Prestar Fríkirkjunnar í Hafnarfirði skrifa grein í Morgunblaðið 23. maí þar sem fjallað er um sóknargjöld og greiðslur ríkisins til safnaða og í Jöfnunarsjóð og bent er á að stuðningur ríkisins við fríkirkjurnar er talsvert minni en við sambærilega söfnuði þjóðkirkjunnar. Hér er bent á réttlætismál sem á sér þó dýpri rætur en kemur fram í greininni. Þegar samningar ríkis og kirkju um kirkjujarðir voru gerðir og þjóðkirkjulög sett árið 1997 gleymdist að taka evangelísk-lúthersku fríkirkjusöfnuðina með í reikninginn. Þeir starfa á nákvæmlega sama játningagrundvelli og söfnuðir þjóðkirkjunnar, nota sömu handbækur og sálmabækur og prestar þeirra hafa stundað nám við guðfræðideild Háskóla Íslands og eru vígðir af biskupi Íslands. Tengsl þjóðkirkjunnar við ríkið voru fríkirkjumönnum upphaflega þyrnir í augum, en með áður nefndum lögum, sem kveða á um sjálfstæði þjóðkirkjunnar sem sérstaks evangelísks-lúthersks trúfélags, er þeim þröskuldi úr vegi rutt sem olli því að fríkirkjufólk sagði sig úr þjóðkirkjunni. Það ástand sem þá ríkti er nú ekki lengur fyrir hendi og segja má að með umræddum þjóðkirkjulögum hafi markmiðum fríkirkjuhreyfingarinnar sem til varð fyrir rúmri öld síðan verið náð.
Þó svo talað sé um þjóðkirkju í stað ríkiskirkju í stjórnarskránni frá 1874 verður eiginleg þjóðkirkja ekki til fyrr en eftir tilkomu heimastjórnarinnar árið 1904 og þeirra skipulagsbreytinga sem hún kom til leiðar. Fríkirkjufólk á Austurlandi og í Reykjavík mótaði þjóðkirkjuguðfræðina í upphafi og skaut hún síðan rótum í þjóðkirkjunni sem stofnun á fyrstu tveimur áratugum síðustu aldar. Það má því með sanni segja að evangelísk- lúthersku fríkirkjusöfnuðirnir eigi fulla aðild að þeim ítökum sem kirkjan á í þjóðarbúinu og helgast af sambúð þjóðar og þeirrar kirkju sem varð til með siðbreytingunni á 16.öld. Þau ítök umreyttustu í fjárframlög á grundvelli þeirra hagstæðu samninga sem gerðir voru um kirkjueignirnar árið 1997.
Sambúð kirkju og þjóðar hefur verið náin í gegnum aldirnar og þáttur kirkjunnar í fræðslumálum, menningarmálum og félagsmálum er viðurkenndur af öllum sem hafa kynnt sér þjóðarsöguna undanfarnar tvær aldir eða svo - hver svo sem trúarafstaða þeirra er. Við upphaf 21. aldar nýtur þjóðkirkjan góðs af þeim trúverðugleika sem þjónusta kirkjunnar við samfélagið hefur skapað henni og eðlilegt er og réttlætismál að fríkirkjusöfnuðirnir njóti hans einnig. Þeir ættu að eiga aðild að Kirkjumálasjóði og Jöfnunarsjóði sókna; prestar þeirra ættu að fá dagpeninga til setu á prestastefnu og þar ættu þeir að hafa atkvæðisrétt. Prestar og leikmenn þessara safnaða ættu að taka þátt í biskupskjöri, eiga fulltrúa á kirkjuþingi og í öðrum stofnunum þjóðkirkjunnar þannig að hlutdeild þeirra í starfi lúthersku kirkjunnar innan lands og á alþjóðlegum vettvangi væri tryggð.
Nú er verið að samræma lög og reglugerðir um innri málefni þjóðkirkjunnar og þá þarf að laga ramma hennar þannig að lúthersku fríkirkjusöfnuðirnir finni sig heima þar. Þar mega þröng skráningartæknileg sjónarmið og sérhagsmunir ekki ráða ferðinni ef hin evanglelísk-lútherska þjóðkirkja ætlar að starfa í landinu sem eitt trúfélag og ein kirkjudeild sem skírskotar til þjóðararfs og menningar.