Dagur tækifæranna

Dagur tækifæranna

Til hamingju með daginn. Þetta er gleðidagur. Dagurinn 19. júní hefur verið tileinkaður hátíðis- og baráttudegi kvenna. Það var 19. júní árið 1915 sem Kristján konungur X skrifaði undir frumvarp frá Alþingi þess efnis að íslenskar konur skyldu hafa kosningarétt til Alþingis.

Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við hann: Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú? Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.

Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana. Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?

En hún sagði: Enginn, herra.

Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.

Við skulum biðja.

Góði Guð, við þökkum þér fyrir þennan dag. Hjálpa þú okkur að líta á hvern dag sem dag tækifæranna. Gef okkur gleði, kraft og færni í störfum okkar. Ver nálægur okkur í því sem auðvelt er og í erfiðleikum öllum, nú og ávallt. Hjálpa okkur að ástunda hið góða og halda frið við alla menn. Í Jesú nafni. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Til hamingju með daginn. Þetta er gleðidagur. Dagurinn 19. júní hefur verið tileinkaður hátíðis- og baráttudegi kvenna. Það var 19. júní árið 1915 sem Kristján konungur X skrifaði undir frumvarp frá Alþingi þess efnis að íslenskar konur skyldu hafa kosningarétt til Alþingis. Reyndar var kosningarétturinn miðaður við 40 ára aldurslágmark. Þetta aldursákvæði var einsdæmi í heiminum. Þingmenn höfðu áhyggjur af því að konur yrðu of áhrifamiklar í næstu þingkosninum ef um þær giltu sömu reglur og karlmenn en karlmenn fengu kosningarétt við 25 ára aldur. Konur höfðu þegar haft kosningarétt í 25 ár til að kjósa í bæjarstjórnir og hreppsnefndir. Hér á landi hafa konur haldið þennan dag 19. júní í heiðri enda er það mikilvægt að komandi kynslóðir minnist þess að formæður þeirra lögðu á sig mikla vinnu og þrotlausa baráttu til þess að ná fram jafnrétti kynjanna. Því miður er baráttunni ekki lokið, við eigum enn eftir að ná raunverulegu jafnrétti. Launamisrétti tíðkast enn því að karlar fá hærri laun en konur fyrir sömu vinnu.

Engu að síður hefur margt áunnist í gegnum tíðina. Íslendingar eignuðust sinn fyrsta kvenforseta fyrir 25 árum. Frú Vigdís Finnbogadóttir var jafnframt fyrsta konan í heimi sem kjörin var í slíka stöðu í lýðræðislegri kosningu. Í vetur var í fyrsta sinni í sögu Háskóla Íslands kosin kona í embætti rektors. Ekki er mjög langt síðan konur höfðu ekki jafnan rétt til náms. Árið 1911 var frumvarp lagt fyrir Alþingi að konur skyldu fá jafnan rétt til náms í öllum skólum landsins, einnig til námstyrkja og embætta. Sama ár tók Háskóli Íslands til starfa og fyrsta konan sem lauk þar embættisprófi var Kristín Ólafsdóttir. Hún lauk prófi í læknisfræði árið 1917. Hins vegar liðu 28 ár þangað til fyrsta konan lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands en það var Geirþrúður Hildur Bernhöft. Enn liðu 29 ár frá því að fyrsta konan lauk embættisprófi í guðfræði þar til fyrsta konan var vígð til prestsembættis. Eins og við vitum var það sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir.

Þegar minnst er á kvennabaráttuna er ekki hægt annað en að nefna Bríeti Bjarnhéðinsdóttur á nafn. Hún var brautryðjandi kvenréttindabaráttunnar og jafnframt fyrsti formaður kvenréttindafélagsins. Menntun kvenna var Bríeti hjartans mál. Hún taldi að menntunin væri besta vopnið fyrir jöfnum rétti kynjanna. Bríet áleit að upplýst og menntuð kona léti síður kúga sig og skildi betur hvers virði frelsið væri. Hún var einnig fyrst kvenna til að halda opinberan fyrirlestur. Fyrirlesturinn fór fram í Góðtemplarahúsinu árið 1887 og kostaði aðgangur 50 aura. Fyrirlesturinn var auglýstur og vakti það mikla athygli í bænum að ung stúlka ætlaði að halda fyrirlestur, var það jafnvel haft í flimtingum. Bríet hafði spurnir af því að skólapiltur nokkur ætlaði svo sannarlega að mæta á fyrirlesturinn og borga 50 aura fyrir það eitt að fá að hlæja sig máttlausan. Bríet sagði frá því að hún hafi byrjað fyrirlesturinn á því að tala um vantrú karlmanna á konunni og gerði hún jafnframt gys að því. Haft er eftir Bríeti að umræddur skólapiltur hafi setið niðurlútur á fremsta bekk og aldrei hlegið. Væntanlega hafa orð hennar náð eyrum drengsins og vonandi fengið hann til þess að hugsa um stöðu kvenna á þessum tíma.

Í guðspjalli þessa sunnudags, Jóhannesarguðspjalli segir frá því að Farísearnir og fræðimennirnir komu með konu nokkra til Jesú sem þeir sögðu að hafi drýgt hór.

Við hnjótum strax um það að konan er ein ásökuð, hvergi er minnst einu orði á karlmanninn. Konan er niðurlægð og skikkuð til að standa ein í miðri mannþrönginni þar sem allra augu beinast að henni. Samkvæmt lögmáli Gyðinga mátti grýta slíkar konur. Þeir spyrja því Jesú: Hvað leggur þú til? Í guðspjöllunum er fræðimönnum og Faríseum yfirleitt lýst sem andstæðingum Jesú. Á tímum Jesú var öll Palestína beint eða óbeint undir stjórn Rómaveldis. Rómverjar einir gátu dæmt menn og konur til dauða, Gyðingar höfðu ekki rétt til þess. Þar af leiðandi í sögulegu samhengi voru fræðimennirnir og Farísearnir að leggja fyrir Jesú gildru til þess eins að geta ákært hann. Jesús kom þeim svo sannarlega á óvart þegar hann sagði: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana. Það er augljóst að þeir voru óviðbúnir svari Jesú. Við getum gert okkur í hugarlund að lýðurinn hafi gengið sneyptur í burtu. Farísearnir og fræðimennirnir voru álitnir góðir þegnar samfélagsins, dæmigerðir góðborgarar. En þeir voru með stein í hjarta. Jesús talaði oft um að Farísearnir væru hræsnarar. Ég held að sagan geti snert okkur öll. Við getum öll litið í eigin barm. Oft er það þannig að við sjáum ekki bjálka í eigin auga en reynum að draga flís úr auga náungans. Guðspjöllin lýsa Jesú sem víðsýnum manni og lausan við fordóma. Mannkostir sem við öll ættum að reyna að tileinka okkur.

Í guðspjöllunum kemur fram að konur gegndu mikilvægu hlutverki í lífi og starfi Jesú.

Þær voru í hópi nánustu vina hans. Einnig gegndu þær mikilvægu hlutverki innan frumkirkjunnar. Þar gegndu þær leiðtogahlutverki, bæði sem postular og spámenn. Við skulum heldur ekki gleyma því að það var einmitt kona sem var fyrst vitni að upprisu Jesú. Grundvöllur kristinnar trúar er að Jesús reis upp frá dauðum sem Guð og maður. Jesús snerist öndverður gegn mörgum rótgrónum viðhorfum. Hann boðaði líka mörg róttæk viðhorf. Jesús kom með nýja túlkun á lögmálinu. Hann boðaði kærleikssiðfræði í stað lögmálssiðfræði. Jesús setti kærleikann í öndvegi og sagði: Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður það skulið þér og þeim gjöra.

Það er jafnvel hægt að halda því fram að Jesús hafi verið fyrsti kvenréttindasinninn sem sögur fara af vegna þess að á tímum Jesú voru hugmyndir samfélagsins þær að konur væru lægra settar en karlar. Ef við horfum til fyrstu aldarinnar þegar Jesús lifði og starfaði var mikill munur annars vegar á afstöðu Jesú til kvenna og hins vegar afstöðu samfélagsins til kvenna. Sagan af samversku konunni er ágætt dæmi. Sagan er ein af mörgum sögum í Biblíunni sem segir frá konu en konan er ekki nafngreind. Samverjar voru ekki hátt skrifaðir í samfélagi Gyðinga. Enginn Gyðingur mátti virða samverskan karlmann viðlits hvað þá konu. Sagan af samversku konunni segir frá því að Jesús ávarpar samversku konuna að fyrrabragði og það sem meira er hann biður hana að hjálpa sér. Ég veit að í okkar augum í dag eru þetta smámunir en á fyrstu öldinni var þetta bylting. Í lærisveinahópi Jesú voru konur en í gyðingatrú voru konur ekki taldar með söfnuðinum. Í guðspjöllunum kemur það fram að afstaða Jesú til kvenna gengur þvert á viðteknar hugmyndir um konur og það sýnir hann bæði með orðum sínum og athöfnum.

Í tilefni að þessum degi fór ég sérstaklega að rifja upp baráttu kvenna til jafnréttis. Reyndar hef ég gaman af því að lesa ævisögur og þá sérstaklega ævisögur sem fjalla um konur. Mig langar að minnast á það að það voru konur sem hófu að safna fyrir byggingu Landspítalans. Og það er fyrir þeirra framtak að spítalinn var byggður. Það hefur hins vegar aldrei farið hátt. Jafnvel þótt konur væru ekki í neinum valdastöðum á þessum tíma er ljóst að þær voru jarðýtur á bak við tjöldin, hljóðlegir örlagavaldar.

Við lestur bókarinnar Úr ævi og starfi íslenskra kvenna kom mér skemmtilega á óvart að það var kona, Ásta Árnadóttir að nafni, sem var fyrsti íslenski málarameistarinn. Þegar Ásta lauk sínu námi hafði enginn íslenskur karlmaður fengið meistararéttindi í málaraiðn. Ásta lærði húsamálun á Íslandi en fór í framhaldsnám til Þýskalands og var sem sagt fyrst bæði kvenna og karla að taka meistaranám í þeirri iðn. Þegar Ásta fékk meistararéttindin kom frétt um það í mörgum þýskum blöðum og einnig í tímaritum að Ásta hafi lokið meistaranámi í málaraiðn. Á einum stað var sérstaklega tekið fram að hún ynni á málarastofu í Hamborg og það sem þótti fréttnæmt var að hún fengi sama kaup og karlmaður! Til er skemmtileg saga af ungum dreng sem var spurður að því hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór? Stráksi brosti blítt og svarði stoltur að bragði: Ég ætla að verða Ásta málari. Ungi drengurinn vílaði ekki fyrir sér að fyrirmynd hans væri kvenmaður.

Á sjöunda áratugnum vaknaði umræðan um það hvort ekki væri rétt að kenna stúlkum smíði og drengjum að sauma. Skólastjóri nokkur hér í borg hafði áhyggjur af því að smám saman yrði enginn munur á kynjunum. Áhyggjur skólastjórans komu fram á fundi nokkrum þar sem lögð var fram krafa frá nokkrum kvenkyns kennurum þess efnis að stúlkur myndu fá kennslu í smíði og drengir í handavinnu. Kennari, sem einnig var barnshafandi, blómleg og falleg, gekk ákveðin í áttina að ræðupúltinu. Hún staðnæmdist við hlið ræðustólsins, lagði síðan aðra höndina rólega á púltið. Konan var langt gengin þannig að maginn náði að skaga vel fram. Þessi blómlega kona brosti framan í kollega sína og sagði hátt og snjallt: Eins og fundarmenn gætu séð væri hún augljóst dæmi þess að kynin yrðu aldrei eins!

Við getum tekið undir þessi orð, við erum ekki eins og viljum ekki vera eins en við viljum hafa sama rétt.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Svanhildur Blöndal er guðfræðingur. Sunnudagurinn 19. júní 2005, kvenréttindadagurinn. Prédikun flutt í Þingvallakirkju. Guðspjall dagsins Jh. 8.2-11.