Það sem augað sér

Það sem augað sér

Mér varð hugsað til þessarar kirkjugöngu okkar vinkvennanna þegar ég heimsótti kirkjur á sunnanverðum Vestfjörðum nýlega. Í þeirri fyrstu blasti við undurfögur mynd Þórarins B. Þorlákssonar af góða hirðinum, Kristi, í íslensku landslagi. Myndin hefur svo sterk áhrif að maður hefur vart augun af henni þegar inn er komið.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
04. júní 2008

Fyrir nokkrum árum var ég stödd í Kaupmannahöfn. Til fundar við mig kom æskuvinkona mín frá Ísafirði, sem nú býr í Svíþjóð. Á sunnudagsmorgni dreif ég hana með mér í messu, en hún sagðist sjaldan fara í kirkju í heimbæ sínum. Við leituðum að kirkju og upp úr húsaþyrpingunni sáum við turn með krossi á og lögðum leið okkar þangað. Þegar inn í kirkjuna kom sáum við stóra stytta af Kristi, samskonar og hafði verið í gömlu kirkjunni okkar á Ísafirði. Ég veitti styttunni enga sérstaka athygli, en vinkona mín tók strax eftir henni og hafði orð á því að hún væri eins og sú sem hefði verið í kirkjunni okkar heima. Þetta vakti mig til umhugsunar um að það skiptir máli hvað fyrir augu ber þegar við komum á staði. Það sem við heyrum í kirkjunni hefur áhrif, en líka það sem við sjáum. Þetta á ekki hvað síst við þegar við erum börn, því það sem börn alast upp við telja þau að eigi að vera þannig, a.m.k. þangað til annað kemur í ljós. Vinkona mín fékk heimatilfinningu og naut þess að horfa og njóta.

Mér varð hugsað til þessarar kirkjugöngu okkar vinkvennanna þegar ég heimsótti kirkjur á sunnanverðum Vestfjörðum nýlega. Í þeirri fyrstu blasti við undurfögur mynd Þórarins B. Þorlákssonar af góða hirðinum, Kristi, í íslensku landslagi. Myndin hefur svo sterk áhrif að maður hefur vart augun af henni þegar inn er komið. Það er sem tíminn stöðvist og streitan minnki við það eitt að horfa og njóta.

Nú þegar sumarið er komið leggja margir land undir fót og skoða það sem fyrir augu ber. Margir leggja leið sína í kirkjur landsins, enda geyma þær ekki aðeins sögu, heldur einnig dýrmætan menningararf þjóðar okkar. Í kirkjuna mína á Hóli í Bolungarvík, koma nokkur þúsund manns á sumri hverju, bæði Íslendingar sem útlendingar, en Hólskirkja er elsta hús bæjarins, verður 100 ára næstkomandi annan sunnudag í aðventu. Þar hafa kynslóðirnar komið saman á stundum gleði og sorgar, sungið Guði sínum lof og fengið styrk og andlega næringu.

Þessa dagana les ég margar gamlar vísitasíugjörðir biskupa og prófasta af kirkjum hér í Vestfjarðaprófatsdæmi. Þær bera þess merki að vera unnar af natni og nákvæmni. Þær eru góðar heimildir um kirkjurnar, gripi þeirra og byggingu. Ég hitti líka margt fólk sem gefur af tíma sínum til að viðhalda, fegra og bæta kirkjuhúsin og styðja við það góða starf sem unnið er í sóknunum. Eyðikirkjurnar eiga sér líka velunnara, sem eru óþreytandi við að bæta og laga, enda eru fjölmennustu messurnar á sumrin oft á tíðum messurnar í kirkjum hinna mannlausu byggða.

En kirkjurnar eru lítils virði ef Guðsorðið fær ekki að heyrast í þeim. Af því orði gefst andleg næring, styrkur, huggun, gleði og trú á lífið, sem Guð gaf.