„Sennilega þarf hann ekki að koma að málinu þar sem þið hafið staðið vel að málunum sjálf...“
Ég las tölvupóstinn frá Borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytisins í símanum mínum, þar sem ég stóð í skugga af hrjálegu húsi í strandbæ einhvers staðar á suðurströnd Haiti. Við biðum í hóp eftir einhverju, ég var ekki viss eftir hverju.
Örskömmu síðar mætti einhver með björgunarvesti fyrir allan hópinn, við tókum við vestunum og gengum niður á ströndina. Ég man þegar ég fékk tölvupóst frá Denver í Bandaríkjunum á miðvikudegi um að ein leiðin út væri 4 til 6 tíma sigling yfir til dómíníska lýðveldisins á „ekki-mjög-sjófærum bát“ (e. not-so-seaworthy vessel). Þegar ég hafði lesið skilaboðin gekk ég að fararstjóra hópsins og sagði honum að það hefði komið mjög heimskuleg hugmynd í tölvupósti sem við værum ekki að fara að taka mark á.
En nú var komin laugardagur, matur af skornum skammti og allt drykkjarvatn búið. Hópurinn var komin niður á strönd og tilbúin að taka áhættuna og sigla burt. Þegar ég kom inn á ströndina og sá bátana sem yrðu farartæki okkar næstu fjóra til sex klukkustundirnar fór ég að hlæja. Ég velti fyrir mér orðum starfsmanns Utanríkisráðuneytisins, „þið hafið staðið vel að málunum sjálf...“, og hugsaði sem svo að hann hefði augljóslega ekki séð bátinn sem ég var um það bil að stíga upp í. Opinn hrörlegur trébátur með 25 hestafla utanborðsmótor, lítillega stærri en bátur sem lengi var notaður til siglinga í Vatnaskógi og um tíma kallaður Stormur.
Helmingurinn af hópnum fór í opinn trefjaplastsbát, með enn minni mótor. Eftir að við höfðum komið okkur fyrir í bátunum var ýtt frá. Eitthvað fór öðruvísi en áætlað var, því trébáturinn varð strax hálffullur af vatni. Sjómennirnir sáu að við svo var ekki búið og við fórum aftur í land.
Hinn báturinn komst klakklaust af stað og sigldi sína leið. Við sem eftir stóðum á ströndinni vissum ekki hvað myndi taka við næst. Eftir nokkrar mínútur hófust sjómennirnir handa við að fjarlægja mótorinn af trébátnum og settu hann því næst á eins trefjaplastbát og þann sem hinn helmingur hópsins hafði þá þegar lagt af stað í. Eftir nærri 25 mínútna seinkun komumst við aftur út á sjóinn. Það tók reyndar smá tíma að draga mótorinn í gang. Reynsla mín úr Vatnaskógi sagði mér að þeir hefðu dælt of miklu bensíni inn á hann, en þar sem ég tala ekki kreole og sjómennirnir takmarkaða ensku, ákvað ég að sitja kyrr og hafa mig hægan.
Það var samt ekkert sérstaklega gaman að reka mótorlaus á karabíska hafinu og vita að þrátt fyrir að mótorinn færi í gang núna, þá myndi hann þurfa að haldast í gangi næstu fjóra til sex klukkustundirnar. En við komumst af stað og eftir rúmlega tvær klukkustundir höfðum við dregið hinn bátinn uppi og sigldum framhjá honum, enda með örlítið öflugri mótor.
Litlu síðar veiti ég því athygli að sjómennirnir hófu að leita að einhverju, þeir kölluðu eftir hníf og virtust vera að tala um bensínvandræði. Ég ákvað að bjarga deginum. Ég fékk lánaðan kúlupenna hjá félaga mínum, fann tveggja lítra tóma kókflösku og notaði pennann til að stinga á hana gat og rífa hana í sundur í miðju. Þá vantaði víst trekt til að hella meira beníni á bensíntankinn. Félagi minn hló að mér. Ég var augljóslega orðinn viðþolslaus, ég nefnilega þoli illa að gera ekki gagn, vera upp á aðra kominn, þurfa að viðurkenna vanmátt minn í erfiðum aðstæðum. Þarna fann ég leið til að gera gagn, koma að notum.
Eftir rúmlega fimm tíma siglingu komum við í land, það var byrjað að rökkva og hinn báturinn var ókominn. Við settumst niður og biðum og við biðum. Ein klukkustund leið og við byrjuðum að reikna. Þau hefðu átt að vera komin, það hafði eitthvað gerst. Klukkan tifaði og með hverri mínútunni tók ímyndunaraflið okkur á verri og verri stað. Við sátum í þögninni, biðum og báðum. Hvernig væri hægt að útskýra það að hafa lifað af einhverjar mannskæðustu náttúruhamfarir sögunnar og týnast svo á hafi á leiðinni heim. Eftir langa bið kom ungur maður hlaupandi upp eftir ströndinni. Hann sagði á brotinni ensku að hann hefði verið í hinum bátnum. Það var ekki auðvelt að skilja hvað var á seyði, en það virtist vera að allir væru heilir. Þau hefðu þurft að fara í land annars staðar vegna bensínvandamála. Ungi maðurinn hafði ákveðið að hlaupa á undan til að láta okkur vita, en hópurinn væri væntanlegur á bátnum hvað á hverju.
Það komast ekki allir, alla leið á opnum bátum á flótta undan aðstæðum vonleysis, hamfara og stríðsátaka. Fólkið í bátunum út af strönd Ítalíu, Ástralíu eða við strendur Flórída í Bandaríkjunum, hefur metið aðstæður sínar svo að því séu allar aðrar bjargir bannaðar. Það er tilbúið að leggja allt undir í von um mannsæmandi líf.
Þau sem komast alla leið mega síðan eiga von á innrásum lögreglu og/eða hermanna í húsakynni sín. Önnur þurfa að fara huldu höfði af ótta við að vera send heim í vonleysið. Enn önnur þurfa að búa við niðurlægjandi ummæli frá stjórnmálamönnum um aumingja og auðnuleysingja. Þau fá að heyra að þau séu baggi á mótttökuþjóðinni sem jafnframt bannar þeim að vinna fyrir sér.
Öll þurfum við að gera upp við okkur hvaða ábyrgð við berum og hversu langt sú ábyrgð nær. Stóra spurning stjórnmálanna snýst nefnilega ekki um skattaprósentur eða komugjöld á sjúkrahús heldur um ábyrgð gagnvart náunganum og þá jafnframt spurningu lögvitringsins, „hver er náungi minn?“. Allt annað er útfærsluatriði.
Það var stórkostlegt að sjá glitta í bátinn koma inn í víkina þar sem við stóðum á ströndinni eftir nærri tveggja klukkustunda bið. Við þurftum ekki að hafa áhyggjur af því hvað gerðist næst. Tveimur dögum seinna sátum við saman borðuðum góðan mat og fórum yfir reynslu okkar á lúxushóteli í San Domingo, ævintýrinu var lokið.
Að vera í þeirri stöðu að telja sig tilneyddan til að stíga upp í opinn hrörlegan trébát á strönd Haiti er ekki til marks um að hafa staðið vel að málum. Það er fyrst og fremst til marks um að aðrir kostir séu uppurnir.
Spurningarnar sem blasa við í ljósi reynslu minnar eru tvær. Hvað getum við gert til að gera lífið í heimalandi bátafólksins bærilegra og draga úr vonleysinu heima fyrir og hvernig ætlum við að mæta þeim sem komast í land?
Þegar stjórnmálamenn leggja til minni stuðning við þróunaraðstoð í Malaví eða semja lög sem koma í veg fyrir að flóttamenn fái að byrja nýtt líf í nýju landi, þá er svar þeirra og ábyrgð ljós.
Halldór Elías Guðmundsson var staddur á Haiti 12. janúar 2010 ásamt hópi af guðfræðinemum, þegar jarðskjálfti reið yfir með skelfilegum afleiðingum. Talið er að yfir 100.000 einstaklingar hafi látið lífið í jarðskjálftanum, þó mun hærri tölur hafi einnig heyrst.