Pólitíkin og kirkjan

Pólitíkin og kirkjan

Með fénu taka nú flestir völdin kaupa, fær þau hvör sem meira vogar að raupa, fyrir gull og háfur, gjafirnar silfurstaupa girnist margur í vandan sess að hlaupa
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
13. maí 2014

Kirkjan er stundum gagnrýnd fyrir það, að hún hafi alltaf verið stjórnvöldum undirgefin og látið viðgangast óréttlæti gagnvart almenningi án þes að koma koma til varnar, en hugsað fyrst og fremst um eigin hag og stöðu. En er það svo, ef nær er skoðað? Með siðbót Lúthers, sem hófst á Íslandi eftir miðja 16. öld, verða svo miklar breytingar í þjóðlífinu, að líka má við menningarbyltingu. Kirkjan var öflug stofnunin sem sameinaði þjóðina og hafði burði til að standa fyrir málum hennar gagnvart dönsku konungsvaldi. Það reyndist einnig styrkur, þegar Íslendingar háðu sjálfstæðisbaráttu sína öldum seinna. En með siðbótinni gerðist fyrst og fremst tvennt í veraldlegum efnum: Skilin á milli kirkju og ríkis voru aðgreind, og menntun almennings var sett í forgang. Þessi skipan byggðist á frelsi mannsins til að rækta samband sitt við Guð og njóta náðar Hans.

Lúther lagði mikla áherslu á, að kirkjan nyti sjálfstæðis gagnvart ríkisvaldinu og gæti ræktað málefnalega gagnrýni í predikun sinni með því að kalla stjórnmálamenn til ábyrgðar, án þess að ríkið brygðist við með pólitískri íhlutun í stjórnsýslu kirkjunnar. Ríkinu bæri að tryggja frið og réttlæti í landinu með lögum, almenningi daglegt brauð, göfugri menningu að blómgast og kirkjunni frelsi til boðunar og starfs. Þessi skipan festi djúpar rætur í pólitík og menningu lútherskra þjóða eins og á Norðurlöndunum og hafði mest áhrif á, að þróunin varð mjög frábrugðin því, þar sem katólskan réði ríkjum.

Með menningarbyltingu siðbótarinnar á Íslandi var kirkjunni falið að sjá um uppfræðsluna með áherslu á læsi almennings. Auk þess stóð kirkjan fyrir bókmenntavakningu og stofnaði prentsmiðju á Hólum. Á meðal fyrstu bókanna, sem prentuð var og varð almenningseign á Íslandi, var Vísnabók Guðbrands 1612. Sr. Einar Sigurðsson, prestur í Heydölum 1590-1627, á um helming kvæðanna í Vísnabókinni. Þar kemur einmitt fram þessi lútherski skilningur um stöðu og ábyrgð stjórmálamanna m.a. í kvæðinu Hugvekja:

Svo hefur sett til varnar sjálfur skaparinn þjóða kóng í heimi hér að sjá til sinna barna og siðuna rétta bjóða friðinn svo fengjum vér. Stjórnvaldinu stöndum ekki á móti, strangan reikning trú eg það gjalda hljóti, leggja á straffið, lögin svo egninn brjóti. Lofs og æru góðir menn njóti.

Í næsta erindi vex skáldinu ásmegin og ekki verður nú sagt, að þar prediki klerkur í kirkju sem er ríkisvaldinu þæg og undirgefin:

Því skal valdsmenn vanda og velja að heiðri sönnum og hjartans hreinni trú í slíku starfi standa, stjórna kristnum mönnum, þó náist það ekki nú. Með fénu taka nú flestir völdin kaupa, fær þau hvör sem meira vogar að raupa, fyrir gull og háfur, gjafirnar silfurstaupa girnist margur í vandan sess að hlaupa.

Boðskapurinn hér er tæpitungulaus. Nú mætti spyrja: Hefur ekkert breyst í pólitísku siðferði á Íslandi um aldirnar, þrátt fyrir allt? Ef einhverjir velkjast í vafa um það, þá fetar skáldið enn á nútímaslóðum í næsta erindi: Nú bið ég Guð að náða nákvæmd stjórnarmanna og líta á laganna rétt; auður á öllu að ráða, Ísland má það sanna, útvalin er engin stétt. Peningur leysir, peningur líka dæmir, peningur margan bófann heiðri sæmir, peningalausir plaga að kallast slæmir, peningagjaldið landið að gæðum tæmir.

Þessi brot úr kveðskap sr. Einars Sigurðssonar í Heydölum frá upphafi 17. aldar, þegar lúthersk menningarbylting var að festa rætur á Íslandi, eru hvort tveggja til vitnis um predikun kirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu og pólitískt siðferði í landinu.

Árið 2017 verður siðbótar Lúthers minnst í tilefni af fimm alda afmæli. Á slíkum tímamótum gefst tækifæri til að skoða opnum og fordómalausum huga áhrif siðbótarinnar á Íslandi. Og þar má ekki undanskilja félagslega ábyrgð kirkjunnar.