Dýrmætur vatnsdropi

Dýrmætur vatnsdropi

Ég hafði oft séð svona brúsa áður á ferð okkar um landið og vissi að í þeim var vatn. Ég hafði líka rekist á fólk og börn gangandi með þessa þungu vatnsbrúsa nánast hvar sem litið var. Ég kallaði til strákanna og spurði hvað þeir hefði verið lengi að. Í allan dag, svöruðu þeir strax.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Karl Helgason
13. desember 2005

Um kvöldmatarleytið var myrkur skollið á þótt enn væri september. Við settumst fyrir utan litla hótelið í miðjum bænum og virtum fyrir okkur mannlífið sem iðaði allt í kring. Við vorum fjögur, frá Íslandi, Svíþjóð og Bandaríkjunum. Fyrir mér var svo margt nýtt að sjá og upplifa í þessu frjósama landi, Úganda, rétt við miðbaug. Stórfenglegt land og yndislegt fólk.

Kaupmaðurinn beint á móti var að slökkva ljósin í búðinni sinni og lokaði henni rétt yfir kvöldmatartímann, en opnaði svo aftur seinna. Það voru engir ljósastaurar en við heyrðum að einhver var að koma upp eftir götunni, þar sem talsverð brekka var. Þetta voru tveir drengir, kannski á fermingaraldri að teyma reiðhjólin sín upp brekkuna með þrjá stóra plastbrúsa hvor bundna við hjólin.

Ég hafði oft séð svona brúsa áður á ferð okkar um landið og vissi að í þeim var vatn. Ég hafði líka rekist á fólk og börn gangandi með þessa þungu vatnsbrúsa nánast hvar sem litið var. Ég kallaði til strákanna og spurði hvað þeir hefði verið lengi að. Í allan dag, svöruðu þeir strax.

Dagsverk, hugsaði ég, að ná í vatn fyrir heimilið, vatn sem dugði samt ekki nema í tvo daga eða svo. Síðan þyrftu þeir aftur að halda af stað á hjólunum sínum. Vatn er ekki að fá í næsta krana, það er enginn krani til og það er heldur ekki vatn í næsta nágrenni. Það er líka nánast öruggt að vatnið sem finnst sé mengað og er alls ekki drykkjarhæft. Dýrin hafa sennilega svalað þorsta sínum á vatnasvæðinu, fuglar vaðið þar um og önnur kvikindi.

Strákarnir höfðu sennilega hjólað um 20 km eða svo til þess eins að ná í vatn til brýnustu þarfa fyrir heimilið. Ég hitti líka önnur börn og ræddi við unga konu sem fór fótgangandi svipaða vegalend. Þeir eru ekki léttir þessir 20 lítra brúsar fullir af vatni og ekki treysti ég mér til að bjóða mig fram til að fara eina ferð.

Það var heldur ekkert rennandi vatn á hótelinu okkar sem hefði ekki fengið eina stjörnu í hótelbæklingum Vesturlanda. Hjá okkur er rennandi vatn sjálfsagt og eðlilegt hvar sem við förum um í okkar heimshluta og við veltum því lítið fyrir okkur að öðru leyti.

Við heimsóttum líka ungan dreng sem bjó einn með bróður sínum. Báðir foreldra þeirra höfðu látist úr alnæmi eins og þúsundir annarra í þessu landi. Hann átti þá ósk heitasta að eignast reiðhjól svo hann þyrfti ekki alltaf að ganga tugi kílómetra eftir vatni. Fyrir tilstuðlan gjafa frá Íslandi í söfnun Hjálparstarfs kirkjunnar hafði verið unnt að byggja lítið hús fyrir þá bræður og steypa upp vatnsgeymi. Í þann tank rann vatnið af bárujárnsklæddu þakinu á húsinu þeirra eftir einni þakrennu sem var eins konar lífsbraut hjá þessum ótrúlega duglegu bræðrum. Hver vatnsdropi er þeim dýrmætur og lífsspursmál að safna í tank til að eiga eitthvað á þurrkatímanum og langt er í næstu vatnslind.

Ég man líka þegar við tveir félagarnir frá Íslandi stóðum á gangstéttinni í annarri borg sunnar í Afríku, í Mósambik og virtum fyrir okkur krakkana sem voru allt í kring. Einn lítill snáði beygði sig niður og dýfði plastflösku ofan í ræsi á götunni og fyllti hana af vatninu sem þar var að finna. Svo hvarf hann á braut. Ég veit ekki meir um hann og vatnsflöskuna hans, en þykist vita að vatnið var örugglega mengað og lífshættulegt fyrir heilsu hans og annarra sem hafa drukkið það.

Hjálparstarf kirkjunnar er líka að vinna á þeim slóðum við að grafa brunna og finna hreint vatn fyrir fólkið þar. Ég sá hvernig einn slíkur brunnur gat breytt miklu fyrir allt það fólk sem þarfnast hjálpar okkar og þiggur hana með þakklæti. Þarna sá ég hvernig við hér í okkar fjarlæga landi áttum þátt í því að gera þeim þetta kleift. Nú höfum við á aðventunni fengið sendan “vatnsdropa” og gíróseðil að upphæð 2500 kr. frá Hjálparstarfi kirkjunnar einmitt til kosta vatnsöflun í þessum löndum í Afríku. Með því að greiða þá upphæð getum við öll lagt okkar af mörkum til að unnt sé að grafa brunna og reisa vatnstanka sem skipta miklu fyrir þessar systur okkar og bræður í Afríku. Það er ekki mikil fyrirhöfn eða fórn af okkar hálfu en gjörbreytir högum þeirra til betra lífs og bjartari framtíðar.