Komdu með og sjáðu!

Komdu með og sjáðu!

Frá kirkjunni á Þingvöllum berast kunnuglegir tónar. Drengurinn gægist á glugga, það er þéttsetinn bekkurinn, presturinn fyrir altari. Messan er senn á enda. “Mamma,” er kallað, “presturinn er að blessa.”
fullname - andlitsmynd Bryndís Malla Elídóttir
30. júní 2009

Frá kirkjunni á Þingvöllum berast kunnuglegir tónar. Drengurinn gægist á glugga, það er þéttsetinn bekkurinn, presturinn fyrir altari. Messan er senn á enda. “Mamma,” er kallað, “presturinn er að blessa.” Svo er stokkið af stað í átt að Nikulásargjá, steinum hent í gjána, óskum okkur, vitum að óskir okkar munu rætast - eins og alltaf.

Drengurinn minnist á Guðsríkið, mamman reynir að muna hvort hún notaði það orð í prédikun dagsins. Andahjón kvaka og drengurinn heilsar, sjáðu hvað þau eru falleg! Mamman segir frá Alþingi til forna, þjóðhetjum sem riðu um héruð og ákváðu að landið skyldi vera kristið land. Á Lögbergi má heyra ólíkar tungur, ensku, dönsku og kannski portúgölsku, Christian Ronaldo er frá Portúgal upplýsir drengurinn um leið og hann stekkur milli steina og leitar að Snorrabúð.

Sagan sem eitt sinn var rennur saman við veruleika dagsins og núið sannar enn á ný gildi sitt. Við eigum þennan fallega sumardag saman, ég og börnin ásamt öllum hinum sem komu á hinn helga stað. Allt þarf að skoða, Drekkingarhyl líka þó þar sé stoppað stutt og haldið fast í litlar hendur, svona til að mömmunni líði betur. Það eru svo margar sorgir sem þar hefur skolað burt og eftir situr minningin ein í sögunni.

Í dag viljum við ekki dvelja við sorgirnar heldur umfaðma gleðina. Við viljum syngja Öxar við ána og Einu sinni á ágústkvöldi. Við viljum muna og þekkja söguna en við viljum lifa í gleði hins fallega sumardags. Ekkert getur skyggt á hana. Því allt hefur sinn tíma. “Ein kynslóð fer, önnur kemur en jörðin stendur að eilífu. Og sólin rennur upp og sólin gengur undir og hraðar sér aftur til samastaðar sín þar sem hún rennur upp. Vindurinn gengur til suðurs og snýr sér til norðurs, hann snýr sér og snýr sér og hingsnýst á nýjan leik.

Allar ár renna í sjóinn en sjórinn fyllist ekki. Þangað sem árnar renna munu þær ávallt renna. Allt er sístritandi, enginn maður fær því með orðum lýst, augað verður aldrei satt af að sjá og eyrað verður aldrei mett af að heyra. Það sem hefur verið mun verða og það sem gerst hefur mun enn gerast og ekkert er nýtt undir sólinni.

Sé nokkuð til er um verði sagt: Þetta er nýtt, þá hefur það orðið fyrir löngu, fyrir okkar tíma.” (Préd. 1:4-10). Þessi fornu spekiorð Prédikarans kristallast í hamingju okkar þennan bjarta sumardag þegar við finnum hvernig hún er lögð fyrir okkur í hverri steinvölu og hverju puntstrái. Hún vitnar um Skaparann sem segir sjáðu elsku mína, sjáðu hana í sögu þjóðarinnar, sjáðu hana í minningunum, sjáðu hana í fjölbreytileikanum, sjáðu hana í möguleikunum.

En umfram allt, sjáðu hana í dag í því sem þú átt og þér er dýrmætast. Sjáðu, mundu og þakkaðu, því það sem var, er og verða mun, um aldir alda.