Jónsmessa og Kristsmessa

Jónsmessa og Kristsmessa

Við skulum hugleiða boðskap Jóhannesar skírara á aðventunni þótt Jónsmessan sé ekki á næsta leyti. Það er hins vegar Kristsmessan, þegar við hlúum að því besta sem við eigum og getum gefið öðrum. Þá ættum við að leiða hugann að spámanninum sem í hverju okkar býr, réttlætiskenndinni, umhyggjunni fyrir náunganum, hæfileikanum að geta dregið úr því sem skaðar og eflt hitt sem byggir upp.

Spámenn eru til umfjöllunar nú á aðventunni. Fyrsta kertið á kransinum er Spádómskertið eins og fram kom í máli fermingarbarna. Þau sögðu okkur líka að aðventan tengist hinu ókomna. Við bíðum þess sem er í vændum. Nú er tími spádóma og einn er sá spámaður sem fær sérstakt rými í textum kirkjunnar um þetta leyti. Það er enginn annar en Jóhannes skírari. Þessi ófrýnilegi gaur sem sagður er hafa nærst á villihunangi og engisprettum hafðist við í óbyggðum, bjó utan við mannlegt samfélag og þaðan flutti hann boðskap sinn.

Spámaður predikar

Hann var jú að einhverju leyti spámaður í hefðbundnum skilningi þess orðs, þar sem hann rýndi inn í mistur hins ókomna og gaf upplýsingar um hvers væri að vænta. Merkilegri voru þó spár hans um þá þætti framtíðar sem áheyrendur sjálfir höfðu áhrif á og gátu breytt. Þá var svo sannarlega völlur á Jóhannesi. Spádómar hans voru eldpredikanir þar sem hann hvatti fólk til að endurskoða lífsmáta sinn og hegðun. Þeir fólu einnig í sér snarpa ádeilu á yfirvöld.

Í ljósi þess að spámaðurinn þótti flytja boðskap Guðs, þá gat sviðið undan þeirri gagnrýni og rödd hans átti sér svo djúpa uppsprettu að hún varð ekki auðveldlega þögguð niður. Já, spádómar hans voru ekki síst byggðir á því sem myndi bíða ef fólk tæki ekki sinnaskiptum og léti trú sína og lífsviðhorf endurspeglast í framkomunni við náungann og þá sérstaklega þau sem minna mega sín. Hann varð að lokum píslarvottur trúar sinnar og sannfæringar, samviskufangi eftir að yfirvöld höfðu varpað honum í dýflissu og síðar var hann tekinn af lífi.

Jónsmessa og Kristsmessa

Við ljósamessu hér í Neskirkju er merkilegt til þess að hugsa að spámaður sá sem fjallað er um í guðspjalli dagsins hefur sterk tengsl við ljósið. Síðar meir þegar boðskapur Krists var tekinn að móta heilu samfélögin þá horfðu menn upp til sólarinnar og tengdu gang hennar boðskap Biblíunnar. Þá helguðu þeir Jóhannesi og Jesú hvorum sinn daginn sem tengjast því lífgefandi ljósi sem frá sólinni stafar.

Jóhannes boðaði komu Krists og þegar menn inntu hann eftir því hvernig sá yrði sem í vændum væri, svaraði hann því til að hann væri undanfarinn, sá sem ryddi brautina fyrir Jesú. Svo sagði hann: ,,Hann á að vaxa en ég að minnka.” Svona talar hugsjónafólk, einstaklingar sem eru hluti af einhverju stærra og meira en þeir sjálfir. Þetta er erindi þess sem á eitthvað til að lifa fyrir, hefur hugmyndir um betri heim, betra líf, einhver þau gæði sem taka fram öllu þeim stundargróða sem kann að felast í athygli, völdum og auði. Í tilviki Jóhannesar var það sjálfur Jesús frá Nazaret sem átti að stíga fram og vinna boðun sína. Sjálfur var Jóhannes tilbúinn að draga sig í hlé svo Kristur mætti flytja sinn boðskap.

Í ljósi þessara orða minnumst við Jóhannesar þann 24. júní en þá er sólin hæst á lofti og í framhaldi styttist sólargangurinn smám saman allt til þess, já, að við erum komin fram á þennan tíma ársins og myrkur grúfir yfir norðurhveli jarðar. Því núna undirbúum við okkur fyrir aðra messu - sjálfa Kristsmessu. Við íslendingar tölum reyndar um jól, en enskumælandi um Christmas, Kristsmessu. Þá hækkar sól á lofti að nýju og þannig flytur þessi þessi uppspretta alls lífs hér á jörðu boðskap Jóhannesar og Jesú. Ljósið er uppspretta lífsins og strax í fyrstu málsgreinum Biblíunnar birtast okkur þessar andstæður, myrkur og ljós. Okkur er það hugstætt hversu margt tengist þessu tvennu eins og messur Jóhannesar og Krists bera með sér.

Spámenn okkar daga

Og nú er aðventan, þessi tími þar sem við horfum til framtíðar. Við getum spurt okkur hvar við finnum spámenn í okkar umhverfi. Þeir þurfa ekki að borða engisprettur en mestu máli skiptir að þeir varpi ljósi á það sem laga þarf. Já, spámennirnir eiga einmitt að hafa áhrif á framtíðina með því að benda á það sem við getum bætt í okkar fari. Það eru þeir sem benda á aðalatriðin, fá okkur til að hugsa um það sem mestu varðar en týna okkur ekki í öllu því sem hefur engin áhrif þegar upp er staðið.

Ætli við þurfum að leita langt yfir skammt að fínum spámönnum? Í hverju okkar býr einn slíkur. Það er röddin sem talar frá hjarta okkar, samviskan sem hnippir í okkur þegar eitthvað óskaplega rangt á sér stað í kringum okkur. Myndin af albanska barninu sem sent var úr landi þar sem þess bíða óviss örlög, hrifsaði okkur úr þægindum og afþreygingu. Hvað gerum við? Þöggum við niður í þessari röddu og höldum svo áfram því lífi sem við erum vön? Er ekkert í okkar lífi sem þarf að minnka svo að sá megi vaxa sem boðaði að fátækum verði flutt fagnaðarerindi? Hvað er það sem má þess í stað minnka svo hið góða geti dafnað? Þessi spurning skiptir sköpum þegar við leitum svara við því hvernig framtíðin okkar mun líta út. Hún lá til grundvallar í París nú í vikunni þegar skrifað var undir sáttmála um að spyrna við fótum gegn hlýnun jarðar. Um leið lá ljóst fyrir að ýmislegt þurfti jú að minnka. Lífsmáti okkar þurfti að breytast, draga þarf saman á ákveðnum sviðum svo að hið góða megi dafna.

Framtíðin

Framtíðin vekur hjá okkur misjafnar kenndir. Sumt af því sem bíður er spennandi og fyllir okkur eftirvæntingu. Annað af því vekur kvíða. Og fyrir ykkur sem eigið, ef Guð lofar, eftir að lifa stærstan hluta ævi ykkar, þá er það svo mikilvægt að þið hlúið að því ljósi sem sannleikurinn er, réttlætið og allt það sem byggir upp og göfgar. Það er eðlilegt að óttast hið ókomna. Það var vart tilviljun að englarnir á Bethlehemsvöllum hófu erindi sitt til fjárhirðanna með þeim orðum að þeir ættu ekki að vera óttaslegnir því þeirra biði mikill fögnuður.

Við skulum hugleiða boðskap Jóhannesar skírara á aðventunni þótt Jónsmessan sé ekki á næsta leyti. Það er hins vegar Kristsmessan, þegar við hlúum að því besta sem við eigum og getum gefið öðrum. Þá ættum við að leiða hugann að spámanninum sem í hverju okkar býr, réttlætiskenndinni, umhyggjunni fyrir náunganum, hæfileikanum að geta dregið úr því sem skaðar og eflt hitt sem byggir upp. Jóhannes bendir okkur á leiðarljósið okkar í lífinu, það birtist okkur í Jesú frá Nazaret sem var ljós heimsins og sýndi með orði sínum og verkum hvernig við getum sjálf verið ljós öðrum til eftirbreytni.