Það er flókið að eiga peninga

Það er flókið að eiga peninga

Þetta er ekkert flókið. Allt frá dögum Móse hefur það verið skylda okkar að sjá um þau sem eru fátæk á meðal okkar. Og allt sem Jesús segir og gerir staðfestir þessa skyldu. Ekki af því að það er rangt í sjálfu sér að eiga peninga eða eignir. Ef við erum svo lánsöm að líða ekki skort á því sviði eigum við að njóta þess. En ef eignir okkar svipta okkur kærleikanum til náungans, ef eignir okkar gera okkur skeytingarlaus um fátækt annarra, jafnvel svo skeytingarlaus að við felum peningana okkar, þá er græðgin búin að blinda okkur sýn.

Það er flókið að eiga peninga á Íslandi. Þetta sagði ákveðinn maður fyrir nokkruog við munum öll eftir því. Við höfum fylgst með því í forundran hvernig það hefur komið í ljós það sem reyndar marga grunaði, að hópur Íslendinga hefur sankað að sér ógrynni fjár og geymir utan seilingar, á bankareikningum erlendis, þar sem þeir nýtast aðeins þeim og þeirra nánustu. Þetta eru svo miklir peningar að enginn getur aflað slíkra upphæða með launaðri vinnu, jafnvel ekki á mörgum mannsævum. Ég held að við séum öll sammála um að þetta er ekki í lagi. Er virkilega svo flókið að eiga peninga á Íslandi að fólk þarf að koma þeim úr landi?

Jesús segir dæmisögu um tvo menn. Takið eftir því að ríki maðurinn er nafnlaus. Fátæki maðurinn heitir Lazarus, og vitiði hvað? Hann er eina sögupersónan í dæmisögum Jesú sem er nafngreind! Jesú var það mikið í mun að við sæjum hinn fátæka, kaunum hlaðna mann sem raunverulega persónu, en ekki bara sem einhverja stereotýpu, að hann gaf honum nafn. Aðstæður þessara manna voru gerólíkar í lifanda lífi. Ríki maðurinn lifði í vellystingum, á meðan sá fátæki var hungraður, veikur og afskiptur þótt hann lægi fyrir dyrum ríka mannsins. Já, því það var ekkert þannig að ríki maðurinn vissi ekki af hinum fátæka. Þessi fátæki maður var ekki einhver óþekktur maður úti í bæ, einhver sem lokaði sig af og faldi fátækt sína af því að hann skammaðist sín fyrir hana. Og hann var ekki heldur einhver óþekkt manneskja í fjarlægu landi, sem ríki maðurinn vissi ekki af. Nei, fátæki maðurinn lá á dyraþrepinu hjá honum. Ríki maðurinn þurfti bókstaflega að klofa yfir hann þegar hann gekk út af heimili sínu. Og hann gaf honum ekki einu sinni mola af borðum sínum. Jesús snýr öllu á hvolf. Ekki bara í þessari dæmisögu, heldur svo oft, hinir síðustu verða fyrstir, hinir syndugu eru réttlættir, en þeir sem njóta virðingar í samfélaginu fá ákúrur. Og það er ekki eins og hann hafi tekið þessar áherslur úr lausu lofti. Jesús var að gagnrýna það að þeir sem höfðu komið sér vel fyrir í samfélaginu höfðu fjarlægst ævagamlar hefðir, ævagömul gildi sem höfðu lifað með þjóðinni um aldir. Við heyrðum einmitt lesið úr 5. Mósebók, lögmálinu sem innihélt inntakið í trú gyðinga, mjög afdráttarlaus fyrirmæli um hvernig átti að koma fram við fátæka.

Ef einhver bræðra þinna er fátækur í einni af borgum þínum í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér skaltu ekki loka hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum með harðýðgi heldur skalt þú ljúka upp hendi þinni fyrir honum. Þú skalt lána honum það sem hann skortir. Þú skalt gefa honum fúslega en ekki með ólund því að fyrir það mun Drottinn, Guð þinn, blessa öll þín verk og hvað sem þú tekur þér fyrir hendur. Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu og þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.

Þetta er ekkert flókið. Allt frá dögum Móse hefur það verið skylda okkar að sjá um þau sem eru fátæk á meðal okkar. Og allt sem Jesús segir og gerir staðfestir þessa skyldu. Ekki af því að það er rangt í sjálfu sér að eiga peninga eða eignir. Ef við erum svo lánsöm að líða ekki skort á því sviði eigum við að njóta þess. En ef eignir okkar svipta okkur kærleikanum til náungans, ef eignir okkar gera okkur skeytingarlaus um fátækt annarra, jafnvel svo skeytingarlaus að við felum peningana okkar, þá er græðgin búin að blinda okkur sýn, þá eigum við ekki lengur þá tengingu við Guð og menn sem við þurfum miklu frekar á að halda heldur en efnahagslegt öryggi. Þá erum við komin á vondan stað.

Við munum alltaf hafa hin fátæku á meðal okkar. Mannlegt samfélag er þannig að fólk er misvel fært um að leggja af mörkum, og mis lánsamt í lífinu. Gæfa okkar er sjaldnast okkur sjálfum að þakka, þótt til sé fólk sem hefur brotist til auðlegðar og áhrifa í samfélaginu af eigin krafti. Samfélagið okkar á samt að vera þannig að enginn sé í aðstöðu til að sanka að sér óheyrilega miklu magni af lífsins gæðum á kostnað annarra. Samfélagið okkar á að vera þannig að allar manneskjur geti lifað mannsæmandi lífi, enginn á að þurfa að liggja á dyraþrepinu hjá nágrannanum í von um ölmusu. Og enginn á að komast upp með það að klofast yfir hin fátæku í skeytingarleysi og eigingirni.

Það má vel vera að það geti verið flókið að eiga peninga. En ég held að við getum öll verið sammála um að það er miklu flóknara að eiga ekki peninga. Og þar liggur ábyrgð okkar!

Dýrð sé Guði, sem gerir til okkar siðferðilegar kröfur.