Hvert líf er dýrt

Hvert líf er dýrt

Félagslegir og steinsteyptir múrar eru enn víða í heiminum, þó aðrir hafi fallið. Í Evrópu rís óttinn upp eins og bylgja, óttinn við hið framandi og reynist stundum á rökum byggður, einkum þegar tjáningarfrelsið virðist notað í því skyni einu að ögra. En ef við látum óttann ráða för eru afleiðingarnar aðeins fleiri múrar, fleiri byssur, minna rými fyrir félagslegt og persónulegt frelsi. Kristin trú sækir sér kjark í Orð Guðs sem segir: ,,Ótti er ekki til í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann” (1Jóh 4.18). Við sækjum styrk okkar til kærleikans og sýnum heilindi í allri framgöngu.

Þann 20. janúar 1980 varð sögulegur atburður er rómversk-kaþólskur prestur af íslensku bergi brotinn, sr. Ágúst K. Eyjólfsson, steig í prédikunarstól Dómkirkjunnar í Reykjavík, en tveimur árum áður hafði sr. Jan Habets í Stykkishólmi sennilega orðið fyrstur kaþólskra presta til að prédika hjá þjóðkirkjunni. Við þessa fyrstu samkirkjulegu guðsþjónustu í tilefni af Alþjóðlegri bænaviku fyrir einingu kristninnar fyrir 35 árum fluttu Daniel Glad, trúboði hvítasunnumanna og David West, æskulýðsleiðtogi aðventista, bænir og lestra en sr. Þórir Stephensen dómkirkjuprestur þjónaði fyrir altari. Sumarið 1979 hafði prestastefna á Eiðum samþykkt að fela biskupi Íslands að kanna með samstarf kristinna trúfélaga og úr varð nefnd, Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi sem enn starfar. Fyrst um sinn áttu áðurnefnd fjögur trúfélög aðild að nefndinni en fljótlega bættist Hjálpræðisherinn við. Með starfsreglum sem nefndin setti sér upp úr aldamótum bættust fleiri trúfélög í hópinn og eru nú orðin tíu. Alþjóðlega bænavikan 2015: Brasilía Alþjóðlega bænavikan fyrir einingu kristninnar stendur yfir dagana 18. - 25. janúar. Hún á sér rætur til ársins 1908 og er borin fram í samstarfi Heimsráðs kirkna (Alkirkjuráðsins) og Rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Ár hvert berast bænarefni, hugleiðingar og dagskrártillögur frá ákveðnu landi, að þessu sinni Brasilíu, og er efnið unnið í samvinnu margra kirkjudeilda. Yfirskriftin fyrir árið 2015 eru orð Jesú til samversku konunnar við brunninn: „Gef mér að drekka“ (Jóh. 4.7) Dagskráin framundan er fjölbreytt, bæði á höfuðborgarsvæðinu og a Akureyri, og er hana að finna á www.kirkjan.is. Þið eruð öll velkomin á viðburði bænavikunnar og svo má auðvitað taka undir bænirnar heima.

Brasilía er sem sagt í brennidepli bænavikunnar að þessu sinni. Aðstæður þar eru ólíkar okkar; mannfjöldinn gríðarlegur, ríflega 202 milljónum fleiri íbúa en hér og rómversk-kaþólska kirkjan fjölmennust kirkjudeilda (74%, mótmælendakirkjur um 15%). Núningur, markaður af samkeppni um sálirnar, hefur verið á milli nýrra trúarhópa og þeirra sem fyrir voru og gagnkvæm virðing ekki alltaf í fyrirrúmi. Aukið ofbeldi í samfélaginu veldur áhyggjum, ekki síst gagnvart minnihlutahópum en þeir eru margir í Brasilíu vegna ólíks uppruna íbúa.

Sérstaklega nefna höfundar efnisins sem sent var út í tilefni bænavikunnar ofbeldi gagnvart konum og innfæddum, en á tíu ára tímabili (2000-2010) voru 43.700 konur myrtar í Brasilíu. Fram kemur að fjörutíu og eitt prósent kvenna sem eru beittar ofbeldi verða fyrir því innan veggja heimilisins. Ofbeldið gegn upprunalegum íbúum landsins er ekki síst vegna stórfyrirtækja á sviði raforkuframleiðslu og landbúnaðar sem leggja undir sig land innfæddra með tilheyrandi skógareyðingu. Segja má að tortryggni og óþol gagnvart fjölbreytileikanum sé samnefnari fyrir ýmis vandamál í Brasilíu. Gríðarleg fátækt, sýnileg í favelunum, fátækrahverfum stórborganna er eitt af því sem kirkjurnar hafa sameinast um að vinna gegn, oft undir forystu rómversk-kaþólsku kirkjunnar en prestar innan hennar risu á sínum tíma upp gegn harðýðgi herstjórnarinnar eins og kunnugt er.

Múrar og brunnar En hér erum við stödd við brunn, ekki íslenskan eða brasilískan brunn, heldur sjálfan Jakobsbrunninn í landi Biblíunnar og heyrum af því þegar Jesús og kona nokkur taka tal saman. Samkvæmt okkar hugmyndaheimi er kannski ekkert undarlegt við það að ferðalangur beiðist greiða af heimakonu. En við verðum að átta okkur á því að þetta er óvenjulegt samtal. Jesús talar við ókunna konu sem þar að auki var, frá sjónarhorni menningar hans, af öðru sauðahúsi en hann. Það er sérstaklega tekið fram í guðspjallinu að hann hafi orðið að fara um Samaríu (Jóh 4.4) vegna þess að það var óvenjulegt. Félagslegar girðingar milli Gyðinga og Samverja voru á þeim tíma eins og múrinn sem skilur að fólkið í landinu helga, ókleifar.

Við eigum sennilega bágt með að skila þann veruleika hér uppi á Íslandi. En svona er veruleiki fólks víða um heim. Jafnvel í nágrannalandi okkar, á norðurhluta grænu eyjunnar Írlands, í borginni Belfast, hafa bókstaflega verið byggðir múrar á milli fólks, því til verndar, að sagt er, enda aðeins lokað að næturþeli og þegar órói er í loftinu. Þar er um að ræða fólk sem runnið er af sömu rótum, þó afstaða til sjálfstæðis þjóðar og fleiri hugmyndafræðilegir þættir greini að.

Jesús Kristur, sannur maður Félagslegir og steinsteyptir múrar eru enn víða í heiminum, þó aðrir hafi fallið. Í Evrópu rís óttinn upp eins og bylgja, óttinn við hið framandi og reynist stundum á rökum byggður, einkum þegar tjáningarfrelsið virðist notað í því skyni einu að ögra. En ef við látum óttann ráða för eru afleiðingarnar aðeins fleiri múrar, fleiri byssur, minna rými fyrir félagslegt og persónulegt frelsi. Kristin trú sækir sér kjark í Orð Guðs sem segir: ,,Ótti er ekki til í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann” (1Jóh 4.18). Við sækjum styrk okkar til kærleikans og sýnum heilindi í allri framgöngu. Fyrirmynd okkar finnum við í frelsarnum Jesú. Og hér stendur hann við brunn og ræðir málin við konu af trúflokki sem hann var alinn upp við að eiga ekki samneyti við. Ekki nóg með það, hann biður konuna um greiða. „Gef mér að drekka,“ segir hann eins og hver annar þyrstur ferðalangur. Hér er hann, lífsins vatn holdi klætt, og biður konu af öðru sauðahúsi um vatn.

Jesús Kristur er sannur maður, tæmdi sjálfan sig, varð mönnum líkur (Fil 2.7) og þar með háður þeim takmörkunum sem okkur öllum eru settar. Hann vissi og veit hvað það er að vera þyrstur. En hann lifði mennskuna til fulls, sýndi okkur hinum hvernig ber að lifa, í samtali og samhjálp við hvern þann sem við mætum á veginum. Og þarna er Jesús þiggjandi. Hann þiggur lífið úr hendi konu í annað sinn, rétt eins og þegar móðir hans tók við honum í líf sitt, nærði hann og fæddi inn í heiminn. Jesús þarf á okkur að halda. Við erum hendur hans og fætur (Matt 25.31-46). Þegar við gefum öðrum vatn eða húsaskjól eða hlýju eða athygli er þiggjandinn ávallt Jesús sjálfur. „Í hverju barni sé ég þína mynd.“

Dýrmæt sköpun Guðs Og ekkert mannsbarn er óverðugt athygli okkar. Öll erum við jafn verðmæt í augum Guðs. Fólkið sem lét lífið í voðaverkunum í París var dýrmæt sköpun Guðs. Konur – sannarlega líka stundum börn og karlar - sem láta lífið í voðaverkum sem ástvinir þeirra fremja innan veggja heimilisins eru dýrmæt sköpun Guðs. Fjöldi kristinna íbúa í bænum Baga og nágrannaþorpum í norðaustur-Nígeríu, sem Boko Haram murkaði lífið úr á dögunum, voru hluti dýrmætrar sköpunar Guðs, rétt eins og múslimskir íbúar Mið-Afríkulýðveldisins sem hersveitir úr röðum svokallaðra kristinna íbúa þar myrtu á síðasta ári. Við finnum til vegna þeirra og erum minnt á áhrifamátt samstöðunnar sem sást í göngunni í París um liðna helgi. Þess má geta að einn þeirra sex leiðtoga Afríkuríkja sem tóku þátt í þeirri göngu var forseti Niger en þar hafa nú síðustu daga verið brenndar kirkjur vegna reiði heimamanna yfir frönsku skopmyndunum, sem þó beinast einnig gegn helgustu trúartilfinningum kristins fólks.

Þau mannslíf sem eru tekin í ofsóknum af ýmsu tagi eru sannarlega dýr í augum Drottins (Sálm 116.15). En kannski er erfiðara að hugsa til enda að vígamennirnir, hvort sem um er að ræða grímuklædda hryðjuverkamenn sem misnota trú sína sem ástæðu fyrir aftökur án dóms og laga eða ósköp venjulegt fólk sem fremur ofbeldisverk á heimilum sínum, séu líka dýrmæt sköpun Guðs. Þau fæddust inn í ólíkar aðstæður, með ólíkan bakgrunn og forsendur, jafnlíkleg eða ólíkleg til velferðar og góðra verka og hver annar í svipuðum sporum en gáfust upp fyrir illskunni einhvers staðar á leiðinni, annað hvort í innra stundarbrjálæði ellegar með skipulögðum hætti ytri óhugnaðar.

Samábyrgð Eftirfarandi var haft eftir rómversk kaþólska erkibiskupnum í Jos í Nígeríu, Ignatius Kaigama, sl. mánudag á bloggsíðu sem ég rakst á:

Við skulum starfa saman. Það er mikilvægt að láta sig varða þegar einn hluti af veröldinni er í vanda, hvort sem það er í Mið-Austurlöndum, á svæðinu sunnan Sahara, í Evrópu eða Ameríku. Við þurfum að láta okkur hvert um annað varða á raunsannan hátt og gera það sem við getum hvert um sig.

Kaigama nefnir viðbrögð franskra yfirvalda við spurningunni um trúarlegt ofbeldi eftir morð á þegnum sínum sem dæmi um raunhæfar aðgerðir. Þau vilji gera sitt ítrasta til að tryggja að þetta gerist ekki aftur. Og biskupinn segir:

Við þurfum að láta þann anda berast víðar, ekki bara þegar eitthvað gerist í Evrópu, heldur líka gagnvart því sem á sér stað í Nígeríu, í Níger, í Kamerún, í hvaða fátæku landi sem er, að við virkjum alþjóðlegar auðlindir okkar og stöðvum þau sem valda þvílíkri sorg hjá svo mörgum fjölskyldum.

Biskupinn vísar til samábyrgðar okkar heimsbúa og hristir upp í úreltu mati okkar Vesturlandabúa á hvaða mannslíf séu dýrmætust. Við þurfum að láta okkur varða öll mannslíf, líka þau sem deyja vegna þess að náttúrulegt umhverfi, lífsviðurværi þeirra er eyðilagt, eða af skorti á mikilvægustu auðlind mannkyns, vatni. Innan stærstu samkirkjulegu hreyfingunni, Heimsráði kirkna, hefur mikil áhersla verið lögð á að sýna kærleika Guðs til allra íbúa veraldar í verki. Vissulega hryllir okkur kirkjufólkið, og þá á ég við öll þau sem hafa jákvæð tengsl við einhvern kristinn söfnuð, við þeim staðreyndum að aldrei hafa fleiri látið líf sitt vegna ofsókna á hendur kristnu fólki heldur en á liðnum árum.

Þverkirkjulegu samtökin Open Doors áætla að árið 2013 hafi 2123 manns látið líf sitt fyrir það eitt að játa kristna trú, og er það fjölgun um helming, borið saman við árið 2012 þar sem slík dauðsföll voru 1201. Af þessum 2123 létu 1213 lífið í Sýrlandi sem skýrir aukninguna á milli ára. Meðal annarra landa efst á listanum eru Norður-Kórea, Sómalía, Írak og Afganistan. Árið 2014 misstu hins vegar flestir játendur kristinnar trúar lífið í Nígeríu, alls 2484 manns samkvæmt þessari talningu. Þetta eru ískyggilegar tölur og við skiljum ekki hvernig það getur kostað manneskju lífið að játa trú á kærleiksboðskap Krists. En á sama tíma missir fjöldi fólks lífið í alls konar aðstæðum sem hefði mátt koma í veg fyrir. Allt er það að sjálfssögðu í andstöðu við anda Guðs sem er Lífið sjálft. Við erum kölluð til að viðhalda lífinu og það krefst samtakamáttar, kærleika og heilinda.

Jesús Kristur, sannur Guð Jesús biður um vatn og sýnir þannig sanna mennsku sína. En hann er líka sá sem gefur Vatnið með stórum staf, lífgjafinn eilífi, og þannig sannur Guð (Jóh 4.13-14 sbr. Op Jóh 21.6 og 22.17):

Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta en hvern sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu. Því að vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind sem streymir fram til eilífs lífs.

Þennan lífsins brunn (sbr. Passíusálm 48) eigum við sameiginlega, kristið fólk og okkur er falið að feta í fótspor samversku konunnar, sem fór og sagði samborgurum sínum að koma og sjá: ,,Skyldi hann vera Kristur?” (Jóh 4.29). Og Jesús staldraði við hjá þeim og margir öðluðust vissu um að hann væri sannarlega frelsari heimsins.

Í bænaviku fyrir einingu kristinna manna, er okkur boðið að staldra við, dvelja í nærveru Guðs og hvers annars í bæn og samtali og samveru. Við bjóðum hvert öðru af vatninu sem við berum í mismunandi könnum. Umbúðirnar eru ólíkar en innihaldið ber að sama brunni, kærleika okkar himneska föður sem verður sýnilegur í Jesú Kristi þegar heilagur andi lýkur upp veruleika trúarinnar. Guð gefi okkur innihaldsríka bænaviku 2015.