Úkraína kallar á hjálp, ofbeldismaðurinn veður uppi og það duga
engar fortölur á hann, engin rök. Fréttamyndir af framferði innrásarhersins
vekja óhug og hrylling; eru leikskólar, munaðarleysingjahæli og fæðingardeildir
jafngild skotmörk? Lengra verður varla komist í grimmdinni.
Óverðskulduð kvöl hins undirokaða er brennandi spurning í trúarhugsun
kristninnar.
Í atburðum föstudagsins langa erum við minnt á ofbeldið sem harðstjórnin
beitir, þjáningu hins saklausa og hvar þú ætlar að staðsetja þig á þessum
pólum. Tekur þú þér stöðu með hinum undirokaða eða leggst þú flatur undir
ofríkið? Og hvað þú vilt gera í því? Stríðið í Úkraínu er ekki einkamál Rússa
og Úkraínumanna; þessi saga fjallar líka um þig.
Fá önnur ráð en að taka höndum saman
Ég ætla mér ekki þá dul að halda að ég hafi einhver svör eða bjargráð sem virka
til að stöðva stríðið. Ekki nema að sameinast milljónum manna - jafnvel
hundruðum milljóna manns - í bæn um að Drottinn stöðvi áform illvirkjanna og
veiti friðnum framgang.
Vafalítið notar hann hendur, huga og ráð mannanna til þess; allra þeirra sem
vilja ljá mannúð og friði krafta sína, orku og athygli. Við getum gert margt
til að styrkja frelsisbaráttu Úkraínu og það munar um allt. Fjölmörg samtök á
Íslandi m.a. Hjálparstarf kirkjunnar, hafa skipulagt aðstoð og öll getum við
tekið þátt þar. Það munar um hvert handtak. Að sýna samstöðu og biðja.
Samstöðumessa með Úkraínu verður í Dómkirkjunni á morgun, 13. mars en þar munu
formaður félags Úkraínumanna á Íslandi, Lyubomyra Petruk og Forseti Íslands,
Guðni Th. Jóhannesson, flytja ávörp. Þar er komið saman, eins og í öllum
kirkjum landsins, til að biðja fyrir friði. Verið öll hjartanlega velkomin til
kirkju, einnig þér er þar velkomið að leggja þitt af mörkum.
Með heitri bæn fyrir friði í frjálsri Úkraínu.
Sveinn Valgeirsson