfirgáfum okkar eigið og fylgdum þér“ segir þar orðrétt.

Þessi orð hafa örugglega reynst mörgu kristnu fólki þung í skauti í gegn um aldirnar enda fæstir tilbúnir til að yfirgefa ástvini sína og það líf sem þeir lifa, jafnvel í þágu trúarinnar á Jesú. En sumir hafa gert það: klausturlifnaður er náttúrlega ekkert annað en tilraun til að fylgja einmitt því fordæmi sem menn hafa lesið úr eftirfylgd karlanna og kvennanna, sem fylgdu Jesú, og þessum orðum Péturs í guðspjallinu. Nunnur og munkar hafa sameinast í misopnum samfélögum sem hafa þann tilgang að vinna að framgangi guðsríkisins í heiminum, sem í framkvæmd getur birst á ólíkan hátt, allt eftir klausturreglum. Jafnvel þótt klausturreglur hafi að mestu lagst af í lútherskum sið er þær þó enn að finna í einhverjum mæli, t.d. í Þýskalandi. Og þrátt fyrir að öll klaustur hafi verið aflögð með siðbreytingunni á Íslandi þá hefur íslenskt nútímasamfélag ekki farið varhluta af þeim góðu verkum sem unnin eru í kaþólskum klausturreglum og er ég þar fyrst og fremst að hugsa til starfs St. Fransiskussystranna í Stykkishólmi, sem árið 1935 yfirgáfu allt og tóku sig upp úr heimahögum sínum í Belgíu og fylgdu Kristi á hjara veraldar, til Stykkishólms, til þess að byggja þar og reka spítala. Rannsóknir Steinunnar Kristjánsdóttur, fornleifafræðings, á íslenskum klaustrum á kaþólskum tíma, sýna að með starfi sínu tóku St. Fransiskussystur einfaldlega upp þráð sem illu heilli hafði slitnað við siðbreytingu: þar hefur verið rekin umfangsmikil hjúkrunar- og lækningastarfsemi og einnig hafa börn stórbænda líklega hlotið þar menntun.

Það sem var á könnu klaustranna, þar sem nunnur og munkar sinntu þeirri köllun sinni að vera hendur Guðs í því að sinna fólki í þörf og neyð, varð í löndum siðbreytingarinnar skylda furstans eða konungsins gagnvart þegnunum að skilningi siðbreytingarfrömuðanna. Það er því ekki hending að hið svokallaða velferðarríki kom fram á sjónarsviðið í Prússlandi og setti í kjölfarið mark sitt á önnur mótmælendaríki Norður-Evrópu. Hin persónulega köllun um að fylgja Kristi að því leyti sem hún áður hafði fundið farveg í samfélagi klaustursins varð þannig að einhverju leyti stofnanabundinn hluti af opinberu velferðarkerfi. Þeir eru til sem halda því fram að krafan á opinbera velferðarkerfið hafi svipt fólk tilfinningu fyrir sinni eigin persónulegu ábyrgð gagnvart náunganum og samfélaginu. Það er örugglega eitthvað til í því en hvað sem því líður er ljóst að Kristur gerir kröfu til sérhverrar kristinnar manneskju um að hún fylgi honum og vinni með honum að framgangi Guðs vilja. Á sama tíma er einnig skýrt að samfélag, sem kennir sig við Krist hlýtur að láta sér annt um háa sem lága, hvar sem þeir eru í sveit settir.

En þá hljótum við að spyrja okkur: gerir Kristur þá óræka kröfu um að hver sá sem vilji fylgja honum skuli í raun afsala sér réttinum til hversdagslegs lífs, með hefðbundinni atvinnu, heimili og fjölskyldu? Ættu þá allir að gerast munkar eða nunnur? Það gengi ekki upp af augljósum ástæðum.

Nánari skoðun ritningartextanna sýnir okkur enda að krafan er ekki sú. Texti guðspjallanna einkennist af því stílbragði sem kallast ofhvörf og felst í ýktum og svarthvítum myndum, sem dregnar eru upp til þess að ekkert fari á milli mála, hvað sé gott og hvað sé vont, hvað einkenni guðsríkið og hvað ekki, hver komist þangað inn og hver ekki. Þetta eru grófir pensildrættir og litirnir aðallega svartur og hvítur með gráum skuggum hér og þar. Þegar reynt er að ná úr ritningartextunum þeim litlu upplýsingum um félagslegar aðstæður Jesú og lærisveinanna sem hægt er, þá bendir allt til þess að á þeim tímum þegar lærisveinarnir voru ekki að fylgja Jesú á boðunarferðum hans, hafi þeir einfaldlega verið að sinna sínum daglegu störfum, á sínum eigin heimilum með sinni eigin fjölskyldu. Jesús var líka heima hjá sér, í Kapernaúm, sama bæ og bræðurnir Símon Pétur og Andrés áttu heima í. Að einhverjir lærisveinanna hafi búið hjá Jesú er ekki ólíklegt. En í það minnsta má ljóst vera að það að „yfirgefa allt og fylgja Jesú“ fólst ekki endilega í því að afneita fjölskyldu sinni eða hlaupast á brott frá skyldum sínum við hana, nema ef vera skyldi tímabundið. Engu að síður bendir svar Jesú í guðspjallinu vissulega til þess að fylgni við hann gæti hafa haft rof fjölskyldutengsla í för með sér. Þar hefur þó líklegast verið um það að ræða að það að gangast Jesú á hönd hefur í sumum fjölskyldum verið álitið svik við gyðinglegar hefðir og trú og þar með við fjölskylduna, sem kannski leit á Jesú sem loddara. Og við megum ekki líta fram hjá því að texti guðspjallsins, sem er einnig að finna í Markúsi og Matteusi, ávarpar söfnuð guðspjallamannsins, sem bjó í samfélagi sem var klofið með tilliti til þess hvort það trúði því að Jesús væri Kristur eða ekki. Afleiðing þess að fylgja Jesú gat þannig augljósa orðið sú að fjölskyldutengsl rofnuðu en það er ekkert sem gefur til kynna að Jesús hafi nokkurn tíma gert þá kröfu.

Það þýðir þó ekki að Jesús geri ekki miklar kröfur til lærisveina sinna þegar hann segir „fylgdu mér“ því hann er að gera kröfu um það að maður láti hagsmuni guðsríkisins ganga fyrir sínum eigin hagsmunum, eða m.ö.o.: Allt starf manns skal miða að framgangi guðsríkisins. Það gefur hins vegar auga leið að samtímis er gert ráð fyrir því að lærisveinarnir uppfylli skyldur sínar gagnvart sínum nánustu, að fæða þá og klæða. Það sem Pétur er að gera með orðum sínum: „Við yfirgáfum okkar eigið og fylgdum þér“ er að hann er að minna Jesú á að þeir lærisveinarnir hafa gert það sem ríkur maður í frásögninni næst á undan var ekki tilbúinn til að gera, þ.e. að selja eigur sínar og gefa fátækum. Að vísu höfðu lærisveinarnir líklega ekkert aukreitis að selja, þannig séð, en með því að helga sig Jesú eru þeir í raun búnir að gangast undir það að láta líf sitt ekki snúast um að skara eld að eigin köku heldur beina því á þá braut sem Jesús lagði. Þar með fylgdi væntanlega að skyldu þeir eignast e-ð umfram það sem grunnframfærsla fjölskyldna þeirra krafðist, myndu þeir nota það til þess að gera góðverk, sem á þeim tíma fólst fyrst og fremst í því að gefa fátækum ölmusu, að tryggja lífsviðurværi þeirra sem ekki gátu það fyrir eigin rammleik, vegna fötlunar, sjúkleika eða félagslegrar stöðu líkt og í tilfelli ekkna oft og tíðum. Að því leytinu til eru þetta mjög miklar kröfur og svo sannarlega óraunhæfar m.t.t.  mannlegs eðlis. Fæst okkar í vestrænu nútímasamfélagi, sem eru heil heilsu og hafa atvinnu, geta haldið því fram að þau búi ekki við þægindi og lífsgæði sem eru umfram það sem telst lífsnauðsynlegt.

Krafan um að gefa allt sem er umfram til fátækra er því vissulega ídeal eða draumsýn en það er draumsýn sem á að vera hverri kristinni manneskju leiðarljós engu að síður.

Nú þarf presturinn að passa sig á því að verða ekki pólitískur en flestir held ég að taki undir þá staðhæfingu að réttlát skipting gæðanna sé grundvöllurinn að heilbrigðu samfélagi sem er aftur forsendan fyrir heill og hamingju borgaranna. Margir af ríkustu mönnum Bandaríkjanna hafa m.a.s. opinberlega tekið undir að það þurfi á e-n hátt að endurbæta markaðskerfið í Bandaríkjunum á þann veg að það dreifi gæðunum víðar og á sanngjarnari máta. M.a. hefur maður að nafni Ray Dalio, eigandi stærsta og ábatasamasta vogunarsjóðs heims, viðrað þær áhyggjur sínar nýlega að hann óttaðist ófrið í samfélaginu ef markaðskerfið þar í landi yrði ekki endurbætt á þann veg að það gagnaðist öllum.

Íslenskt og bandarískt samfélag eru vissulega ólíkrar gerðar en grunnreglan er sú sama, að meiri ójöfnuður hlýtur að leiða til meiri ófriðar. Og merkilegt nokk, þá setti heimspekingurinn Platón fram nákvæmlega þessa hugsun fyrir rúmum 2.400 árum í riti sínu Ríkið. Þar bendir hann – eða réttara sagt sögupersónan Sókrates – á að borgarsamfélagið er til orðið „vegna þess að hver okkar er ekki sjálfum sér nógur, heldur margs þurfandi“ og útlistar síðan í kjölfarið hvernig borgarsamfélagið er í raun andstæða sjálfsþurftarsamfélagsins (Ríkið 369B). Það er þó enn athyglisverðara hvernig hann setur fram í kjölfarið mynd af annars vegar því, sem hann lítur á sem „hið sanna ríki“, sem er heilbrigt ríki, en hins vegar „allsnægtaríki“ sem er „þjakað af bólgum og hita“ og þar sem ranglætið nær að festa rætur. Og það sem veldur bólgum og hita allsnægtaríkisins – eða hagkerfisins eins og við myndum segja í dag – er sú staðreynd að krafan um allsnægtir gerir það að verkum að ríkinu dugar ekki lengur að vera sjálfbært um þá hluti sem fólk þarfnast sér til lífsviðurværis. Það kallar á milliríkjaviðskipti og til þess að hafa eitthvað til að selja grípur ríkið til útþenslustefnu á kostnað nágrannaríkja sem síðan leiðir til stríðs. Þetta er í raun stórmerkileg lesning og gæti verið lýsing á sögu Evrópu á öllum tímum.

Orð Péturs og Jesú í guðspjallinu ásamt orðum Platóns í Ríkinu vekja til umhugsunar um það hvað sé manninum nauðsynlegt til þess að lifa góðu lífi, hvað sé nægjanlegt og hvað sé gagnlegt. Kristur lofar Pétri margföldum launum fyrir að fylgja honum, bæði í þessu og næsta lífi. Ég tel að hann geti ekki verið að vísa til neins annars en þess kærleikssamfélags bræðra og systra í Kristi, sem frumkirkjan reyndist vera, að teknu tilliti til hvers kyns sundurlyndis sem óhjákvæmilegt er í mannlegu félagi. Í það minnsta er margt sem bendir til þess að það hafi ekki síst verið samstaðan og samhygðin sem ríkti í kristnu söfnuðunum og varð hvað mest áberandi á pestartímum sem leiddi til aukinna vinsælda hins nýja siðar í Rómarveldi. Þar varð í raun til smækkuð mynd velferðarsamfélags þar sem hver skyldi bera annars hag fyrir brjósti.

Það er spurning sem hver kristinn maður þarf að spyrja sig stöðugt, hversu langt hann eða hún er tilbúin/n að ganga í að yfirgefa sitt eigið til þess að fylgja Kristi. Og spurningin sem frambjóðendur til Alþingis þurfa að svara er til hvaða ráða þeir vilja grípa til þess að skapa heilbrigt samfélag. Guð hjálpi okkur hverju og einu að finna svör sem gagnast æðri markmiðum en eigin dansi í kringum gullkálfinn.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.