Æskan telur

Æskan telur

Sum bréfin voru almenn hvatningabréf og þakkir fyrir vel unnin störf til ákveðinna félaga eins og Rauða krossins og Skátahreyfingarinnar á Íslandi. Önnur bréf voru til ákveðinna ráðuneyta með hvatningu til að halda áfram að vinna að endurreisn samfélagsins.
fullname - andlitsmynd Sigríður Rún Tryggvadóttir
22. október 2009

Æskan telur

Þrátt fyrir sjóriðu og svefnleysi, kom ég full af krafti og von af Landsmóti Æskulýðsfélaga síðustu helgi. En að þessu sinni var landmót haldið í Vestmannaeyjum. Greinilega er eitthvað við Eyjarnar fögru sem laðar að, því þetta var fjölmennasta Landsmót í manna minnum, 450 æskulýðsbörn og leiðtogar og þó hafði 120 manna hópur af Austurlandi boðað forföll vegna svínaflensu.

Ég verð að vera alveg hreinskilin að í Herjólfi föstudaginn 16.október, þar sem við sigldum ólgusjó, slagviðri og myrkri, með ungmenni og leiðtoga liggjandi á gólfinu um allt skip, ælandi og í algjörri örvæntingu hugsaði ég með mér; ,,Hvers vegna erum við að gera þeim þetta? Þetta endar aldrei öðru vísi en illa og þjóðlag helgarinnar verður; ælandi, gubbandi, ælandi, gubbandi, ælandi, gubbandi, ælandi –gubb!!!”

Þess vegna var ennþá magnaðri upplifun að vera með þessu sama unga fólki í fræðslustundinni á laugardagsmorgninum. Í fræðslunni var farið í gegnum yfirskrift mótsins „Til komi þitt ríki – Æskan telur“. Þar voru útskýrðir þeir ritningastaðir sem liggja til grundvallar, versið úr bæn Drottins, til komi þitt ríki sem ríki Guðs, þar sem allir eru jafnir og jafnt ungir sem aldnir hafa rödd.

Síðari hluti yfirskriftarinnar Æskan telur er tekið úr 1.Tím 4.12; ,,Lát engan líta smáum augum á æsku þína en ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi.” Út frá þessari fræðslu var þeim svo gefið það verkefni að skrifa hvatningabréf. Þau áttu sjálf að koma með tillögur að viðtakendum, hverjir í samfélaginu þyrftu mest á hvatningu að halda.

Við leiðtogar vonuðumst til að þeim myndi detta einhverjir 9 aðilar í hug, því til stóð að skipta hópnum í 9 smærri hópa. Við ætluðum samt að vera tilbúin á kantinum með tillögur ef þau væru alveg tóm og engar hugmyndir kæmu frá þeim. En þau komu með tillögur að 27 viðtakendum, 27!!! Þrisvar sinnum fleiri en við höfðum þorað að vona. Hver hópur hafði því um þrjá mismundandi viðtakendur að velja og mátti velja að skrifa þeim öllum eða tveimur eða jafnvel einum viðtakenda.

Svo hófst vinnan og þrátt fyrir stærð hópanna og ólík viðfangsefni, sem þau þekktu misvel til komu út úr þessari vinnu 13 hvatningabréf til hinna mismunandi aðila í samfélaginu. Sum bréfin voru almenn hvatningabréf og þakkir fyrir vel unnin störf til ákveðinna félaga eins og Rauða krossins og Skátahreyfingarinnar á Íslandi. Önnur bréf voru til ákveðinna ráðuneyta með hvatningu til að halda áfram að vinna að endurreisn samfélagsins, eins og til Forsætisráðuneytisins og Dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins. Enn önnur bréf voru til ráðandi eða áberandi einstaklinga í samfélaginu, eins og Davíðs Oddssonar, sem var hvattur til að birta bara jákvæðar fréttir á forsíðu Morgunblaðsins og Geirs H. Haarde sem fékk þakkir fyrir að standa sig vel í hruninu fyrir ári síðan og var óskað góðs bata og skipstjórans á Herjólfi, sem fékk þakkir fyrir að koma öllum til Eyja, fyrir að klappa þeim á kollinn og rétta þeim ælubox.

Öll bréfin voru full af jákvæðni og hvatningu.

Ungmennin sömdu bréfin sjálf og öll voru þau virkir þátttakendur, því áður en eiginleg bréfaskrif hófust átti hvert og eitt þeirra að skrifa sitt innlegg á litla miða sem voru síðan lagðir til grundvallar að bréfinu sjálfu. Öll vinnan, undirbúningurinn, hópastarfið og niðurstaðan sjálf, 11 bréf tilbúin til póstleggingar, kom okkur ekki skemmtilega á óvart. Það var holl áminning okkur sem störfum með þessu unga fólki að líta æskuna ekki smáum augum, að muna að þetta unga fólk hefur raunverulega eitthvað að segja, hefur skoðanir og með sínum jákvæðu og uppbyggilegu bréfum voru þau fyrirmyndir trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi.

Æskan telur.

Hægt er að lesa bréfin á vef ÆSKÞ.