Skorinn á háls

Skorinn á háls

En í hvaða hópi er ég þar? Er ég meðal þess fólks sem gerir flóttamönnum eitthvað gott? Eða er ég meðal illvirkjanna sem skera á háls? Það er næstum verra að vera í þriðja flokknum, þeim er stendur á sama um allt og alla og gera aldrei neitt. Þriðji hópurinn er fólk regluverksins, afsakananna, og syndaranna sem með aðgerðarleysi sínu er sama um lífið!


Einhver eftirminnilegasti maður sem ég hef hitt á lífsleiðinni var afganskur bóndi, flóttamaður í Noregi. Þá var ég prestur í norsku kirkjunni. Staða okkar var að öllu leyti ólík. Ég innflytjandi til gamla landsins okkar, - Noregs. Hann var þar flóttamaður með konu og tvö börn án alls. Framtíðin óviss, ekki landvistarleyfi og engin atvinna. Ég flaug með fjölskylduna til nýja landsins þar sem mín beið vinna og húsnæði. Við bjuggum við öryggi og velsæld en það gerði hann ekki og börn hans ekki heldur  eða eiginkona. Munur okkar var að ég fæddist á öðrum stað á jörðinni en hann. Ég mátti vera í landinu en hann kannski ekki.

Hann hafði farið um langan veg, mest fótgangandi að næturlagi því ekki var öruggt að ferðast á daginn.  Aðstæður í hans heimalandi voru svo óbærilegar að hann sá engan kost annan en að flýja þaðan allslaus. Það var ólýsanlega hættuleg ferð yfir fjöll og hæðir, skóga og sanda, lönd og álfur. Frá Afganistan, gegnum Íran, Tyrkland, Grikkland og yfir til Ítalíu og einhvern veginn þaðan var hann kominn til Noregs. Hann hafði kynnst mörgu á leiðinni. Kannski því besta í fari fólks. Hlýju þeirra sem skjóta skjólshúsi yfir flóttafólk. Góðu fólki sem gaf öðrum með sér af eigin gæðum jafnvel þó þau væru lítil. Sumir eru nefnilega þannig að þeim tekst að gefa svo mikið af svo litlu.

Hann hafði líka kynnst því versta í mannlegu eðli. Ofbeldi, svikum, hatri og fordómum. Hann vissi að til er vont fólk sem engum vill gera gott. Í einhverju þorpi í Tyrklandi var ráðist á hann og þar var hann skorinn á háls. Hann var með áberandi ör sem sannaði tilvist illvirkja. Fyrir eitthvert kraftaverk lifði hann þá atlögu af.

Fyrst þegar ég leit á þennan mann þá tók ég eftir þessu mikla öri. Þessum vitnisburði um illsku, fordóma og hatur. Þegar ég leit aftur á manninn sá ég ekki örið lengur. Það voru augu þessa manns sem ég tók mest eftir. Þetta voru augu spekings sem hafa séð heiminn eins og hann er, hafa séð manneskjur gera bæði gott og vont. Það var einkennileg gæska og mildi í þessum augum. Það átti reyndar við um andlit mannsins allt. Það var einhver stóísk ró yfir honum. Ró þess sem óttast ekkert og engan lengur. Það var búið að gera við hann allt sem hægt var að gera einum manni, einni fjölskyldu.  Hann hataði engan, vildi engum vont. Hans eina þrá var að fá að setjast einhvers staðar að og fá að yrkja jörðina, eiga nokkur dýr, verða  aftur bóndi. Í þessum manni bjó kærleikur. Alveg óendanlega dýrmætur kærleikur fyrir það samfélag sem hefði tekið á móti honum.   

Oft hugsa ég til þessa manns. Ég man enn þá andlit hans. Man gæskuna sem frá honum stafaði. Örlög hans þekki ég ekki. Vonandi fékk hann að vera með ástinni sinni og litlu börnunum í Noregi.  Ég er snúinn heim í land minna forfeðra og mæðra, heim í öryggi Íslands.  En í hvaða hópi er ég þar?  Er ég meðal þess fólks sem gerir flóttamönnum eitthvað gott? Eða er ég meðal illvirkjanna sem skera á háls? Það er næstum verra að vera í þriðja flokknum, þeim er stendur á sama um allt og alla og gera aldrei neitt. Þriðji  hópurinn er fólk regluverksins, afsakananna, og syndaranna sem með aðgerðarleysi sínu er sama um lífið!