Öruggt samfélag

Öruggt samfélag

Samfélag er öruggt og gott þegar það uppfyllir grundvallarkröfur um réttlæti, jafnrétti og félagslega velferð, það er gerir öllum kleift að njóta sín á eigin forsendum.
fullname - andlitsmynd Arnfríður Guðmundsdóttir
25. nóvember 2010
Meðhöfundar:

Samfélag er öruggt og gott þegar það uppfyllir grundvallarkröfur um réttlæti, jafnrétti og félagslega velferð, það er gerir öllum kleift að njóta sín á eigin forsendum. Í því velferðarsamfélagi sem hér hefur mótast á síðustu áratugum hefur markvisst verið unnið að því að bæta íslenskt samfélag og gera það öruggara fyrir borgarana. Jafnt aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu hefur verið forgangsatriði. Í hugum margra eru þetta jafn sjálfsögð réttindi og að allir hafi fæði og húsnæði og geti notið kosningaréttar og tjáningarfrelsis.

Sagan sýnir okkur að við getum aldrei tekið því sem gefnum hlut að fá að búa í góðu og öruggu samfélagi. Þessvegna er mikilvægt að í samfélagssáttmála okkar, stjórnarskránni, sé lagður grunnurinn að því að Íslendingar framtíðarinnar fái notið þeirra grundvallar mannréttinda sem gerir samfélagið öruggt og gott að lifa og starfa í. Þetta þarf að tryggja í nýrri stjórnarskrá.

Í 71. grein stjórnarskrárinnar er fjallað um friðhelgi einkalífsins. Þar segir m.a.: „Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.“ Gildi þess að eiga öruggt athvarf á heimili sínu er ómetanlegt. Slíkt skjól er undirstaða þess að eiga gott og öruggt líf, hvort sem við búum ein eða deilum kjörum með þeim sem standa okkur næst.

Á undanförnum áratugum hefur umræða um ofbeldi sem oft fær þrifist innan veggja heimilisins orðið stöðugt ágengari. Hún hefur opnað augu okkar fyrir þeirri skelfilegu staðreynd að stundum stafar einstaklingum beinlínis ógn af friðhelgi einkalífsins. Nágrannar og skyldfólk veigrar sér oft við að skipta sér af því sem gerist innan veggja heimilis þó að grunur leiki á að ofbeldi sé þar framið. Jafnvel eru til mörg dæmi um það að lögreglan hiki við að hafa afskipti af heimilisofbeldi þrátt fyrir að fórnarlömb þess leiti hjálpar hennar. Við slíkar aðstæður snýst ákvæðið um friðhelgi einkalífsins upp í andhverfu sína. Í stað þess að verja hagsmuni allra nýtist það til þess að verja þá sem brotið hafa af sér, með því að brjóta gegn öðrum í eigin fjölskyldu. Bók Thelmu Ásdísardóttur, Myndin af pabba, sem út kom fyrir jólin 2007 minnir okkur kröftuglega á þetta. Við þurfum vonandi ekki aðra slíka sögu til að vakna til vitundar um þær skelfingar sem eiga sér því miður stað innan veggja sumra heimila, þar sem allt heimilsfólkið á með réttu að njóta öryggis og verndar.

Við gerð nýrrar stjórnarskrár verðum við fyrst og síðast að hafa í huga hagsmuni þeirra sem veikast standa. Þegar ákvæðið um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu verður endurskoðað verðum við í ljósi biturrar reynslu að huga sérstaklega að heill þeirra sem ekki búa við öryggi á sínu eigin heimili. Öryggi þeirra er um leið öryggi okkar allra. Samfélag er því aðeins öruggt og gott að allir sem í því lifa búi við öryggi og skjól jafnt innan sem utan veggja heimilisins. Þess vegna verður að ganga út frá einstaklingum sem grunneiningu en ekki heimilinu. Mannhelgi og jafnrétti eru mikilvæg grundvallargildi í því sambandi.