Biskupinn skimaður

Biskupinn skimaður

Fréttastofan þarf ekki að ýkja óánægjuna. Það gerir fréttina ranga í augum þeim sem skima hana. Það sýnir biskupinn og Fréttastofuna í neikvæðu ljósi. Það gæti leitt til þess að við treystum síður Fréttastofunni og biskupinum.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
06. júlí 2011

Átta af tíu

Á vefnum skimum við, lesum hratt yfir síður og stundum bara fyrirsagnirnar. Þetta vita þau sem skrifa á vefinn. Þess vegna leggja netpennar sig fram um að skrifa grípandi fyrirsagnir og byrja fréttir, pistla og bloggfærslur á setningum og málsgreinum sem fanga athyglina og draga efnið saman þannig að það mikilvægasta komist til skila.

Þetta gerir líka þá kröfu að fyrirsagnir séu nákvæmnar og byggi á staðreyndunum sem hver frétt fjallar um. Ónákvæm túlkun í fyrirsögn fréttar sem er skimuð en ekki lesin leiðir lesendur á villigötur.

Tökum dæmi.

Laugardaginn 2. júlí birtist frétt á vef Ríkisútvarpsins sem byggir á þjóðarpúlsi Gallup þar sem spurt var um afstöðu til þjóðkirkjunnar. Fyrirsögnin er:

8 af hverjum 10 óánægðir með biskup

Fyrsta málsgreinin er svona:

„Aðeins tæplega 19% landsmanna eru ánægðir með störf Karls Sigurbjörnssonar, biskups. Þetta kemur fram í þjóðarpúlsi Gallup. Átta af hverjum tíu eru því óánægðir með störf hans eða taka ekki afstöðu.“

Fyrirsögnin er því ekki bara ónákvæm, hún er röng. Þjóðarpúlsinn leiðir ekki í ljós að 80% landsmanna séu óánægðir með störf Karls biskups. Hann leiðir í ljós að 18% landsmanna eru ánægðir með störf hans (frekar, mjög og að öllu leyti ánægð), 30% taka ekki afstöðu og 52% eru óánægðir með störf hans (frekar, mjög eða að öllu leyti).

Það er slæmt að aðeins tæp 20% séu ánægð með störf biskupsins, en Fréttastofan þarf ekki að ýkja óánægjuna. Það gerir fréttina ranga í augum þeim sem skima hana. Það sýnir biskupinn og Fréttastofuna í neikvæðu ljósi. Það gæti leitt til þess að við treystum síður Fréttastofunni og biskupinum.