Hugleiðingar úr sveitinni

Hugleiðingar úr sveitinni

Leitarmenn koma heim seinnipart dags. Sveittir og rjóðir í kinnum. Vonbrigðin leyna sér ekki, þeir fundu færra fé en við höfðum vonað. En góðu fréttirnar eru þær að það sem fannst var allt á lífi. Það á að leita aftur á morgun.

Ég er brauðlaus prestur og bóndi. Ég valdi það sjálf fyrir tveimur árum, þá sagði ég upp stöðu minni í Akureyrarkirkju og flutti ásamt eiginmanni og 6 mánaða dóttur okkar á æskuheimili eiginmannsins og við hófum fjárbúskap í Þingeyjarsýslu. Þar sem ég er fædd og uppalin í sveit vissi ég að lífstíllinn myndi breytast talsvert. Ég hef sennilega ekki talið krónurnar svona vandlega síðan á fyrsta ári mínu í guðfræðinni, þegar ég gekk 40 mínútur til að komast í skólann, í bensínsparnaðarskyni. En þeir eru löngu liðnir dagarnir sem ég þrammaði um malbik höfuðborgarinnar, nú geng ég um holt og móa og anda að mér frelsi sveitamannsins. Og nú eru börnin orðin tvö og yfir 1000 fjár á fjalli í sumar. Lífið er dásamlegt. En stundum spyr fólk mig hvort ég sé nú sátt við þessa ákvörðun (að vísu hefur enginn bóndi eða nokkur af bændakyni spurt að því). Svar mitt er einlægt já, ég er sátt. Jafnvel þessa dagana, þótt á móti blási í víðri merkingu þess orðtaks. Eftirfarandi hugleiðingar veita kannski innsýn í svar mitt.

Það hafa ekki farið framhjá neinum, þær hörmungar sem bændur og búalið á norðurlandi hafa gengið í gegnum á undanförnum dögum. Fréttir berast af björgunarsveitarfólki og öðrum sjálfboðaliðum sem reyna ásamt bændum af fremsta megni að leita að fé og bjarga því. Óvissan er mikil. Þetta eru undarlegir dagar og verða öllum sem að málum koma ógleymanlegir. Ég finn mig knúna í svefnleysinu til að rita nokkur orð, í von um að kyrra sálartetrið og koma nokkru af því sem í brjóstinu býr, á framfæri. Einhvernvegin svona eru dagarnir hjá húsmóðurinni á Þverá í Reykjahverfi:

Mánudagur 10. september: Hvassviðri, gríðarleg ofankoma og lélegt skyggni. Ég eiri ekki við nokkurt verk, stari út um gluggana, það hjálpar samt ekkert. Óska þess að við hefðum verið búin að ganga og smala fénu heim. Ég tala við Guð: Viltu vernda kindurnar gegn háska og dauða. Gefðu okkur æðruleysi sem sitjum heima í vanmætti. Amen. Eiginmaðurinn er kallaður á fund með fjallskilastjóra um kvöldið . Það skal haldið á heiðina í fyrramálið og aðstæður kannaðar. Yfirskrift tilfinninga þessa dags: reiði, svekkelsi, ótti.

Þriðjudagur 11. september: Smyr nesti í morgunsárið. Fyrrum sveitungi og vinur hans ætla að fara ásamt bónda mínum upp á heiði og ekki má gleyma tengdapabba, hann fer með. Nýskriðinn á áttræðisaldurinn, það er dýrmætt að hafa svona reynslubolta með sér. Þrír björgunarsveitarmenn koma um hádegið. Svona starfar Guð, sendir hjálpina. Bóndi minn stekkur af stað út, snýr sér við í dyrunum: ,,ég ætla sko að kyssa þig áður en ég fer“ Ég kveð hann og föruneytið með hljóðri bæn: Guð veri með ykkur.Finn fyrir vanmætti mínum, að vera heima á kantinum að hugsa um börn og bú. Ég get ekki leynt því lengur hve svekkt ég er. Velti mér upp úr Ef-unum, bara Ef þetta..., ef hitt... Það hjálpar ekki.

Miðvikudagur 12. september. : Vinir, vandamenn og velviljað fólk sem ég þekki ekki enn, 10 manns, mæta snemma morguns. Þau halda upp á Reykjarheiði, á dráttarvélum, vélsleðum, fjórhjólum og jeppum. Ég er vongóð. Ég skynja áræðni og von, en líka kvíða. Gleymi mér við matseldina, sýð hangikjöt og skelli í nokkrar bökur, skipti á barninu, gef pela, svara símhringingum, samt finnst mér tíminn lengi að líða. Pabbi er mættur að aðstoða og tengdamamma kemur yfir í hús til mín, þau hjálpa til með börnin, já afar og ömmur eru ómetanlegt fólk. Leitarmenn koma heim seinnipart dags. Sveittir og rjóðir í kinnum. Vonbrigðin leyna sér ekki, þeir fundu færra fé en við höfðum vonað. En góðu fréttirnar eru þær að það sem fannst var allt á lífi. Það á að leita aftur á morgun. Ég er svo hissa, við hjónin sem höfum aðeins búið hér í tæp tvö ár, eigum svona marga góða að. ,,Takk góði Guð, fyrir allar þessar hjálparhendur og samhug og stuðning fólks.“ Þakklætið hreiðrar um sig í sálinni, mikið er fólkið hér gott. Fimmtudagur 13. september : Rigning en nokkuð stillt. Enn mæta vinir og vandamenn, sumir í fyrsta sinn, aðrir í annað sinn og enn aðrir þriðja daginn í röð. Ég er stöðugt í símanum. Fólk er áhyggjufullt um féð okkar og afkomu. Umhyggja þess snertir mig djúpt. Ég hringi í bóndann eins og oft áður, fæ litlar fréttir. Þeir finna fátt, um 40 -50 kindur en allar lifandi, grafa nokkrar úr fönn. Þoka leggst yfir heiðina. Leitarfólkið verður að halda heim. Þau gæða sér á kjötsúpunni og fara yfir stöðu mála við eldhúsborðið. Ég dáist að jákvæðni þess, góðum móral, æðruleysi þeirra og ekki síst bónda míns. Ég veit ósköp vel að hann hefur ekki sofið síðustu þrjár nætur, en við ræðum það ekki. Ekki núna. Á morgun skal réttað í Skógarrétt, þá kemur betur í ljós hve margt fé er komið. Við förum örþreytt í háttinn. Ég get ekki haldið andlitinu lengur. Tárin renna á koddann. Ég veit ekki hvort það eru tár kvíðans eða sorginnar yfir örlögum kindanna eða þakklætistár, kannski sitt lítið af hverju. Ég þurrka tárin, tala við Guð og síðan eiginmanninn. Við tölum kjark í hvort annað en annað sem á okkur hvílir leggjum við í Guðs hendur. Já enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér en við vitum að hún mun færa okkur stundir bæði ljóss og skugga og eins og góður maður sagði: ,,mundu að þú ert aldrei ein, Guð er með þér.“Ég held fast í uppáhaldsvers mitt úr Davíðssálmum : Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.(Sl. 37) Ég ætla gera það, enn og aftur. Því sumt ráðum við ekki við og stundum gerum við mistök, en það breytir engu um það, að Guð er hér.

Atburðir sem þessir, snerta allt samfélagið, ekki aðeins bóndann og heimili hans. Ég hef alltaf sagt að það sé gott að búa í Þingeyjarsýslu, Húsvíkingar eru vingjarnlegir og svo ég tali nú ekki um Reykhverfunga og sveitunga í næsta nágrenni. Ég get ekki ritað þetta fyrir hönd allra sauðfjárbænda en held að margir kollegar mínir í bændastétt geti tekið undir lokarorð mín hér: Þú, sem sinntir björgunaraðgerðum og aðstoðaðir björgunarsveitarfólk: TAKK Þú, sem tókst þér frí úr vinnu til að aðstoða, TAKK Þú, sem sýndir skilning þegar samstarfsmaður þinn fékk frí til björgunaraðgerða svo þú þurftir að vinna tvöfalt meira á þínum vinnustað: TAKK Þú, sem eyddir frídögum þínum í erfiðisvinnu: TAKK Þú, sem sendir kökur og bakkelsi handa leitarfólki og bændaliði: Takk Þú, sem hefur sent fallegar hugsanir, bænir, sms, hringdir eða sendir kveðjur á facebook, TAKK. Þú, sem sýnir samhug með mönnum og málleysingjum. TAKK Guð blessi þig. Ritað aðfaranótt 14. September, Þverá Reykjahverfi, Sólveig Halla Kr.