Slm 107.1-2, 20-31; Post 27.13-15, 20-25; Matt 8.23-27.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Til hamingju með daginn ykkar kæru sjómenn. Það var hart barist fyrir lífsbjörginni hér við land fyrir 40 árum og reyndar líka fyrr. Um þessar mundir er þorskastríðanna minnst, átakanna milli Íslendinga og Breta um fiskveiðiréttindi á Íslandsmiðum í kjölfar útfærslu landhelginnar. Þorskastríðin eru hluti af sögu þjóðarinnar. Sögu sem vert er að minnast. Minna okkur á að það hefur þurft að hafa fyrir því sem er. Minna okkur á að efnahagslegur grundvöllur þjóðarinnar hefur byggst á því sem í askana er látið. Minna okkur á ábyrgð okkar gagnvart hinni sístæðu sköpun sem okkur mannfólkinu hefur verið trúað fyrir.
Menn horfðu til framtíðar fyrir 40 árum þegar síðasta þorskastríði lauk. Nú horfa menn líka til framtíðar og byggja á þeim upplýsingum sem eru til staðar nú þegar. Nú er því spáð að árið 2050 verði meira plast í sjónum en fiskur. Það er ekki lengur bara trjábolirnir frá Síberíu sem rata á land við strendur landsins heldur einnig plast og annað rusl sem eyðist ekki í sjónum eða náttúrunni. Sjá má á plastumbúðum í fjörum landsins að ferðalagið hefur oft verið langt ef marka má upplýsingarnar sem enn má lesa á þeim. Sagt er að rusleyjan sem flýtur á Kyrrahafinu sé margfalt stærri að flatarmáli en Ísland.
Það er fleira sem mengar sjóinn en plastið. Við þekkjum að olían mengar enda köllum við það slys þegar olía lekur í sjóinn. Næringarefni frá landbúnaði geta einnig mengað sjóinn og eytt sjávarlífverum ef þau fara í of mikilu magni í sjóinn eins og raunin er. Frá iðnaði berast efni til sjávar sem raska lífríkinu.
Það er því verk að vinna og ábyrgð mannkyns er mikil því ekki er hægt að fresta því að finna lausn á þeirri mengun sem í hafinu er. Lengi tekur sjórinn við var sagt og er ef til vill enn. Þau orð eru ekki lengur í gildi því framtíð lífs hér á jörðu er í húfi. Þó sjórinn þekji um 70% af hnettinum jörð tekur hann ekki endalaust við. Úrgangur og spilliefni sem hingað til hafa farið í sjóinn eru að breyta vistkerfi sjávar til hins verra fyrir lífið á jörðinni. Þetta er ekki vandamál Íslendinga einna heldur mannkyns alls. Við erum hluti af þjóðum heimsins og berum okkar ábyrgð eins og aðrir.
Við höfum líka mikið til málanna að leggja við rannsóknir á mengun sjávar og lausn á því vandamáli. Við verðum að vera vakandi fyrir því að sjórinn tekur ekki lengur við öllu sem í hann er kastað.
Mengun sjávar hefur ekki bara áhrif á lífríki sjávarins. Í frétt um hreinsunarferð í fjörur á Hornströndum kom fram að „stærra rusl brotnar á endanum niður í smærri einingar og verður að svokölluðu örplasti.” Örplastið á greiða leið inn í líkama sjávarlífvera og fer svo upp fæðukeðjuna og endar í líkama okkar sem neytum. Plast dregur líka í sig eiturefni sem verða á vegi þess í hafinu og þannig aukast mengungaráhrifin. Hér er því alvarlegt mál á ferð sem ekki bara sjómenn þurfa að vera vakandi fyrir heldur við öll.
Á sjómannadegi erum við minnt á að lífið á sér margar hliðar. Það gefur á bátinn á fleiri stöðum en við Grænland. Það getur gefið all hressilega á lífsbátinn okkar. Stundum siglum við blíðan byr, stundum í ofsarokinu berjumst. Þeir textar sem lesnir voru hér í dag úr Biblíunni minna okkur á þetta sem og sálmarnir sem við syngjum. Það að talað sé um það í Biblíunni að veður geta verið válynd og öldurnar háar segir okkur að menn þess tíma þegar textarnir voru skrifaðir, þekktu þetta vel. “Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið, og þeim féllst hugur í háskanum. Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður og kunnátta þeirra kom að engu haldi“ segir í fyrri ritningarlestrinum. Þeir voru á sjónum. En þannig getur það líka verið í lífinu. Við missum tökin. Við ráðum ekki við aðstæðurnar. Við finnum að við getum ekki allt ein. Við þurfum hjálp. Sem betur fer hefur þekking manna aukist til muna. Tæki og enn betri tæki hafa verið fundin upp. Veðurspár hafa batnað. Fatnaður hlífir betur og er þægilegri. Slysavarnarskóli sjómanna hefur miðlað þekkingu og reynslu. En við veður og vinda ráðum við ekki nema að litlu leyti. Veðurfar er að breytast af manna völdum. Það er því ekki hægt að reiða sig á manna minni varðandi fyrirbæri náttúrunnar. Við mannfólkið erum ekki alltaf tilbúin til að hlíta ráðum reyndari manna. Við eigum oft erfitt með að trúa nema reyna sjálf. Þannig var það líka fyrir tvö þúsund árum. Í síðari ritningarlestrinum heyrðum við hrakningasögu Páls postula og félaga hans sem endaði þó vel. “Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni.“ Á þeim slóðum sem þeir Páll og félagar voru á eru margir í dag. Fólk sem er að flýja ófrið og ömurlegar aðstæður. Fólk sem vill búa börnum sínum öruggara líf. Fólk sem hrópar á hjálp. Það eru ekki allir sem ná landi lifandi eins og Páll og félagar forðum. Því miður eru margir sem drukkna á leiðinni í óskafrelsið. En það er líka gleðilegt að minnast þess að Íslendingar björguðu flóttamönnum á Miðjarðarhafinu þegar þeir stóðu þar vaktina í hitteðfyrra.
Þrátt fyrir alla þekkingu og reynslu koma upp atvik sem mannlegur máttur fær ekki við ráðið. Guðspjall sjómannadagsins, frásagan af því þegar Jesús hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn er jafn kunnugleg og frásagan af fæðingu Jesú. Þar er gefið gott ráð þegar stormviðri lífsins buga okkur, gera okkur máttvana og hrædd. Í fréttablöðum og miðlum er gjarnan sagt frá því þegar slys verða. Þau sem slasast eru tekin tali og nær undantekningalaust þakka þau fyrir að komast lífs af og lítt sködduð. Oftar en ekki er Guði þakkað. Þegar á reynir gerum við okkur grein fyrir að lífið sjálft er ekki í okkar höndum þó við getum sjálf gert ýmislegt til að auðga líf okkar og auka lífsgæði okkar og jafnvel heilsu. En lífið sjálft er gjöf. Við báðum ekki um að fæðast en við þökkum fyrir að hafa fæðst og þráum að lifa lífinu í fullri gnægð. Þegar lærisveinar Jesú gátu ekki lengur stýrt bát sínum því öldurnar voru orðnar himinháar og vindurinn margir metrar á sekúndu leituðu þeir hjálpar. Jesús svaf þrátt fyrir veðurofsann segir í guðspjallinu.
Um aldir hefur Jesús verið í þjóðarskútunni íslensku. Nú heyrast raddir um að hans sé ekki óskað lengur. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Það er talað um trúfrelsi, eðlilega en á stundum virðist vera í lagi að gera lítið úr trú kristins fólks. Trúin og trúariðkunin er töluð niður. En það er nú enn þannig að hér á landi er fjöldi fólks sem einlæglega vill hafa Jesú í bátnum sínum. Hann sem hastaði á vindinn og vatnið og þau hlýddu. Hann sem hefur allt vald á himni og á jörðu.
Hér í Dómkirkjunni er fáni með stjörnum, jafnmörgum og hlutu hina votu gröf á umliðnu ári. Nöfn þeirra og líf er geymt í hjarta Guðs. Við sameinumst í bæn fyrir þeim og ástvinum þeirra.
Nú á þessari stundu verður lagður blómsveigur að minnisvarða óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði í virðingu, þökk og samúð. Rísið úr sætum og við lútum höfðum svo í þögn.
Veit þeim, Drottinn, þína eilífu hvíld, og lát þitt eilífa ljós lýsa þeim. Þeir hvíli í þínum friði. Hugga þau sem eiga um sárt að binda, signdu hverja minningu, varðveit hverja von, þerra hvert tár. Í Jesú nafni. Amen.