Aðfangadagur jóla er í dag. Dagurinn sem yngsta kynslóðin hefur beðið eftir með eftirvæntingu. Dagur, sem einhverjir hafa kviðið. Aðstæður fólks eru misjafnar. Sumir tilheyra stórum fjölskyldum, samheldnum fjölskyldum, aðrir ekki. Einsemdin verður aldrei meiri en á þessum degi ef hún er til staðar á annað borð. Sorgin nístir sárar og söknuðurinn verður meiri en aðra daga, ef þannig stendur á. Þetta er dagur tilfinninga. Ef hægt er að kalla einhvern tíma heilagan þá er það kvöldið í kvöld. Hin helga nótt. Á tónleikum aðventunnar hefur sálmurinn um hana oft heyrst:
Ó helga nótt, þín stjarna blikar blíða, Þá barnið Jesús fæddist hér á jörð. Í dauða myrkrum daprar þjóðir stríða, uns Drottinn birtist sinni barna hjörð.
Ég spurði vinkonu mína hvort hún vildi koma með mér á stutta aðventutónleika og sagði henni að þar væri m.a. sunginn þessi sálmur. Hún treysti sér ekki til þess. Ég er búin að gráta nóg sagði hún. Þetta eru fyrstu jólin hennar eftir fráfall móður hennar. Þessi tími ársins, aðventan, þegar myrkrið er mest og tilfinningarnar brjótast fram hver af annarri, þá er stutt í tárin hjá þeim sem misst hafa, stutt í hláturinn hjá þeim sem gleðjast, stutt í væntumþykjuna hjá þeim sem hafa reynt hana.
Mitt í þessu myrkri og myrkrinu sem fylgir árstímanum erum við minnt á ljósið. Það lýsir ekki aðeins okkar innri manni heldur einnig umhverfi okkar. Jólaljósin skreyta og lýsa upp dimmasta tíma ársins. Jólaguðspjallið, sem Lúkas læknir skráði og er að finna í 2. kafla guðspjalls hans segir líka frá því þegar birtan lýsti upp dimma nóttina. „En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá“.
Fátækir hirðar, sem sátu yfir kindum, fengu fyrstir fréttirnar. Reynsla þeirra hefur verið lesin og leikin og fræðimenn hafa rannsakað þátt þeirra í jólasögunni og þýðingu þess að þeir voru valdir fyrstir til að heyra boðskapinn. Þeirra sem ekki voru hátt skrifaðir í samfélagi mannanna hefur verið minnst um aldir. Það hefur verið tekið eftir viðbrögðum þeirra, en þau eru í samræmi við það sem við þekkjum úr mannlegu eðli. „Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins sögðu hirðarnir sín á milli: „Förum beint til Betlehem að sjá það sem gerst hefur og Drottinn hefur kunngjört okkur.“ Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið sem lá í jötu. Þegar þeir sáu það skýrðu þeir frá því er þeim hafði verið sagt um barn þetta. Og allir sem heyrðu undruðust það er hirðarnir sögðu þeim. En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það. Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð en allt var það eins og þeim hafði verið sagt“.
Margir fara í aftansöng í kirkju sinni í kvöld og aðrir fara í jólaguðsþjónustur um hátíðirnar. Þar er fluttur fagnaðarboðskapurinn um fæðingu frelsarans. Jólaboðskapurinn vekur upp þá tilfinningu er hirðarnir höfðu, að fara og sjá og lofa Guð.
Boðskapur himinsins hafði náð eyrum hirðanna og þeirra mannlegu viðbröð voru að fara og sjá. Eins er það með okkur sem nú lifum. Reynslan mótar okkur og hvetur okkur til viðbragða. Reynsla okkar er ekki sýnileg öðrum en þeim er við segjum frá, en hún mótar og breytir. Við erum ekki söm á eftir. Og þannig hefur það verið með hirðana. Þeir lofuðu Guð segir í guðspjallinu.
Við komum saman á jólum og lofum Guð fyrir það að fá að heyra þennan himneska boðskap. Fyrir það að barnið hennar Maríu er líka okkar. Fyrir það að í jötunni er bæði Guð og maður. Jesús sem þekkir mannlegar tilfinningar og þrár. Jesús sem gerir heilt samband okkar við Guð. Guð sem er frelsari okkar, vinur og sálufélagi. Guð sem skilur okkur ekki eftir ein og yfirgefin heldur sendir okkur hjálparann, huggarann, andann heilaga. Við erum ekki eyland í þessum heimi. Við erum tengd öðru fólki á ýmsan hátt, en án tengingar við Guð er líf okkar sem í lausu lofti. Jólin minna okkur á það og þau minna okkur á að boðskapurinn sem engillinn flutti er okkur líka ætlaður: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“
Hirðarnir fóru og sáu barnið í jötunni. Það megum við líka gera. Við megum falla á kné og láta blessun barnsins í jötunni streyma til okkar. Þökkum og njótum.
Gleðilega hátíð.