Vörður

Vörður

Á þeim tíma þegar hesturinn var þarfasti þjónninn og fólk fór ríðandi á milli bæja og um fjöll og firnindi voru gjarnan hlaðnar vörður til þess að merkja leiðir. Þessar vörður standa margar enn í dag og áfram fylgjum við þeim þegar við förum í gönguferðir eða hestaferðir um fáfarnar slóðir þessa fagra lands okkar. Slíkar ferðir eru reyndar afar vinsælar á þeim árstíma, sem nú ríkir.
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
01. ágúst 2007

Á þeim tíma þegar hesturinn var þarfasti þjónninn og fólk fór ríðandi á milli bæja og um fjöll og firnindi voru gjarnan hlaðnar vörður til þess að merkja leiðir. Þessar vörður standa margar enn í dag og áfram fylgjum við þeim þegar við förum í gönguferðir eða hestaferðir um fáfarnar slóðir þessa fagra lands okkar. Slíkar ferðir eru reyndar afar vinsælar á þeim árstíma, sem nú ríkir.

Umræddar vörður minna á annarskonar vörður, sem eru heldur stærri og umfangsmeiri. Þær eru að sama skapi dreifðar um land allt og vísa sömuleiðis veginn, sem er þar að auki mun stærri og lengri en sérhver fáfarin slóð. Við erum að tala um allar kirkjurnar hér á landi og þann veg, sem kenndur er við lífið, og er til umfjöllunar innan veggja þeirra, sunnudaga sem aðra daga.

Það hafa verið reistar kirkjur út um allt á Íslandi, af öllum stærðum og gerðum og á bak við sérhverja byggingu býr kjarkur og dugur, sem varð til fyrir trú á Jesú. Hver kirkja á sér sögu og ef þú ert að aka um landið og nemur staðar við hverja kirkju, sem þú sérð á leiðinni og andar að þér sögunni hennar, að þá kemur þú heim aftur með mjög mikla þekkingu á kristnisögu þjóðarinnar og þar af leiðandi sögu hennar yfir höfuð.

Það er því sannarlega þess virði að skoða kirkjurnar og fræðast um leið um landið sitt og menningu þess. Hvað gerum við t.d. þegar við heimsækjum aðrar þjóðir? Jú, við skoðum kirkjurnar þeirra, kirkjusagan er samofin menningarsögu hverrar þjóðar.

Ég kom við í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi um daginn. Þar er m.a. kirkja, sem lætur ekki mikið yfir sér, en það er mjög áhrifaríkt að koma þangað inn. Það er ekki síst vegna altaristöflunnar. Hún sýnir Jesú, þar sem hann situr við borð ásamt mönnunum tveim, er hann hitti á leið til þorpsins Emmaus, skömmu eftir upprisuna.

Það sem er svo magnað við þessa töflu er sú staðreynd, að þegar þú gengur um fyrir framan hana og augun þín og Jesú mætast, að þá er eins og augun hans fylgi þér. Þessi mynd sat og hefur setið í huga mér síðan ég keyrði úr hlaði í Bjarnarhöfn. Þá fann ég hvað það getur verið mikils virði að skoða þessar fallegu vörður, sem verða víða á vegi manns.

Inn í þessa látlausu kirkju í Bjarnarhöfn hafði líka komið kardináli nokkur frá Róm, öflugt páfaefni í síðasta kjöri, en hann varð alveg yfir sig hrifinn. Það sem hreif hann var einfaldleikinn. Það kemur ekki á óvart eftir að hafa einu sinni séð kirkjuhallirnar í Rómaborg. Það minnir óneitanlega á heilagleika einfaldleikans og hvað hann getur á margan hátt verið áhrifaríkur, já það þarf ekki endilega að reisa hallir Guði til dýrðar, íslenskar kirkjubyggingar eru til vitnis um það. Þær tjá vel þá hógværð og auðmýkt, sem er í anda frelsarans.

Í þessu samhengi öllu vil ég hvetja þig kæri lesandi til þess að stoppa við í sumarorlofinu þínu, þegar þú ferðast með fjölskyldunni um landið þitt, og gefa þér tíma til þess að líta inn í þessar fallegu kirkjur, sem segja sína sögu, að ég tali nú ekki um að eiga þar góða bænastund og biðja fyrir þér og þínum, slík stund róar taugar, sem annars eru oft vel þandar í íslenskri sumarumferðinni.

Bænastundir á lífsins leið hjálpa okkur að rata þá leið, eins og svo oft kemur fram í þeim boðskap, er hljómar án afláts innan kirknanna. Það er m.a. í gegnum þann hljóm, sem augu Jesú fylgja þér eins og þau, sem altaristaflan í Bjarnarhöfn birtir.