Þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar. Til þín var mér varpað úr móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn. Sl 22.10-11
Í vikunni gafst mér tækifæri á að skyggnast inn í kraftaverk lífsins, skyggnast inn fyrir verndarhjúpinn, sjá litla fingur nuddast við andlit sitt og lítinn kroppinn hreyfa sig. Þetta agnarsmáa fóstur á að vonum eftir að stækka og dafna, verða að meiri manneskju sem síðar mun óstudd anda. Fram að því er það bundið móðir sinni um næringu, heilbrigði hennar og ótal öðrum margflóknum þáttum líkamans. Þetta er dásamlegt kraftaverk og þvílíkt undur að ganga ekki ein og hýsa slíkan fjársjóð. Það er svo margt sem fer í gegnum hugann þennan tíma, ótal tilfinningar og stundum reynist erfitt að henda reiður á þær en allar eiga þessar tilfinningar rétt á sér. Þeirra á meðal er gleðin og tilhlökkunin en þar leynist einnig óttinn og kvíðinn. Óttinn við það sem við höfum ekki vald á, óttinn um að eitthvað fari úrskeiðis í þessu flókna ferli. Kvíði vegna þess sem er ókomið.
Þegar líf er í heiminn borinn er það á allan hátt öðrum háð, það hefur ekkert tiltækt nema grát sinn til að koma á framfæri lífsnauðsynlegum þörfum sínum. Þá er það eru brjóstin sem fæða það og fullorðnar hendur sem vagga því og hugga. Þannig kemst það á legg, þroskast og vex. Áfram er því fylgt í lífinu, hvert skerfið og hvert árið til sjálstæðis. Alltaf verður það þó í þörf fyrir kærleika, umhyggju, leiðsögn og vernd, alveg eins og foreldrar þess og allt fullorðna fólkið í kringum börnin. Samt fá ekki öll börn þessa heims umönnun eða kærleika því manneskjurnar geta brugðist þeim af einhverjum ástæðum.
Þegar mig sem fullorðna manneskju brestur ráð, skortir frið, kærleika, hlýju eða von fnnst mér nærtækast að setja mig í spor þess ungabarns sem öðrum er háð. Þá finnst mér sem það sé Guð sem tekur mig upp, vaggar mér um þar til ég finn frið, hann nærir mig með orði sínu svo ég fyllist von og krafti. Hann horfir í augu mín sem barn sitt og í augum hans sé ég stolt yfir sköpun sinni þó veit Guð að ég er ekki fullkominn en ég veit að hann elskar mig.
Jesús kallaði til sín börnin, blessaði þau og tók mark á tilveru þeirra, líkti henni við Guðs ríki. Börnin eru það viðkvæmasta sem við eigum enda er það líklega stærsti ótti hverrar manneskju að missa barn sitt eða að eitthvað illt hendi þau. Fyrir tilveru þeirra er okkur treyst og þau treysta á tilveru hinna fullorðnu. Í athöfnum kirkjunnar er snúa að börnum birtist réttur þeirra og um leið ábyrgð foreldra og ástvina. Við skírnina kemur krafan um að ala börnin upp í ljósi fyrirheits skírnarinnar, kenna þeim að elska Guð, tilbiðja hann, varðveita orð hans og sakramenti og þjóna náungangum í kærleika. Sem fermdir einstaklingar eru þau okkur á hendur falin, við skyldum varast að hneyksla þau, hafa illt fyrir þeim eða leiða þau afvega á nokkurn hátt en ástunda með orðum og eftirbreytni að halda þeim á hinum góða vegi sem liggur til eilífs lífs.
Þetta er ekki lítið verk en við treystum á leiðsögn Guðs að hann sem frá móðurlífi er Guð okkar og að hann sem leiddi okkur fram af móðurlífi og lét okkur liggja örugg við brjóst móður okkar, það er hann sem á hverjum degi leiðir okkur sem uppalendur og ef eitthvað hendir okkur eða börnin okkar þá er það hann sem opnar faðm sinn, leyfir okkur að hvíla þar örugg, láta huggast og það er hann sem reisir okkur við á ný.