Mikilvægasta stéttin

Mikilvægasta stéttin

Það skiptir máli hvað þau sjá og heyra. Öll viljum við að börnin mótist af því sem er þeim til blessunar. Við viljum skapa þeim umhverfi sem laðar fram það besta í þeim. Við viljum búa þeim aðstæður þar sem þau geta nýtt og þroskað hæfileika sína.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
05. júní 2008

Því er haldið fram að ekki eigi að móta börn í trúarefnum. Þau eigi að ákveða um slíkt þegar þau hafi aldur og þroska til. Ekki eigi að ala þau upp í kristnum sið. Þau eigi að fá að velja þá trú sem þeim líst best á þegar þar að kemur. Hækka eigi fermingaraldurinn og miða við það þegar börn hafi öðlast þroska til að taka sjálfstæðar ákvarðanir.

Í þessari umræðu láta menn stundum eins og kirkjan sé nánast eini aðilinn í veröldinni sem áhuga hafi á því að móta börn – og það sé hennar glæpur.

Auðvitað er uppeldi barnanna fyrst og fremst á ábyrgð foreldra og forráðamanna barna. Börnin verða samt fyrir áhrifum frá fleirum, heilnæmum og skaðlegum. Börn eru ekki óskrifað blað þangað til þau hafa aldur og þroska til eða þangað til þar að kemur. Þau eru forvitin og fróðleiksfús. Þau drekka í sig áreiti úr umhverfinu.

Það skiptir máli hvað þau sjá og heyra. Öll viljum við að börnin mótist af því sem er þeim til blessunar. Við viljum skapa þeim umhverfi sem laðar fram það besta í þeim. Við viljum búa þeim aðstæður þar sem þau geta nýtt og þroskað hæfileika sína. Við viljum innræta þeim virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum manneskjum og umhverfinu, hinni góðu sköpun.

Ekki eru allir sammála því. Í þjóðfélagi okkar eru öfl sem keppast við að innræta börnunum okkar það gagnstæða; virðingarleysið fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfinu. Þessi öfl höfða til þess versta í börnunum okkar, vilja ræna þau sakleysinu og hjartahreinleikanum.

Nú er tími skólaslita. Þau eru skemmtilegar samkomur. Þar finnur maður tilhlökkun barnanna þegar þau horfa framan í sumarfríið en ekki síður má skynja þakklæti þeirra til kennaranna sinna, þess góða fólks, sem látið hefur sér annt um börnin okkar undanfarna mánuði. Reynt að hafa góð áhrif á þau, móta þau, verja þau því skaðlega en gera þau móttækileg fyrir því uppbyggilega.

Við eigum kennurunum svo óskaplega margt að þakka.

Þeir eru mikilvægasta stétt þessa lands.