Flutt 13. nóvember 2017 · Grafarvogskirkja, Kirkjusel Spöng
Í vikunni kom frétt í fjölmiðlum um konu sem er öryrki og vann mál gegn Landsbankanum í héraðsdómi. Hún hafði veitt kærustu sonar síns veð í íbúð sinni, sem síðan stóð ekki í skilum. Bankinn hafði ekki sinnt skyldum sínum varðandi greiðslumat og upplýsingaskyldu og lánið því dæmt ólögmætt. En nú er bankinn búinn að áfrýja málinu til hæstaréttar, og verður kostnaðurinn væntanlega miklu meiri en þessar 1.7 milljónir sem skuldin snerist um.
Það kom líka frétt um að að Hafnarfjarðarbær er að reyna að leysa til
sín skólabyggingar, sem hann lét byggja og afhenti síðan einhverjum
einkaaðilum og leigir síðan aftur af þeim. Þetta er búið að kosta bæinn
miklu meira en byggingarkostnaðurinn hefði verið, og nú vill bærinn út
úr þessum samningi. Og einkaaðilarnir væntanlega búnir að græða helling.
Hvað ætli ekkjan sé að hugsa þegar hún gefur síðustu peningana sína?
Hvað rekur hana til að fara í musterið og steja lífsbjörg sína í sjóðinn
þar? Þar sem hennar framlag skiptir í raun engu máli, miðað við framlag
hinna ríku?
Er hún að hugsa um að vonandi muni musterið sjá um hana? Gefa henni að borða? Er þetta svona eins og gamla fólkið í Íslandi sem lætur af hendi mestmegnis innkomu sinnar til að fara á hjúkrunarheimili og fær síðan bara vasapeninga?
Eða er hún búin að gefast upp, veit að hún mun deyja og musterisferðin er eins konar gjörningur – yfirlýsing? Nú get ég ekki meir, nú fer ég héðan og dey, ég þarf ekki á þessum peningum að halda, þeir gera hvort eð er ekkert nema framlengja lífið, sem er hvort eð er ömurlegt… Kastar frá sér síðustu voninni, því hún er búin að gefast upp?
Eða er hún bara svona trúrækin, samviskusöm og trygg, að hún gerir skyldu sína, sama hverjar aðstæður hennar eru? Við vitum það ekki. En hvort heldur sem er, beinir Jesús athygli lærisveinanna að henni.
Þessi saga hefur gjarnan verið túlkuð sem áminning til okkar um að gefa, jafnvel þótt við eigum ekki mikið…Og sem áminning um að það er ekki gjöfin sem skiptir máli, heldur hugurinn á bak við hana. Sælla er að gefa en þiggja, eins og Páll postuli segir í ritningarlestri dagsins. En ef við skoðum samhengi sögunnar kemur ýmislegt í ljós.
Textinn á undan textanum um eyri ekkjunnar er nefnilega svona: Þegar
Jesús var að kenna þeim sagði hann: „Varist fræðimennina sem fýsir að
ganga í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í
samkundum og hefðarsæti í veislum. Þeir mergsjúga heimili ekkna en
flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm.“
Það var frumskylda samfélags gyðinga að hugsa vel um ekkjur og
munaðarleysingja. Fólk sem ekki átti fjölskyldu sem sá fyrir því, var
mjög illa statt í Ísrael. Það var ekkert félagslegt kerfi, nema
fjölskyldan. Hún átti að sjá um þau sem voru veik, og gátu ekki séð um
sig sjálf. Ef þú áttir ekki fjölskyldu, ef þú varst ekkja, t.d. og áttir
enga syni, þá hafðir þú enga möguleika á að sjá fyrir þér. Og ef þú
varst munaðarleysingi, varstu mjög illa staddur/stödd. Allir spámenn
gamla testamentisins leggja mikla áherslu á að það eigi að sinna þessu
fólki. Og þannig var það líka á tímum Jesú. Og Jesús í
Markúsarguðspjalli er mjög gagnrýninn á fræðimennina og prestana, því
honum finnst þeir vera komnir langt frá hlutverki sínu. Þeir eru orðnir
hégómlegir, farnir að hugsa meira um eigin upphefð, í stað þess að vera
málsvarar lítilmagnans. Þeir mergsjúga heimili ekkna, og flytja langar
bænir að yfirskini, segir Jesús. Og þeir byggðu stórar og glæsilegar
byggingar, sem þjónuðu engu nema þeirra eigin hégóma og gróðafíkn. Strax
í kjölfar þessarar sögu, segir:
Þegar Jesús gekk út úr helgidóminum segir einn lærisveina hans við
hann: „Meistari, sjáðu, hvílíkir steinar, hvílíkar byggingar!“
Jesús svaraði honum: „Sérðu þessar miklu byggingar? Hér verður ekki steinn yfir steini, allt lagt í rúst.“
Framámenn samfélagsins höfðu meiri áhuga á að lyfta sjálfum sér upp, hagnast og auðgast, og reisa minnismerki og byggingar. En Jesús benti lærisveinunum á ekkjuna sem kom í musterið, með síðustu lífsbjörg sína. Ég held að þessi saga sé ekki svo mikið til þess að við fáum sektarkennd yfir því að við gefum ekki nóg. Hún er miklu frekar áfellisdómur yfir stofnunum samfélagsins. Stofnunum sem eru farnar að þjóna allt öðru hlutverki en þær áttu að gera í upphafi. Stofnunum sem eru farnar að mergsjúga fólk í stað þess að bæta lífsgæði þess. Og Jesús spáir því í raun, að samfélag sem ekki hugsar um lítilmagnann, samfélag sem mergsýgur heimili ekkna, það fær ekki staðist. Og sagan sýnir okkur það. Við getum þolað ójöfnuð og óréttlæti upp að vissu marki. En þegar ójöfnuðurinn og óréttlætið fara yfir einhver ákveðin mörk, fær fólk einfaldlega nóg og gerir uppreisn.
Jesús segir lærisveinunum að taka eftir ekkjunni. Hver ætli örlög hennar hafi orðið? Ef það er rétt sem hann segir, að hún hafi gefið alla lífsbjörg sína, þá hefur ekkert beðið hennar nema dauðinn. Skv. Guðspjallinu dó Jesús 4 dögum eftir þessa atburði í musterinu. Kannski hefur ekkjan dáið á sama tíma. Hver veit. Og Jesús segir okkur líka að taka eftir ekkjunum og hinum munaðarlausu í okkar samfélagi. Við þurfum að vera meðvituð um að það er fólk okkar á meðal sem er aðfram komið, eins og ekkjan. Sem hefur ekki húsnæði. Sem veit ekki hvaðan næsta máltíð kemur. Sem þarf að leita á náðir hjálparstofnana snemma í hverjum mánuði vegna þess að tekjurnar duga ekki nema í nokkra daga. Og við eigum ekki að sætta okkur við það að stofnanirnar okkar bregðist. Við eigum ekki að sætta okkur við að þær hafa verið gerðar að peningamaskínum fyrir einhver andlitslaus gróðaöfl.
En hvað getum við gert? Erum við ekki vanmegnug gagnvart þessu öllu? Nei, ég held ekki. Fyrst og fremst þurfum við að vera meðvituð og hafa réttlætiskennd okkar í lagi. Og við eigum að styðja þau sem láta í sér heyra. Sem benda á óréttlætið í samfélaginu. Sem benda á ekkjurnar og munaðarleysingja. Fjölmiðlar eru t.d. mjög mikilvægir í því sambandi, og það er hættumerki þegar það er reynt að þagga niður í þeim. Við eigum ekki að láta það viðgangast.
Jesús þarf á okkur að halda. Til að standa vörð um ekkjur og munaðarlausa í samfélaginu okkar. Guð gefi okkur styrk til að sinna því hlutverki.
Dýrð sé Guði, sem hvetur okkur til dáða. Amen.