Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Amma Agnes. Jesús er týndur, sagði tæplega þriggja ára barnabarn mitt við mig í símtali fyrir nokkrum dögum.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
09. apríl 2023
Flokkar

Prédikun flutt í Dómkirkjunni á páskadag 9. apríl 2023.  Jes. 25:6-9; 1. Kor 15:1-8; Matt. 28:1-10.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Amma Agnes.  Jesús er týndur, sagði tæplega þriggja ára barnabarn mitt við mig í símtali fyrir nokkrum dögum.  Þetta er sama barnið og talaði við Jesú styttuna í Hallgrímskirkju í Reykjavík og þegar hann fékk ekkert svar spurði hann:  Jesús, ertu feiminn?

Við tengjum við það sem við þekkjum.  Lítil börn læra fljótt að setja hendur fyrir augu og segjast vera týnd og svo eigum við fullorðna fólkið að leita.  Aðeins eldri börn vita hvað er að vera feimin enda eru sum þeirra feimin jafnvel fram á fullorðins aldur.

Barnið fékk að heyra söguna um upprisuna og tómu gröfina enda páskar framundan.  Hann fékk að heyra orðin sem konurnar fengu að heyra þegar þær vitjuðu grafarinnar:  „Hann er ekki hér.  Hann er upp risinn.“  Hann dró því þá ályktun að Jesús væri týndur.

Það er ljómi yfir þessum degi enda mesta hátíð kristinna manna gengin í garð.  Dagarnir fram að hvítasunnu eru nefndir gleðidagar í kirkjunni.  Þeir haldast í hendur við lífið sem nú kviknar hvarvetna í náttúrunni.  Þegar blómin kíkja upp úr moldinni og grasið grænkar á túnum og í görðum.  Þegar lítil lömb fæðast og myrkrið hopar fyrir birtunni hér á norðurslóðum. 

Þær voru tvær á ferð María Magdalena og María hin.  Þær höfðu staðið við kross vinar síns sem hafði verið lagður í gröf og lokað fyrir hana með steini.  Þær vissu hvar gröfin var.  Þær biðu af sér hvíldardaginn og lögðu snemma af stað til að gera líkinu til góða eins og siður var í landi þeirra.

Konur hafa löngum haft það hlutverk að þjóna öðrum, líkna og hlúa að.  Þó lærisveinarnir 12 hafi allir verið karlmenn er nokkuð ljóst af lestri guðspjallanna og Postulasögunnar að konur voru líka í þeim hópi sem fylgdi Jesú. 

Á tímum Jesú voru konur ekki vitnisbærar og því vekur það athygli og hjá mörgum einnig ánægju að Maríunum tveimur var treyst fyrir því að vera fyrstu vottar og boðberar upprisunnar. 

Þegar Jesús fæddist voru það hirðar úti í haga sem ekki var nú mikið látið með í þann tíð. Þeir fengu fyrstir að heyra um fæðinguna og fyrstir að segja frá henni.  Í hvorugu tilvikinu voru það háttsettir einstaklingar innan samfélagsins sem fengu það hlutverk að boða þau tíðindi sem hafa haft svo afgerandi áhrif á einstaklinga og samfélög alla tíð. 

Jesús kom fram við fólk þannig að það efldist og styrktist.  Hann barðist gegn illsku og þeim hugmyndum margra í samtíma sínum sem skiptu fólki í flokka.  Kærleiksboðskapur hans var ekki aðeins fluttur með orðum heldur einnig með verkum. 

Undanfarnar vikur höfum við fengið fréttir af viðhorfi til kvenna sem okkur hér á landi hugnast ekki.  Við höfum heyrt um mótmæli kvenna í Íran sem brutust út eftir andlát konu sem handtekin var fyrir að bera ekki höfuðfat á almannafæri.  Hún braut sem sagt lög landsins sem skipa konum að bera höfuðblæju.

Í öðru landi Afganistan berast fréttir af því að konum sé meinað að vinna utan heimilis og mennta sig.  Konur heimsins eiga því margar hverjar langt í land með að ná sömu réttindum og karlar.

Jesús kom fram við konur á sama hátt og við karla.  Hann bar virðingu fyrir öllum, háum sem láum, hraustum sem veikum. Það ber vott um mikið traust að fela konunum að flytja fyrstar boðin um upprisuna.  „Hann er ekki hér.  Hann er upprisinn.“  Þessi fáu orð tala beint í hjartastað og fela í sér ást til lífsins og von fyrir hverja þá manneskju sem meðtekur.

Upprisusögur nútímans eru margar.  Hver og ein felur í sér nýtt líf fyrir þann sem reynir.  Persónulegar sögur fólks sem lent hefur á grýttum vegi tilverunnar og komist á betri og hamingjuríkari stað er meðal annars hægt að lesa í páskablaði Samhjálpar.  

Það er eftirtektarvert í frásögu Matteusar af páskaundrinu sem við heyrðum lesna frá altarinu áðan að ótti og gleði eru þær tilfinningar sem fara saman hjá konunum.  Ótti getur verið lamandi og heft okkur til athafna og úrbóta.  Ótti getur líka verið hvati til að bregðast við og berjast á móti því sem meiðir og særir.  Það er ekki undarlegt þó ótti hafi gripið konurnar því þær reyndu einstæðan atburð við gröfina.  Það er heldur ekki undarlegt að þær hafi fyllst gleði þegar engillinn sagði þeim af upprisu Jesú.  Þær fóru með þessar tilfinningar í farteskinu og sögðu lærisveinunum frá.  Þær treystu líka orðum engilsins um að Jesús færi á undan þeim á fund lærisveinanna.  Þær fylgdu leiðtoganum eins og þær höfðu gert frá þeirra fyrstu kynnum.

Kristið fólk um heim allan fagnar nú upprisu Jesú en hún er að sönnu undirstaða trúar okkar og boðunar.  Undanfarna áratugi hefur kristnu fólki skilist að samstaða og samheldni skiptir höfuðmáli fyrir framgang kristinnar trúar og boðunar um heim allan.  Kærleiksboðskapur Jesú Krists á erindi til allra manna á öllum tímum og kristnum kirkjum fjölgar mjög til dæmis í Asíu og Afríku.  Hið sama á ekki við um hin ríku Vesturlönd þar sem viðhorf margra er trú á mátt sinn og megin og lítið gert úr og með áhrif kristinnar trúar og hlutverk kristinnar kirkju.   Það var því hressandi að lesa greinina hennar Kolbrúnar Bergþórsdóttur í eina útgefna dagblaði landsins sem hún nefnir „Almættið í samtímanum“ þar sem hún minnir meðal annars á að ótal margt í umhverfi okkar og menningu minni á kristna trú og verði ekki auðveldlega upprætt. 

Heimurinn þarf á upprisuboðskapnum að halda.  Þegar óttinn er yfirþyrmandi. Ofbeldi er daglegt brauð, fátækt víða og eyðilegging af völdum loftslagsbreytinga kallar á nýja nálgun í daglegu lífi fólks þá er ástæða til að staldra við og spyrja hvar er hjálp að fá og kraft og vit til að bregðast við.  Þegar margir jarðarbúar reyna kúgun og stríð, kynþáttafordóma og margskonar óréttlæti er ástæða til að staldra við og horfa fram á við og fylgja þeim sem á undan fer eins og Maríurnar tvær upprisumorguninn forðum.  Það er ástæða til þess vegna þess að hinn upprisni Jesú hefur sigrað bölið, illskuna og dauðann sjálfan.  Hinn upprisni Kristur hefur síðasta orðið, orð endurreisnar, endurnýjunar og upprisu.

Lífið fer ekki mjúkum höndum um okkur mannanna börn alla ævidaga okkar. Við skulum í bænum okkar minnast allra þeirra sem glíma við erfiðleika, sjúkdóma, hræðslu, vanrækslu.  Við skulum minnast bræðra okkar og systra í Úkraínu og öðrum stríðshrjáðum löndum og biðja þess að friður komist skjótt á.  Það eru margar birtingarmyndir stríðs og margar ljótar sögurnar.  Það að 16 þúsund úkraínskum börnum hafi verið rænt og flutt til Rússlands nýstir hjartað.  Grimmdin á sér margar hliðar sem bregðast þarf við með von og kærleika í brjósti.  Það er ekki í boði að bíða. 

Eitt af verkefnum kristinna manna er að sofna ekki á verðinum og halda stöðugt áfram að minna á vonina sem í upprisuboðskapnum felst.  Það er von í öllum aðstæðum.  Jesús fór á undan konunum frá gröfinni til Galileu til að segja lærisveinunum frá upprisu frelsara þeirra.  Hann fer einnig á undan hverjum þeim sem ákveður að leggja sitt af mörkum til að gera heiminn betri og lífvænlegri. 

Konungur lífsins kemur hér til sala,

kveður til fylgdar börnin jarðardala,

undan þeim fer hann, friðarmerkið ber hann,

frelsari er hann

segir í sálmi sr. Friðriks sem oft er sunginn við fermingar. 

Jesús Kristur fer á undan okkur í lífi og dauða.  Hann hefur gefið okkur hlutdeild í upprisu sinni.  Við megum lifa í þeirri von og deyja í þeirri trú. 

Jesús er týndur, sagði barnið.  Jesús er fundinn segir kristið fólk.  Tími endurnýjunar og upprisu er runninn upp.  Tími trausts á upprisinn frelsara og tími vonar fyrir mannkyn allt er runninn upp.  Hann sem stóð upp úr gröf inni á þriðja degi og gekk til móts við vini sína fer á undan og vísar okkur veg.  Hann sem elskaði heiminn og miðlaði elsku sinni til allra manna er upprisinn. 

Kristur er upprisinn.  Kristur er sannarlega upprisinn.  Gleðilega lífsins hátíð.