Jesús Kristur, Harry Potter og aðventan

Jesús Kristur, Harry Potter og aðventan

Það eru margir búnir að bíða lengi eftir veislu helgarinnar. Þessa þrjá síðustu daga eru frátekin tæplega þrjátíu þúsund sæti fyrir veislugestina. Síðan verður pláss fyrir tugi þúsunda allra næstu vikur. Áður en yfir lýkur verður örugglega góður bróðurpartur íslensku þjóðarinnar búin að taka þátt í fagnaðinum, upplifa ævintýrið, halda hátíðina með unglingum á öllum aldursskeiðum.

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið, sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: Farið í þorpið hér framundan ykkur, og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Herrann þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau. Þetta varð, svo að rættist það, sem sagt er fyrir munn spámannsins:

Segið dótturinni Síon: Sjá, konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.

Lærisveinarnir fóru og gjörðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín, en hann steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn. Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði: Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum! Matt. 21.1-9

* * *

Það eru margir búnir að bíða lengi eftir veislu helgarinnar. Þessa þrjá síðustu daga eru frátekin tæplega þrjátíu þúsund sæti fyrir veislugestina. Síðan verður pláss fyrir tugi þúsunda allra næstu vikur. Áður en yfir lýkur verður örugglega góður bróðurpartur íslensku þjóðarinnar búin að taka þátt í fagnaðinum, upplifa ævintýrið, halda hátíðina með unglingum á öllum aldursskeiðum.

Hvaða veisla er þetta? Jú, það er koma Harry Potter til landsins, í öllu sínu veldi. Bækurnar, sem eru eins og hver önnur ævintýraguðspjöll, hafa verið að berast síðustu árin. Krakkarnir hafa látið söguna ganga, æ fleiri hafa uppgötvað veröld Potters, baráttu, töfra, ótrúlegra fyrirbæra og spennandi sögu í Hogwartskóla, á heimsmeistarakeppni í quidditch eða bílferð í upptöfraðri Ford Anglíu. Veröld Harry Potter, Herminone og Weasleybræðra er gnóttarheimur viðburða, yfirnáttúrulegra möguleika, hræðilegra og djöfulegra vera. Þessum heimi verður ekki lýst í neinu stuttu máli fyrir þeim, sem aldrei hafa farið inn, en aðeins það verður tjáð að það er mikið um að vera og ástæða fyrir öllum hamaganginum. Og kannski erum við að upplifa viðsnúning á tækniveröld okkar fullorðna fólksins. Kanski er þetta viðnámið við tæknihyggjunni allri, sem ekki megnar að fullnægja þrá okkar í dýptum, þrá okkar eftir ævintýrinu, baráttunni og hinu góða.

Og hátíðin er haldin í bíóunum. Það er búið að undirbúa þessa innreið Harry Potter með ótrúlegu viðskiptaviti. Þegar Eldbikarinn, síðasta bókin, var væntanleg í haust var fólki gefin kostur á að skrá sig sem kaupendur löngu fyrir útgáfudag og að sjálfsögðu að borga bókina fyrirfram (þannig seldust samtals 1,5 milljón eintök!). Það er ekki á hverjum degi, sem viðskiptahættirnir snúast við. Yfirleitt eru greiðslurnar eftir á og með raðgreiðslum, en Potter er ekkert smælki heldur viðburður eða reynsla, sem fólk borgar áður en varan er í hendi. Fyrir löngu stóðum við foreldrar og Potterormar í biðröð við bíóhúsin til að kaupa miða á sýningar á frumsýningardegi, sem var á föstudaginn var. Og þrátt fyrir að við teljum okkur upplýst og meðvituð um hvað er að gerast og hvernig með okkur er farið, látum við okkur hafa það að bíða, borga og vera í stóra hópnum. Og Potterinn er komin á kvikmyndatjaldið, kominn í bæinn og margir búnir að upplifa persónurnar Hagrid og Dumbledore á tjaldinu og jafnvel fá einhverja mynd á hryllingsnálægð Voldemort.

* * *

En af hverju erum við að draga Harry Potter inn í kirkju og predikunarstól? Það eru jú örugglega einhverjir hér í dag, sem ekki hafa enn látið sig æðið nokkru skipta.

Það er margt sem kemur til. Guðspjallið í dag er eins og sena úr nágrenni Hogwart-skóla og það er margt sem má greina af hliðstæðum. Þetta er torræður atburður og eiginlega afar dularfullur og við skulum skoða hann nánar.

Hópur af mönnum nálgaðist hæð sem kennd var við Olíu. Nokkrir sendiboðar eru valdir úr hópnum og sendir. Í stað flutningsdufts eða kústs er það asni, sem þeir eiga að leita að og sækja. Flokkurinn fer með leynisetningu, sem þeir eiga að segja: Leyniorðið er eins og segir í Matteusarguðspjalli: "Sjá konungur þinn kemur til þín, hógvær og ríðandi á asna og á fola, afkvæmi áburðardýrs." Auðvitað stóðst allt og svo fara þeir með leyniorðin. Dýrin biðu þar sem þau áttu að vera, allt gekk eins og fyrirfram var skipulagt. Setningarnar voru sagðar og dýrin voru látin laus. Við fáum engar skýringar, hvort þetta voru töfrar eða eða bara fullkomlega skilulagt ferli. Svo teymdu vinir Jesú dýrin með sér, eins og þau væru hippógriffínar, til hetjunnar sinnar, lögðu föt á hrygg skepnunnar og Jesús steig á bak. Síðan hófst þessi undarlega reið inn í borgina Jerúsalem, sem furðaði mig alltaf, þegar ég var krakki. Fjöldi fólks safnaðist saman, hjó greinar og lim af trjánum og henti á veginn. Á trjálausu landi var þetta ævintýralegt andlegt sjónarspil, að taka trén og dreifa þeim á veginn. Ekki þorði maður að gera nágrönnunum þetta í bernsku! Svo var okkur sagt að þetta atferli væri eins og þegar konungur kæmi, svona mótttaka fyrir ofurhetjur. Svo æpti fólk og skrækti og hrópin voru táknhróp líka, nánast eins og töfraþula: "Hósanna syni Davíðs. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins."

Þennan texta þekkjum við úr öðru samhengi, pálmasunnudegi. Það er samhengi milli aðventuupphafs og vikunnnar fyrir páska. Þá eru þessir viðburðir einnig rifjaðir upp í kirkjunni. Af hverju? Jú vegna þess, að þá kemur Kristur og þá eru ráðin lögð um afdrif hans. Þá kom hann á för til dauða. Á þessum tíma er allt annað í gangi . Nú kemur hann sem barnið.

Hann kemur. Kallað er: "Hósanna syni Davíðs." Söguna rifjum við upp og við skulum ekki aðeins hlusta á yfirborðið í henni, tökum eftir boðskapnum og inntakinu. Hvað þýðir þessi söngur "Hósanna syni Davíðs. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins"? Samtímamenn Jesú voru ekki í vafa um líklegustu merkingu þess hróps. Þeir, sem tóku á móti Jesú héldu að hann væri konungurinn, sem þeir höfðu búist við og myndi með yfirnáttúrulegu móti brjóta hernám Rómverja á bak aftur og gefa þeim frelsi. Þeir áttu von á einhverjum, sem gæti gert hið ómögulega og breytt öllum aðstæðum. Til að taka nútímalegt dæmi um hliðstæðu gætum við nefnt Osama bin Laden. Það er hershöfðingi, sem þeir áttu von á. Því var ekki óeðlilegt, að hernaðaryfirvöld í Jerúsalem, ráðandi stétt og áhyggjufullir forráðamenn trúmála þjóðarinnar væri ekki sama og gerðu margt og sumt vont til að bregðast við. Og þar voru einmitt hin miklu mistök þeirra. Þeir skildu ekki, að Jesús var ekki sá sem ætlaði að koma með valdi, ríkidæmi, stríði og yfirgangi. Hann var ekki kominn til að vera forseti heimsins heldur þjónn, ekki veraldlegur konungur heldur auðmjúkur bróðir, ekki stríðsherra heldur farvegur friðar og frelsis.

Þess vegna er þessi texti rifjaður upp í dag til að við spyrjum okkur: Í hvaða hópi erum við? Erum við að rífa limið af trjánum og henda á götuna fyrir einhvern allt annan en Jesú eða erum við að undirbúa okkur undir komu barnsins: Guðs ljóssins, gleðinnar, blessunnarinnar. Það er í þessum anda, sem er svo mikilvægt að við stöldrum við og spyrjum okkur hvaða Jesú við ætlum að taka á móti. Er það einhver draumaur eða Jesús Kristur sem er á leiðinni til þín og Guð sendi?

* * *

Aðventan er hafin. Við kveikjum á fyrsta kertinu á kransinum. Aðventa, og orðið á bakvið er latneska orðið adventus, sem þýðir koma, eða tilkoma. Aðventan er ferðalag Jesú til mannheims, fæðing í heim sem brennur í stríðum, er fullur af baráttu milli góðs og ills, reiði og gleði, sorgar og fagnaðar. Hann er að koma. Og aðventan er tækifæri til að undirbúa komu hans.

Það hefur komið í ljós síðustu vikurnar, að við erum alveg fær um að taka þátt í undirbúningi eða aðventu Harry Potter. Við erum fær um að kaupa miðana með löngum fyrirvara og við væntum og gleðjumst. Og við tökum svona vel á móti honum þó hann sé enginn kóngur, þó hann sé enginn stríðsherra eða kannski þess vegna. Við tökum á móti honum með hátíð þó hann sé ekki til nema í huga okkar. Er það það sem við viljum og er það sem við gerum á jólunum? Tekur þú við jólum með fögnuði af því að þau eru bara plat, fallegt ævintýri, saga sem vekur kenndir um eitthvað jákvætt innan í þér? Ertu kannski í sporum þeirra sem voru við veginn í Jerúsalem forðum og kastaðir limi að ímynd þinni, í átt til manns sem þú varpaðir eigin draumum til. En Jesús vill ekki limið af trjánum, vill ekki hrópin um Davíðs son, vill ekki tilbeiðslu fólks sem er að bíða eftir eigin draumi eða draumi um einhvern pólitískan bin Laden.

Aðventa - Jesús er að koma. Jesús kemur vegna þess að veröldin er í álögum, er öfugsnúin og þráir frið, leiðsögn, vit að nýju, ást himins í heimi. Jesús er á leiðinni: Ekki með myndasýningu í kvikmyndahúsi, ekki með töfrasprota, ekki með söluvarning, tölvuleik eða geisladisk, heldur með því að vera mennskur og tilfinningaríkur vinur okkar, bróðir, kennari, bjargvættur og framtíð - Lífið sjálft.

Jesús er á leiðinni. Við hverjum tekur þú?