Hvar liggja rætur ofsatrúar?

Hvar liggja rætur ofsatrúar?

Þá er vantrúarþingið að baki og hefur það fengið allnokkra umfjöllun í sjónvarpi og víðar. Vissulega eru það stórtíðindi að fá hingað þetta einvalalið guðleysingja með sjálfan Richard Dawkins í broddi fylkingar en þættirnir sem hann gerði um trúarbrögðin hafa vakið mikla athygli.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
28. júní 2006

Þá er vantrúarþingið að baki og hefur það fengið allnokkra umfjöllun í sjónvarpi og víðar. Vissulega eru það stórtíðindi að fá hingað þetta einvalalið guðleysingja með sjálfan Richard Dawkins í broddi fylkingar en þættirnir sem hann gerði um trúarbrögðin hafa vakið mikla athygli auk þess sem hann hefur ritað nokkrar bækur þar sem hann fer hörðum orðum um trú og trúariðkun.

Gagnrýni á ofsatrú

Ljóst má vera að allur þungi gagnrýni hans fer í ofsatrúarhópa vestan hafs og í Mið-Austurlöndum. Þeir sem séð hafa þættina hafa vafalítið fyllst óhug við að hlýða á marga viðmælendur hans sem eru mjög öfgafullir. Dawkins undanskilur þó ekki hófsamari söfnuði í árásum sínum. Hann segir þá bera ábyrgð á ofstækinu því þeir kenni að rétt sé og göfugt að aðhyllast skoðanir sem ekki byggi á fullnægjandi forsendum. Upp úr þeim jarðvegi spretti svo öfgarnar. Þetta er áhugaverð afstaða og er full ástæða fyrir íslensku þjóðkirkjuna að leiða hugann að henni.

Trúaruppeldi barna

Dawkins fer hörðum orðum um trúarlega innrætingu barna. Í viðtali við Mbl. laugardaginn 24/6 líkir hann því við andlega misnotkun og talar um í því sambandi að börnin séu dregin í dilka þegar í æsku og einangruð frá samfélaginu. Hann segir slíkt uppeldi stuðla "að óvild á milli samfélaga" og búi til "gífurlega flokkadrætti". Í téðum þáttum mátti gjörla sjá hvað hann átti við. Hann sýndi svipmyndir frá Jerúsalem þar sem börnin gengu innan um vopnin og víggirðingarnar auðkennd í klæðaburði og undir ströngu eftirliti fullorðinna einstaklinga í hópi viðkomandi trúarhreyfinga. Þá voru ógeðfelldar myndirnar sem sýndar voru úr s.n. Vítishúsum (Hell houses) þar sem börnum var hótað með vítiseldi ef þau ekki hegðuðu sér samkvæmt öllum kennisetningum.

Kirkjunnar fólki er skylt að leiða hugann að því hvort barnastarfið í söfnuðunum geti raunverulega leitt fólk inn á þessar brautir eins og Dawkins heldur fram.

Hófsöm trú og ofsatrú

Ef grannt er skoðað benda öll rök til þess að ef eitthvað samband sé þarna á milli þá sé það neikvætt. Allt bendir til þess að, öndvert við skoðanir Dawkins, leiði hófsöm trúariðkun og uppbyggilegt trúarlegt uppeldi síður til þess að fólk leiðist út í slíkar öfgar.

Rétt er að visa aftur til viðtalsins við hann í Mbl. Um þróunina í heiminum segir hann: "Evrópa er á réttri leið að mínu mati en það sama verður ekki sagt um Bandaríkin og Mið-Austurlönd þar sem trúarofstæki fer vaxandi."

Af hverju er Evrópa "á réttri leið"? Vísast eru margar skýringar á því en Dawkins hefði í þessu sambandi mátt líta sér nær þar sem hann var staddur hér í landi þar sem 90% íbúanna tilheyra þjóðkirkjunni eða fríkirkjum sem byggja á sama grunni. Hér blasir við sá veruleiki að hófsamar kirkjur eins og þjóðkirkjan virðast miklu fremur vera mótvægi við þær öfgafullu. Hér nær hlutfall íbúa í þessum "öfgafullu" söfnuðum vart einu prósenti. Og mér kæmi það satt að segja í opna skjöldu ef finna mætti nokkra hliðstæðu hérlendis við þann þá mynd sem hann dró upp í þáttum sínum.

Þjóðkirkjan er mótvægi við öfgarnar

Ástæða þessa er ekki sú að kirkjan hér sé leiðinleg eins og hann segir sjálfur. Þá hefði stór hluti leitað á önnur mið. Nei, skýringin er miklu frekar sú að þjóðkirkjan veitir raunverulegt mótvægi við það ofstæki sem þekkist víða í þeim löndum þar sem engin slík hefð er við lýði - einkum í Bandaríkjunum.

Ef orð hans um það að hófsöm og frjálslynd kirkja skapi ákjósanlegan jarðveg fyrir ofstæki og ofsatrú væru sönn væri ástand mála á Íslandi og víðar á Norðurlöndum með allt öðrum hætti en raun ber vitni. Hér hefur kirkjan stundað árangursríkt barnastarf og fjölbreytta starfsemi bæði á sviði fræðslu og helgihalds. Samkvæmt kenningum Dawkins ættu því að vera hér, þvert á alla raun, fjölmennir og háværir söfnuðir og hópar ofsatrúarmanna.  Við það er að bæta að samkvæmt könnunum eru Íslendingar jákvæðir í garð vísinda og hér hafnar vart nokkur maður þróunarkenningunni ólíkt því sem er í Bandaríkjunum í því opinbera trúleysi sem þar er staðfest í stjórnarskránni.

Þetta ætti að vera Richard Dawkins og öðrum áhugamönnum um raunvísindi fagnaðarefni og vísbending um það hvernig trú og samfélag geta átt samleið til farsældar eins og raunin virðist vera hérlendis og víðar.