Trúarbragðafræðsla í Evrópu

Trúarbragðafræðsla í Evrópu

Fjölmenning og fjölhyggja fer vaxandi jafnt á Íslandi sem annars staðar í Evrópu. Á sama tíma hefur vægi trúarbragða aukist í opinberri umræðu þvert á þá hugmynd að trúarbrögðin væru aðeins einkamál fólks.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
24. nóvember 2010

Fjölmenning og fjölhyggja fer vaxandi jafnt á Íslandi sem annars staðar í Evrópu. Á sama tíma hefur vægi trúarbragða aukist í opinberri umræðu þvert á þá hugmynd að trúarbrögðin væru aðeins einkamál fólks. Ýmsar stofnanir í Evrópu hafa sett málefni fjölmenningar og samræðu trúarbragða á dagskrá þar sem menntun um ólík trúarbrögð og lífsviðhorf er talin mikilvæg.

Stofnanir evrópskrar samvinnu

Þing Evrópuráðsins samþykkti árið 2005 tilmæli um trúarbragðafræðslu. Um leið og trúfrelsi er áréttað þá segir þar að slíkt sé ekki í andstöðu við það sjónarmið að góð þekking á trúarbrögðum stuðli að umburðarlyndi sem sé nauðsynlegt fyrir lýðræðið. Í þessum tilmælum kemur fram sú gagnrýni á menntayfirvöld að þau veiti ekki nógu miklu til kennslu um trúarbrögð og að skortur sé á hæfum kennurum. Hvatt er til að nemendur fái hlutlægan fræðslu um sögu trúarbragða, trú og trúleysi svo og að geta greint öfgafulla trúariðkun.

Evrópuráðið gaf svo út svokallaða Hvíta bók um fjölmenningarlega samræðu (White Paper on Intercultural Dialogue, Strasbourg 2008). Þar eru sett fram grunngildi Evrópuráðsins svo sem umburðarlyndi og jafnrétti. Í Hvítu bókinni gengur fjölhyggjan alls staðar í gegn. Þar er trúarbragðafræðsla talinn mikilvæg til þess að nemendur öðlist fordómalausan skilning á helstu trúarbrögðum. Í skýrslunni kemur einnig fram svipað álit menntamálaráðherra Evrópulanda þar sem þeir leggja áherslu á trúarbragðafræðslu til að efla skilning á menningu og trúarsamfélögum. Þá er þekking á trúarbrögðum talin ein af forsendum þess að þvermenningarleg umræða geti farið fram. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (OSCE) gaf út skýrslu sem nefnist Toledo Guiding Principles on Teaching about Religions and Beliefs in Public Schools, (Varsjá 2007). Stofnunin taldi að efla þyrfti skilning á trúarbrögðum og lífsskoðunum til að takast á við fordóma, stimplun og ögranir gagnvart þeim sem hugsa öðru vísi en slíkt hefur oft leitt til spennu og jafnvel ofbeldis í álfunni.Toledo-skýrslan fjallar ítarlega um fræðslu um trúarbrögð í opinberum skólum og hvernig megi tryggja að mannréttindaákvæði um trúfrelsi séu virt sem og sanngirni gagnvart nemendum með ólíkan menningarlegan og trúarlegan bakgrunn. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að þekking á trúarbrögðum auki skilning á frelsi allra til að ástunda sína trú eða lífskoðun; slík þekking efli einnig lýðræðislega þátttöku í samfélaginu og hvetji til skilnings á félagslegri fjölbreytni um leið og hún auki félagslega samloðun. Þá kemur fran í Toledo-skýrslunni að eðlilegt sé að trúfélög og skólar eigi með sér samstarf um trúarbragðakennsluna.

Loks skal hér getið getið skýrslu sem nefnist Interreligious and Values Education in Europe, Map and Handbook (Nürnberg 2008). Þar er að finna upplýsingar um trúarbragðafræðslu í flestum löndum Evrópu. Þar segir að því sjónarmiði vaxi nú ásmegin að trúarbragðafræðsla skuli vera hluti af almennri menntun. Fræðslan eigi að miðla þekkingu á trúar- og menningararfi Evrópu, fjalla um gildi sem grundvölluð eru á trú og hafa áhrif á einstaklinga og samfélög. Þá eigi hún að hjálpa nemendum að ígrunda tilvistarspurningar og efla umburðarlyndi þeirra.

Evrópa - Ísland

Trúarbragðafræðsla í Evrópu er talin mikilvæg til þekkingar á rótum evrópskrar menningar, svo og þjálfunar nemenda í umburðarlyndi og lýðræðislegum vinnubrögðum. Víða í Evrópu er heilmikið samstarf við trúfélög en ekki annars staðar. Í þeim heimildum sem hér hafa verið reifaðar er það áréttað að slíkt samstarf sé á þeirri faglegu forsendu skólastarfs að fræða en ekki boða.

Í umræðunni sem hér á sér stað á um tengsl skóla og trúfélaga, einkum þjóðkirkjunnar er gagnlegt að að hafa þetta evrópska sjónarhorn í huga. Þar er lögð áhersla á aukna fræðslu um trúarbrögð og lífsskoðanir, jafnvel í samvinnu við trúfélög. Þeir sem vilja draga úr trúarbragðafræðslu og banna samstarf við trúfélög hér á landi eru að þessu leyti að ganga í öfuga átt miðað við áðurgreinda umræðu í Evrópu.