Nú er runninn upp merkilegur tími á árinu. Jólin eru að baki og sú táknræna athöfn að taka niður jólatré og jólaskraut er til marks um það að hversdagurinn hefur tekið við af hátíðinni. Það sem fyrir fáum vikum jók litadýrðina í kringum okkur og gerði hinu óhefðbundna hátt undir höfði, er nú eins og hver annar óþarfi. Við biðum eftir því á mínu heimili milli vonar og óvonar hvort bæjaryfirvöld myndu nú ekki örugglega mæta á staðinn til þess að taka nakið grenitréð sem við höfðum komið fyrir lóðamörkunum. Sem betur fer varð sú raunin og nú er hið fyrrverandi stofuskraut komið í einhvern gáminn þar sem það öðlast vonandi framhaldslíf sem jarðvegur fyrir annan gróður jarðar.
Endurnýjun
Þessi endurnýjun á ekki síður stað í lífi okkar mannanna. Vart opnum við dagblað, hlýðum á ljósvakamiðla eða rennum okkur eftir yfirborði samskiptamiðlanna án þess að við lesum um þennan eða hinn sem er að ná sér. Já einmitt, janúar er tíminn þar sem fólk nær sér. Það nær sér eftir sykur og salt jólanna, eftir vökunætur og morgunsyfju, eftir kaupgleði og pakkafjöld og veisluhöld og allt það sem einkennir þessa mögnuðu tíma sem jólin eru. Hátíðsdagarnir eru einmitt svo dásamlegir fyrir það hversu óvenjulegir þeir eru og standa ekki lengur en raun ber vitni. Það þyrfti sannarlega sterk bein og taugar til þess að þola slíkt líferni í langan tíma. Nú lesum við um endurheimt hins hversdagslega og auðvitað líka, um einkaþjálfun, lágkolvetniskúra og engiferdrykki.
Þetta hljómar allt í kringum okkur, allir eru að ná sér. Ég veit ekki hvort það á sér hliðstæðu á öðrum tungum en fátt nýtur meiri skilnings og viðurkenningar í okkar samfélagi þessa dagana. Hvað merkir þetta nákvæmlega, að ná sér? Hvert er þetta ákjósanlega „ég“ sem við ætlum okkur að ná í skottið á?
Tekur alla ævina
Skáldin hafa gefið þessu gaum. Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur telur að í þeirri viðleitni að ná sér sé fólgið hvorki meira né minna en sjálft viðfangsefni mannsins frá vöggu til grafar. Allt lífið erum við í þeim eltingarleik við okkur sjálf:
Lífið gengur einmitt út á það að ná sér. Að ná sér eftir nætursvefn, það tekur hálfan daginn. Að ná sér eftir kríu er verkefni fram á kvöld. Að ná sér eftir fæðinguna, upphafsöskrið, í það fer heil mannsævi.
Það er einmitt þetta kapphlaup við okkur sjálf sem lífið snýst um og þó náum við okkur aldrei því hvert viðfangsefni raskar þessu jafnvægi, að borða, byggja, vinna, elskast, leika og í kjölfarið þurfum við ... einmitt það að ná okkur. Manneskjan kemst ekki yfir þetta allt og loks er ævin okkar að baki þar sem við náum okkur í raun aldrei.
Að finna sig
Þessu skyldur er frasinn að finna sig, gjarnan hafður um fólk á tímamótum sem lokið hefur einum áfanga og stefnir á nýjan. Hann er bara ekki búinn að finna sig heyrist ef illa gengur að stíga næstu skref i kapphlaupinu um stöður og lífsgæði.
Líklega þarf maður fyrst að finna sig áður en maður á möguleika á því að ná sér. Er það ekki nokkuð ljóst? Og er hinn endalausi eltingarleikur okkar við okkur sjálf ef til vill til marks um það að við erum að reyna að ná því sem við höfum ekki þegar fundið?
Fannst í musterinu
Í helgidómnum mitt í á þeim tíma þegar allir eru að reyna ná sér heyrum við guðspjallið um það þegar þau Jósef og María voru í enn ofsafyllri leit. Þau höfðu týnt unglingnum Jesú sem varð viðskila við þau mannmergðinni í sjálfri Jerúsalemborg. Allir foreldrar þekkja tilfinningu angistar sem fylgir því að finna ekki afkvæmi sitt. Hún blundar í okkur öllum, hvort sem við höfum af henni raunverulega reynslu eða ekki. Hún veldur því jafnvel að við sleppum seint taki af börnunum okkar.
Þetta er einhver þessara helgisagna sem við eigum í Biblíunni, sjálfstæð saga sem á sér upphaf og endi. Ekki er til hennar vitnað síðar en hún er eins og upptaktur að því sem koma skal. Þetta er eina bernskufrásögnin af Jesú að jólaguðspjallinu frátöldu. Eins og við vitum þá birtist hann okkur fullorðinn maður á síðum ritningarinnar þar sem hann boðar og líknar og læknar.
Þessu æskusaga fjallar um það þegar Jesús finnst ekki og það tók engan smá tíma að finna hann. Heill dagur leið áður en þau áttuðu sig á því að hann var horfinn og svo fundu þau hann ekki fyrr en á þriðja degi. Og þar er ef til vill tilvísun í annan merkan atburð sem varð tveimur áratugum síðar. Við skynjum það að eitthvað er óljóst og hulið með guðssoninn. Við fáum ekkert upp í hendurnar. Við þurfum að finna hann, við þurfum að ná honum. Hann fetaði aðra leið en við hefðum getað ímyndað okkur. Krossfestingin þótti vera hinn fullkomni ósigur þar til hann birtist lærisveinum sínum og gaf okkur um leið hlutdeild í sjálfri eilífðinni.
Þarna líða einmitt þrír dagar áður en þau finna hann og ná honum. Leið þeirra lá inn í sjálft musterið í hinni helgu borg, Jerúsalem. Þar sat hann með þeim lærðu og rökræddi við þá um ritninguna og tilgang lífsins. „Mér ber að vera í húsi föður míns“ segir ungmennið og yfir orðum þess er eitthvert æðruleysi þótt við getum nú ímyndað okkur að það hafi tekið Maríu og Jósef tíma að ná sér eftir að hafa hlaupið um göturnar í Jerúsalem í ofsafenginni leit sinni.
Sá sem sagði þessi orð hafði þegar fundið sinn stað í tilverunni enda var Jesú ætlað mikið hlutverk í sögu mannsins. Já, fer vel á því í upphafi árs að hugleiða að við miðum tímatal okkar við fæðingu hans og lýsir það vel þeim miklu áhrifum sem hann hafði.
Ævilangur eltingarleikur?
Hann var ekki eingöngu sá er leiddi brautina fyrir okkur með sigri sínum á dauðanum. Jesús var ekki síður fordæmi fyrir okkur sem viljum lifa innihaldsríku lífi. Sagan af því þegar þau Jósef og María náðu í skottið á Jesú er saga okkar sjálfra. Skáldið Steinunn leikur sér með þennan ævilanga eltingaleik mannsins við sjálfan sig. Okkur endist ekki ævin til arna, þegar hún er að baki höfum við ekki enn náð því sem við ætluðum.
Að baki býr einhver hugmynd um hið æskilega ástand, þessa stöðu sem við sjáum fyrir okkur að sé ákjósanleg og eðlileg. En hana finnum við ekki í kúrunum, ekki á hlaupabrettinu, hvorki í óhófi hátíðar né rútínu hversdagsins. Hana finnum við á þeim stað þar sem ungmennið Jesús hafðist við. Í húsi föðurins, bíður okkar góður staður sem okkur er búinn. Þar finnum við frið og sátt og hið rétta jafnvægi. Í helgidómnum skynjum við tengslin við skapara okkar og þar finnum við hversu ríkulegan tilgang við höfum í þessu lífi okkar, tilgang sem er ákvarðaður af Guði og birtist okkur í Jesú Kristi frelsara okkar.