Þrátt fyrir allt

Þrátt fyrir allt

Já, þrátt fyrir allt eru jólin komin og þau minna okkur stöðugt á það að „þrátt fyrir allt“ er kærleikur Guðs yfir okkur og hann lýsir okkur leiðina. Jólin eru einn fasti tilverunnar sem kemur hvernig sem aðstæðurnar eru og tala til okkar á sinn sérstaka hátt.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
25. desember 2008
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega hátíð kæru kirkjugestir.

„Það koma vonandi jól“ sungu Baggalútsmenn nú á aðventunni í jólalagi sínu sem var þó heldur niðurdrepandi söngur um hnípna þjóð sem „þráðbeint á höfuðið flaug“. En í viðlaginu mátti þó greina allmikla hughreystingu því þar kom fram von um að, þrátt fyrir allt, kæmu jólin. Já, svona var sungið fyrr í mánuðinum og við getum staðfest það glöð að einmitt, þrátt fyrir allt, hafa jólin gengið í garð. Já, líka þrátt fyrir það að jólasnjórinn sem lýsti upp skammdegið á aðventunni ásamt ljósunum í bænum skuli hafa bráðnað í slagviðrinu á þorláksmessu, rann aðfangadagur samt í garð. En nú er hann kominn á ný! Já, þrátt fyrir það allt þá komu jól. Jólin eru komin. Gleðileg jól.

Hnípin þjóð, hnípið fólk

Boðskap jólanna má orða með margvíslegum hætti og ég nokkuð viss um að enginn tími ársins kemst í hálfkvisti við jólin um alla þá auðlegð orða sem um þau hefur verið ritað, mælt og sungið í bundu og óbundnu máli. Margt má segja um jólin. Og þessi aðventusöngur rambar þar á rétta lýsingu, einmitt þetta: „Þrátt fyrir allt“. Jólin er tíminn sem minnir okkur á þessa staðreynd: Sum verðmæti í lífinu halda gildi sínu „þrátt fyrir allt“.

Jólaguðspjallið er óður til þessarar hugsunar: Hrakningarnar á ferðalagi, fæðing í fjárhúsi, hópur hirðingja sem hímir í nóttinni og ofsóknir. Allt þetta umkomuleysi er umgjörð jólanna. Þarna er greint frá hnípinni þjóð í ánauð erlends valds og hnípið fólk fær hvergi inni á heimilinum. Þrátt fyrir þær aðstæður urðu þessi stórkostlegu tíðindi.

Allt ljómaði í nóttinni og boðskapur jólanna var skýr: friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum. Já, sumt er það í tilverunni sem heldur sínu striki, hverfur hvorki né dofnar hvað sem á gengur. Þetta er boðskapur jólanna og ég held svei mér þá að fátt sé okkur hollara að leiða hugann að en einmitt þetta: Lífið á sér ákveðna fjársjóði sem standa óhaggaðir þótt allt skekist og skjálfi í kringum þá.

Útlitið dökkt

Stundum er það meira að segja svo að verðmæti þessi koma fyrst í ljós þegar svartnættið skellur á. Rétt eins og kertaljós sem logar á borði fær fyrst notið sín eftir rökkva fer og birtan dvín. „Já, nú er útlitið dökkt og ljósið er slökkt“ segir í sönglaginu. Sú hugsun á sér marga samsvörun í helgum textum jólanna.

Jólin eiga sér margar tjáningarmyndir og ýmsa túlkun. Guðspjallamennirnir Lúkas og Mattheus segja söguna af fæðingu frelsarans. Jóhannes er háfleygari og flytur okkur hugleiðingu sem hefst á þessum orðum: „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og orðið var Guð.“ Þarna setur hann sjálfa sköpunina í samhengi jólanna. Orðið er þar ekkert smáorð, þetta er sköpunarorðið sem segir frá í upphafi Biblíunnar þegar ljósið skein í myrkrinu og lögmálin tóku við af óreiðunni. Þetta er sjálft lógosið, skikkanin sem heldur saman öllum efnisheimi og vekur því meiri undrun og furðu þeim mun meir sem mannshugurinn fær skynjað þá takmarkalausu dýpt sem í því býr.

Ljósið skín í myrkrinu

Jóhannes talar líka um ljósið og myrkrið. Hann talar um það hvernig ljósið skín í myrkrinu en myrkrið tekur ekki á móti því. En sú staðreynd að umhverfið skuli hafa verið ónæmt, já fjandsamlegt hinu sanna ljósi breytir engu um þá staðreynd að ljósið skein áfram. Þetta var hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann í hverjum þeim aðstæðum sem hann kann að finna sig í. Kristið fólk hefur alla tíð búið að þessum fjársjóði. Það skynjar í hjarta sínu þann sannleika að Orðið, lögmálið sem stýrir gangi öllu því sem í umhverfi okkar er – getur líka mótað hjarta okkar og huga. Rétt eins og steinn fellur til jarðar óháð því hvað hverjum og einum kann að finnast eða sýnast í þeim efnum eru að sama skapi ákveðin gildi og sannindi í okkar eigin lífi sem standa óháð skoðunum og tísku.

Rödd í hjartanu

Já, við eigum í hjarta okkar rödd sem talar til okkar og minnir okkur á það að sannleikurinn er einn og óbifanlegur. Hún hljómar stundum veikt, ekki síst í öllum hávaðanum sem stundum er í kringum okkur – en hún er jafnsönn fyrir því. Þessa rödd köllum við samviskuna. Það að hlúa að samviskunni er eitthvert dýrmætasta hlutverk okkar og einn lykillinn að því að vera sönn og heil manneskja. Sagan geymir margan vitnisburð um einstaklinga sem hlýddu rödd sinnar samvisku. Þettar er oftar en ekki fólk sem hélt stafestu og sýndi hugrekki við erfiðustu aðstæður.

Þannig segir Páll postuli: „Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? […] Nei, í öllu þessu vinnum vér fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss. Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum“. (Rm 8.34-39).

Þetta er staðfestan og Páll postuli er einmitt dæmi um mann sem varð meðvitaður um samvisku sína og köllun og eins og gjarnan er með slíka einstaklinga þá mótaði hann umhverfi sitt – frekar en að vera stöðugt að bregðast við því sem hinar ytri aðstæður kröfðust. Nei, hann skynjaði kærleika Guðs og hvernig hann er öllu öðru yfirsterkari og hann uppgötvaði að í hjarta sínu átti hann lögmál, köllun um það að vinna stórkostlegt verk fyrir ríki Guðs hér á jörðu: „Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann, skein á jörðu“.

Ytri aðstæður eða innri sannfæring?

En eins og segir í textanum, á þetta ekki aðeins við um þrengingar og erfiðleika. Nei, Páll ræðir líka um tignir og annað það sem eftirsóknarvert er í þessu sambandi. Sá veruleiki talar til okkar þar sem við horfum í kringum okkur í furðu og spyrjum okkur að því hvers vegna þorstanum fékkst aldrei svalað. Hvers vegna héldu menn áfram að sækja út og safna að sér meiri og meiri auði sem þó var allur úr lofti og lofbólan sprakk – eins og segir í textanum.

Af hverju sprakk hún? Ástæðurnar eru margar: ytri skilyrði versnuðu, Bretarnir gengu af göflunum, lánalínur lokuðust – úff hvað við höfum heyrt þetta oft.

Takið eftir – þetta eru ytri ástæður. Við erum ekki annað en fórnarlömb og leiksoppar þessar ytri skilyrða. Og þegar vel gekk? Hið sama – fullt af ódýru fjármagni og ódýrum bönkum og fyrirtækjum. Það þarf sterk bein til þess að þola góða daga og beinin voru ekki alltaf sterk. Nú eru góðu dagarnir að baki og við vitum ekki hvenær ástandið batnar. En við ættum öll að velta því fyrir okkur í fullri einurð hversu þetta er ólík hugsun þeirri sem birtist okkur í orðum Páls og guðspjalli dagsins.

Það að fylgja kalli sinnar samvisku er mikil áskorun. Hún mætir okkur á stórum stundum lífsins en líka í öllum þeim litlu ákvörðunum sem mæta okkur

Þrátt fyrir allt

Samviskan, ljósið sem skín í myrkrinu, lýsir leiðina þrátt fyrir allt þetta. Já, „þrátt fyrir háðung og smán, myntkörfulán – þá koma vonandi jól“. Samviskan skilur á milli þeirra sem starfa, framkvæma og breyta og hinna sem eru aðeins fórnarlömb í ýmsum skilningi. Og nú þar sem myrkrið sækir á: „hnípin þjóð þráðbeint á höfuðið flaug“ sjáum við hvernig rödd samviskunnar skyndilega færa aukinn hljóm og við skynjum fjöldann allan að fólki úti í samfélaginu sem tekur málin í sínar hendur og miðlar kærleika og umhyggju þegar þess er mest þörf.

Félagasamtök safna fjármagni, kærleiksríkar konur opna kaffihús til styrktar velferðarsjóðnum. Fullt er út að dyrum á veitingastað hér á Hafnargötunni þar sem fjölskyldufólki er boðið til veislu á aðventunni, þetta er fólk sem að öðrum kosti hefði ekki getað boðið börnum sínum upp á slík veisluhöld. Og allir leystir út með gjöfum. Ljósið skein í myrkrinu.

Já, þrátt fyrir allt eru jólin komin og þau minna okkur stöðugt á það að „þrátt fyrir allt“ er kærleikur Guðs yfir okkur og hann lýsir okkur leiðina. Jólin eru einn fasti tilverunnar sem kemur hvernig sem aðstæðurnar eru og tala til okkar á sinn sérstaka hátt. Svo þegar jólin eru að baki stöndum við eftir, vonandi ríkari í hjarta og sinni, og betur í stakk búin til þess að taka á móti kærleika Krists og miðla honum áfram til umhverfis okkar.