Kjörin í landinu og friðarboðskapurinn

Kjörin í landinu og friðarboðskapurinn

Meðan fólk sveltur í okkar samfélagi og er á götunni þurfum við að laga þau kerfi sem eiga að tryggja öllum mannsæmandi líf.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
13. desember 2015

Kjör almennings og afkoma eru umræðuefni sem hafa verið til umfjöllunar undanfarið eins og oft áður.  Í því sambandi eru tvö atriði sem ég vil orða hér.   Hið fyrra er að allir verða að njóta grunnframfærslu, án hennar er brotið á mannréttindum fólks.   Hið síðara er að taka verður tillit til menntunar fólks og þess sem starfið gefur samfélaginu, þegar launakjör eru ákvörðuð.

Meðan fólk sveltur í okkar samfélagi og er á götunni þurfum við að laga þau kerfi sem eiga að tryggja öllum mannsæmandi líf.

Í kjölfar kjarasamninga sem gerðir hafa verið, úrskurða Gerðardóms og Kjararáðs, eru tveir samfélagshópar efst í mínum huga, aldraðir og öryrkjar. Það er óásættanlegt að þau sem hafa byggt upp það samfélag sem við búum í og þau sem ekki eiga þess kost að afla tekna vegna heilsubrests eða fötlunar þurfi að hafa áhyggjur af lífsafkomu sinni.  Við verðum sem samfélag að standa okkur betur í því að tryggja öllum þegnum þessa lands mannsæmandi lífskjör.  Ríki og sveitarfélög verða að axla sína ábyrgð í þeim efnum og mega ekki varpa ábyrgðinni á hjálparsamtök.

Ef óréttlæti ríkir í samfélaginu þá ríkir ekki friður, þá er ófriður. Jólin framundan boða frið. Frið á jörðu, frið í samfélag okkar, frið í líf okkar hvers og eins. Friður og réttlæti eru systkin, til að friður ríki þá þarf réttlætið að ná fram að ganga.

Bænarorð Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar í Sálmum 2013 tala til mín í þessu sambandi:

Allt sem Guð hefur gefið mér,

gróður jarðar, sólarsýn,

heiðan og víðan himininn,

af hjarta ég þakka og bið:

Lifandi Guð, lifandi Guð, láttu mig finna þig.

Allt sem Guð hefur að mér rétt

Á sinn tíma, ræður för.

Stríðandi öflin steðja að

Og stundum ég efast og bið:

Lifandi Guð, lifandi Guð, láttu mig finna þig.

Allt sem Guð hefur á mig lagt

Er mér ljúft að glíma við,

Taka í sátt og tefla djarft

Og treysta um leið og ég bið:

Lifandi Guð, lifandi Guð, láttu mig finna þig.

Hver manneskja er dýrmæt sköpun Guðs, engin manneskja er annarri æðri þótt hlutverk okkar séu ólík í samfélaginu. Hugum að þessu, ekki bara núna á aðventu heldur alla daga ársins og sameinumst í því að gera betur.

Pistill fyrst birtur í Morgunblaðinu laugardaginn 12. desember 2015.