Lögmál dauðans - eða lögmál lífsins?

Lögmál dauðans - eða lögmál lífsins?

Þrátt fyrir þau orð múslimans að grýting sé einvörðungu refsing fyrir framhjáhald er eitt hörmulegasta dæmið sem ég veit um frá okkar tíma þegar 13 ára sómölsk stúlka, sem hafði verið nauðgað af 3 mönnum, var grýtt til bana á stórum íþróttaleikvangi í viðurvist 1000 manns. Þetta gerðist í október í fyrra, árið 2008.

Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn og allt fólkið kom til hans en hann settist og tók að kenna því. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“ En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“ Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syngda ekki framar." Jóh 8.2-11

Veruleiki vonskunnar Hávær múgurinn – allt karlar – fyllti leikvanginn og færðist allur í aukana eftir því sem á leið. Dómsuppkvaðningin sönglandi, tvær manneskjur færðar í hvíta kufla upp fyrir höfuð, hendurnar bundnar. Fórnarlömbin sett í holur, grafin lifandi, höfuðin uppúr, skotmark grýtingar. Stórir pokar af hnefastórum steinum bornir inn, æstir mennirnir hringinn í kring um manneskjurnar í holunum, örvæntingarfullar tilraunir þeirra síðastnefndu til að losa sig úr viðjunum, steinaregn, tvö liðin lík.

Kvikmynd um víti – eða veruleiki fólks á 21. öld? Því miður hið síðara. Enn þann dag í dag heimila 6 af 52 tveimur löndum heims þar sem múslimar eru í meirihluta grýtingu sem dauðarefsingu, hafi fólk orðið uppvíst að framhjáhaldi. Þessi lönd eru Afganistan, Íran, Nígería, Saudí-Arabía, Sómalía og Sameinuðu Arabísku furstadæmin. Í Írak og Pakistan viðgengst grýting einnig, þó ekki sé heimil samkvæmt landslögum, en sharíalögin látin gilda - sömu lög og einhverjum blessuðum Englending datt í hug að innleiða í því góða landi.

“This is Islam” Í leit minni á netinu að upplýsingum um grýtingu rakst ég á viðtal við virðulegan mann úr röðum múslima sem lýsti því yfir að þannig væri íslam (“this is Islam”) – ef gift kona og kvæntur maður gerðust sek um framhjáhald skyldu bæði grýtt, en ef annað væri ógift skyldi það þola 100 vandarhögg. “This is Islam”, sagði maðurinn, veifaði Kóraninum og bætti við: "Ekki fann ég upp á þessu". (http://www.youtube.com/watch?v=uGaXxtvf2bM).

Samt - þrátt fyrir þau orð múslimans að grýting sé einvörðungu refsing fyrir framhjáhald - er eitt hörmulegasta dæmið sem ég veit um frá okkar tíma þegar 13 ára sómölsk stúlka, sem hafði verið nauðgað af 3 mönnum, var grýtt til bana á stórum íþróttaleikvangi í viðurvist 1000 manns. Þetta gerðist í október í fyrra, árið 2008. This is Islam...

Sá yðar sem syndlaus er Í lok viðtalsins vitnaði músliminn í orð Jesú, orðin sem lesin voru í dag: Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana. Ég get ekki skilið orð þessa manns öðruvísi en svo að hann vilji meina að Jesús hafi heimilað grýtingu, að því gefnu að gerendurnir væru syndlausir – og fyrst grýting er hluti af íslömskum veruleika mannsins í viðtalinu hlýtur hann að líta svo á að þeir sem dæma og grýta hafi sjálfir hreinan skjöld gagnvart sínu sharíalögmáli.

Farísearnir og fræðimennirnir sem Jesús átti samskipti við vissu betur. Orð hans hittu þá í hjartastað, þeir sáu sína eigin synd og gengu burt. Þetta er mjög áhrifarík lýsing og auðvelt að sjá fyrir sér það sem gerðist, spennan í loftinu á meðan Jesús skrifaði á jörðina og þeir biðu þess að hann felldi dóm sinn, kliðurinn þegar spurningarnar dundu á honum og svo þögnin, algjör þögn þegar steinarnir duttu úr höndum þeirra og einn af öðrum hurfu þeir á braut. Já, orð hans hittu þá í hjartastað, þeir sáu sína eigin synd og gengu burt. Því hefur þú, maður sem dæmir, enga afsökun hver sem þú ert (Róm 2.1).

Grýting á dögum Krists Grýting er ævaforn leið samfélagsins til að hegna eða hefna sín á þeim sem gerst hafa brotlegir við þá röð og reglu sem þarfleg þykir. Hún er ein leið dauðarefsingar og samkvæmt lögmálinu, Torah og Misnah Gyðinga, skyldi fólk grýtt til bana fyrir ýmsa glæpi, einkum þó því er snéri að kynferðisbrotum og ýmissi vanhelgun og uppreisn (sjá t.d. 3Mós 20. og 24. kafla og 5Mós 21. og 22. kafla).

Rómverjarnir, sem réðu lofum og lögum í Palestínu á dögum Jesú, virðast hafa afnumið rétt Gyðinga til að taka fólk af lífi (sbr. Jóh 18.31), en þó eru til heimildir um að ráð Gyðinga, Sanhedrin, hafi dæmt Jakob réttláta, hálfbróður Jesú, til grýtingar árið 62 e. Kr. (sjá http://en.wikipedia.org/wiki/Stoning) og þekkt er frásaga Postulasögunnar af grýtingu Stefáns frumvottar (Post 7.57-60).

Réttlæti og kærleikur hönd í hönd Þegar farísearnir og fræðimennirnir koma með konuna sem staðin hafði verið að því að brjóta gegn lögmálinu til Jesú ætla þeir því að leiða hann í gildru. Ef Jesús hefði sagt þeim að grýta hana hefði hann sett sig í andstöðu við Rómverjana. Hefði hann hins vegar sagt berum orðum að hinir sjálfskipuðu dómarar hennar ættu að láta konuna lausa hefði Jesús sett sig í andstöðu við lögmál Móse. Hvort tveggja hefði gert hann að sakamanni, annars vegar í augum Rómverjanna og hins vegar í augum Gyðinganna.

Þessi frásaga er stórkostlegt dæmi um visku Jesú jafnvel í snúnustu kringumstæðum, visku sem var borin uppi af hvorutveggja, réttlæti hans og kærleika: Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast (Sálm 85.11) eru orð sem rætast að fullu í lífi Jesú. Hann lét sér annt um velferð konunnar, vissi sem var að hún hafði verið staðin að því að svíkja eiginmann sinn en vissi líka að Guði þóknast ekki dauði nokkurs manns (Esk 18.32), að Guð er Guð lífsins og hins nýja upphafs og engum manni er heimilt að dæma annan til dauða þar sem báðir eru undir sömu sök – þeirri sök að hafa brotið gegn hinu algilda lögmáli kærleikans. Dauðarefsinguna afnam Jesús Kristur í eitt skipti fyrir öll með dauða sínum á krossi: Því að lögmál þess anda sem lífið gefur í Kristi Jesú hefur frelsað mig frá lögmáli syndarinnar og dauðans (Róm 8.2).

Skrifað í sandinn Við erum líklega mörg sem höfum velt því fyrir okkur hvað Jesús hafi skrifað á jörðina á meðan hinir lærðu menn biðu í ofvæni eftir niðurstöðu hans. Einfaldasta svarið er að með því að skrifa í sandinn hafi hann viljað skapa meiri áhrif af orðum sínum, líkt og góðir upplesarar nota “kúnstpásu”, listrænt hik, til áherslu lestrinum.

Biblíuskýrendur hafa tilfært nokkra líklega staði úr hinum heilögu ritum hebreanna, sem við nú köllum Gamla testamenti. Þar á meðal er endurómun af atburðunum í Daníelsbók 5. kafla þar sem í veislu mikilli birtust skyndilega fingur á mannshendi sem letruðu á vegginn dómsorð yfir hinum rangláta Belsassar. Hjá Jeremía spámanni (17.13) eru líka merkileg orð sem eiga vel við þessa frásögu:

Drottinn, von Ísraels, Allir sem yfirgefa þig hljóta vansæmd, Þeir sem snúa frá þér verða skráðir í sand Því að þeir hafa yfirgefið Drottin, Lind hins lifandi vatns.

Hvað svo sem Jesús kann að hafa letrað í sandinn er næsta víst að hinir lesnu menn hafa vitað hvaða merking lá í þessu táknræna atferli hans: Það var áfellisdómur yfir þeim, dómsuppkvaðning Guðs yfir hinum dæmandi, þeim sem taka sér það hlutverk sem Guði einum ber, að skilja milli lífs og dauða í stað þess að gæta og hlú að lífinu í hvívetna.

Allir sem yfirgefa þig hljóta vansæmd, Þeir sem snúa frá þér verða skráðir í sand Því að þeir hafa yfirgefið Drottin, Lind hins lifandi vatns.

Saga Súsönnu Sumir biblíuskýrendur (t.d. Brown 1978) hafa viljað minna á sögu Súsönnu í samhengi við frásöguna í Jóh 8. Sú saga er nú komin inn í Biblíuna okkar með útgáfunni frá 2007, en þar er hin svokölluðu apókrýfu rit Gamla testamentisins að finna. Þessi litla saga er einn af þremur viðaukum við Daníelsbók og fjallar um tvo öldunga sem girntust hina fögru Súsönnu. Þegar þeir komu að henni einsamalli í lystigarði manns hennar vildu þeir komast yfir hana með valdi en bera ella ljúgvitni um að hún hafi verið þar með ungum manni.

Súsanna lét ekki undan hótunum mannanna en kallaði á hjálp. Þeir lögðu þá fram hina upplognu kæru á hendur henni og hefði hún misst lífið ef Daníel hefði ekki komið henni til hjálpar með snilldarbragði er hann yfirheyrði öldungana hvorn um sig og urðu þeir þá missaga. Máttu ljúgvitnin þola þá refsingu sem þeir höfðu ætlað konunni, það er líflát, en Daníel var í miklum metum hjá þjóðinni eftir þetta.

Að sleppa naumlega Það sem þessar tvær konur eiga sameiginlegt er að þeim var bjargað frá lífláti á síðustu stundu. Súsanna slapp naumlega undan þeim örlögum sem því miður hafa verið margra í gegn um tíðina, bæði karla og kvenna, að mega þola refsingu fyrir upplognar sakir. Hversu margar af þeim konum sem látið hafa lífið á þann grimmilega hátt sem lýst var hér í upphafi voru saklausar vitum við minnst um. En víst er að oftar en ekki hafa þær verið margföld fórnarlömb, aðstæðna sinna, ofbeldisverka, ranglátra dóma og ómannúðlegra aftökuaðferða, svo ekki sé meira sagt.

Konan í guðspjalli dagsins hefur að öllum líkindum verið sek um það sem hún var ásökuð um. Það er ekkert í frásögunni eða orðum Jesú sem bendir til annars. Það er ekki vegna þess að hún sé saklaus að Jesús lætur hana fara. Nei, hann gefur henni frelsi þrátt fyrir að breytni hennar hafi verið röng, frelsi til að byrja að nýju. Jesús Kristur tók sekt hennar á sig og það er gjöf hans til okkar einnig. Því hér er enginn greinarmunur: Öll höfum við syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir okkur af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú (sbr. Róm 3.21-31). Orð hans eru orð til okkar: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.

Að gæta náunga síns Á ég að gæta bróður míns? spurði Kain forðum (sjá lexíu dagins, 1Mós 4.8-13) og er ein frægasta spurning skráðrar mannkynssögu. Svarið er hið sama og það hefur alltaf verið: Já, þú átt að gæta bróður þíns og systur þinnar, líka hans og hennar sem eru í fjötrum Íslams, í fjötrum dóms og reiði, hefndar og miskunnarleysis, þeim fjötrum sem Jesús Kristur kom til að leysa mannkynið undan.

Dæmum ekki svo við verðum ekki dæmd. Forsmáum ekki Guðs miklu gæsku, þolinmæði hans og biðlund, látum okkur skiljast að gæska Guðs vill leiða okkur til afturhvarfs (sbr. pistil dagsins, Róm 2.1-4). Það merkir ekki að hin ranga breytni sé í lagi, svikin verði samþykkt, heldur að hver líti í eigin barm og gera líf sitt upp frammi fyrir Guði og gæsku hans. Ávöxtur þeirrar gæsku er meðal annars okkar lýðræðislega réttarkerfi sem vill koma böndum á ómennskuna og stuðla að réttlæti fyrir alla.

Vinnum með Guði að endurlausn mannkyns, vinnum með lífinu og leyfum ekkert það á okkar litla landi sem heftir hina sönnu mennsku og leggur lögmálsfjötra á fólk.