Metur eftirspurnin gæði brauðanna?

Metur eftirspurnin gæði brauðanna?

En það vekur sérstaka athygli, að starfandi prestar virðast hafa minni áhuga á að sækja um prestsembætti á landsbyggðinni. Ef starfandi prestur er skilgreindur með því að hafa formlega skipun í embætti á safnaðargrundvelli í ákveðinni kirkju auk sérþjónustupresta í fastri stöðu, þá eru 40 slíkar umsóknir um prestsembætti á höfuðborgarsvæðinu, en aðeins þrjár um embætti á landsbyggðinni.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
22. október 2014

Tuttugu og tvö prestsembætti hafa verið auglýst laus til umsóknar í Þjóðkirkjunni s.l. tuttugu mánuði, þ.e. árið 2013 og fram í október á þessu ári. Umsóknir um þessi embætti voru samtals 148. Hafa ber í huga að sami umsækjandi getur verið um fleiri en eitt embætti, þannig að hér er um heildarumsóknarfjölda að ræða og við það miðað. Þegar umsóknir eru greindar nánar eftir höfuborgarsvæðinu (Kjalarnes-og Reykjavíkurprófastsdæmum) og landsbyggðinni þá kemur eftirfarandi í ljós:

Á landsbyggðinni voru auglýst á tímabilinu ellefu laus embætti með samtals 58 umsóknum. Á höfuðborgarsvæðinu voru sömuleiðis auglýst ellefu embætti með 90 umsóknum.

En það vekur sérstaka athygli, að starfandi prestar virðast hafa minni áhuga á að sækja um prestsembætti á landsbyggðinni. Ef starfandi prestur er skilgreindur með því að hafa formlega skipun í embætti á safnaðargrundvelli í ákveðinni kirkju auk sérþjónustupresta í fastri stöðu, þá eru 40 slíkar umsóknir um prestsembætti á höfuðborgarsvæðinu, en aðeins þrjár um embætti á landsbyggðinni.

Þessi staða vekur umhugsun. Oft er sagt, að eftirspurnin meti gæði brauðanna. Er einhver mismunun eða aðstöðumunur hér á ferð? Hefur þetta eitthvað með kjörin í stóru samhengi að gera? Er þetta hluti af búsetuþróun í landinu undanfarna áratugi og gildismati sem endurspeglar almennt viðhorf til búsetu og starfa á landsbyggðinni?

Eigi að síður hafa margir prestar fest traustar rætur í þjónustunni á landsbyggðinni og verið farsælir í störfum. Nú hafa samgöngur tekið stakkaskiptum, betur hlúð að prestsetrum en áður þekktist og mikil safnaðaruppbygging átt sér stað víða í landsbyggðarsóknum þar sem vel er að öllu búið,- ekki síður en á höfuborgarsvæðinu.

Hvað sem öllu líður, þá er þetta staða sem verðskuldar málefnalega skoðun og umræðu.