Þá er runninn upp fjórði sunnudagur í aðventu og jólin eru á næsta leiti. Um þessa helgi nær jólaundirbúningur hápunkti á flestum heimilum og jólin sjálf ná undirtökunum í sálum mannanna. Börnin eru komin í jólafrí í skólunum og telja dagana sem eftir eru fram að jólum og þrátt fyrir allan erilinn færist brátt ákveðin ró yfir. Nú er að ljúka öllum uppákomum í klúbbum og vinahópum og á flestum vinnustöðum. Nú snýr fólk sér að því sem nær stendur, hugsar um ættingja og vini og eigin fjölskyldu. Það þarf að ganga frá því sem eftir er af jólaundirbúningnum. Menn huga að skötu og hangikjöti og jólatrjám og öðru því sem til heyrir.
En enn eru ekki komin jól, aðventunni er ekki lokið. Á þessum fjórða sunnudegi aðventunnar fáum við að heyra í guðspjallinu um brautryðjandann sem kom á undan Jesú, spámanninn sem benti fólki á að frelsari heimsins væri væntanlegur, Jóhannes sem kallaður var skírari af því að hann skírði fólk svokallaðri iðrunarskírn. Iðrunarskírnin gekk út á það að fólk átti að snúa sér frá vegi eigingirni og græðgi, gera iðrun. Jóhanes sagði sjálfur um muninn á sinni skírn og skírn Jesú ”Ég skíri yður með vatni til iðrunar en hann mun skíra yður með anda og eldi”. Það er vel við hæfi að minnst Jóhannesar einmitt á aðventunni. Aðventan bendir á jólin sem eru að koma eins og Jóhannes benti á Jesú sem var að koma í heiminn.
Jóhannes lenti síðar í því að verða handtekinn af Heródesi konungi vegna þess að konungur þoldi ekki þá gagnrýni sem Jóhannes hélti uppi á spillta stjórn hans. Í myrkri fangelsisins fylltist Jóhannes af vonleysi og uppgjöf og sendi lærisveina sína til Jesú til þess að spyrja hann hvort hann væri sá frelsari sem koma ætti. Jesú svaraði honum með þeim orðum sem síðan hafa orðið undirstaðan undir alla kristna baráttu fyrir réttlæti í heiminum. Jesús sagði :” farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þér sjáið og heyrið”. „Blindir fá sýn, haltir ganga og fátækum er flutt fagnaðarerindið”. Og hvað var fagnaðarerindið sem fátækum var flutt? Jú, messías, hinn smurði, frelsarinn , var í heiminn kominn til þess að leiða hina fátæku og vonlausu undan oki ofríkis, kúgunar, misréttis og dauða. Allir sem honum vildu fylgja voru kallaðir til hins sama, til að láta réttlætið hafa forgang. Grundvallarboðun Jesú krists var að allir menn væru börn guðs, enginn væri öðrum æðri og að sérhver ætti að láta sig varða lítilmagnann, hinn hungraða , fátæka og smáða. Á þann hátt tók Jesús undir með spámönnum Gamla testamentisins. Jesús studdi boðun sína með kraftaverkunum sem umbreyttu dauða í líf, sorg í gleði. Kraftur orða hans stafar frá því að þau eru orð frelsarans, lausnarans. Hver sem vill fylgja honum, verður því að taka boðskap hans alvarlega og gera baráttuna fyrir fagnaðarerindinu til hinna fátæku í heiminum að sinni baráttu.
það eigum við kristnir menn ekki aðein að gera með fögrum orðum um ljósið í heiminum, kærleikan og jólabirtuna. Það eigum við að gera með raunverulegum aðgerðum, með því að vinna gegn myrkrini, fátæktinni, óréttinum og vonleysinu, hvar sem það birtist.
Fátækt og vonleysi hafa reyndar borið mikið á góma í fréttum nú á aðventu. Á miðri aðventu fékk forseti Bandaríkjanna Barak Obama friðarverðlaun Nóbels afhent í Osló. Í þakkarræðu sem hann flutti við það tækifæri sagði hann meðal annars um vonina: “Samfélag án vonar rotnar að innan“.
Þessi magnaða ræða fékk mig til að hugsa um okkar eigið samfélag hér á Íslandi. Fleiri og fleiri tala nú um vonleysi og depurð í samfélaginu. Ástæðuna þekkjum við auðvitað öll. Samfélag okkar var á undanförnum árum byggt úr hátimbruðum skýjaborgum reistum á sandi, svo notuð sé dæmisaga Jesú. Við reistum okkur samfélag á sandi græðginnar og draumsins um auðfenginn gróða, blinduð af kenningum um eilífan vöxt fjármagnsins. Samhyggð, samstaða, réttlæti, heiðarleiki, kærleikur, ekkert af þessu átti upp á pallborðið, þótti gamaldags og úrelt. Hvað þá kristin trú og boðskapur hennar sem menn hlóu að. Og hlæja sumir enn.
Á sandinum stóð gullbryddað samfélag hins sterka, útrásarvíkinganna og bankamannanna ungu sem voru hinar sönnu hetjur dagsins.
En svo skall á steypiregn, stormurinn blés, bankarnir, auðmennirnir, skýjaborgirnar á sandinum, allt þetta féll og fall þess var mikið.
Í stað hruninna skýjaborga hefur okkur ekki tekist að byggja upp nýtt Ísland, nýtt samfélag. Enn er uppgjörið eftir við þá sem stýrðu byggingarframkvæmdunum á sandinum. Enn er iðrun og afturhvarf víðs fjarri þeim flestum.
En fátæktin sækir á, það þrengir að venjulegu fólki, miskunnarleysið eykst. Sorglegast er að enginn boðar von, enginn boðar lausn, aðein uppgjöf og meiri þjáningu.
Er nema von að vonleysið vaxi og depurðin. Þetta finnum við prestarnir vel í starfi okkar í kirkjunni hjá öllum þeim fjölda sem hingað leitar í örvæntingu sinni. Þúsundir þurfa neyðaraðstoð vegna matarskorts yfir jólin. Þessa dagana er að ljúka úthlutunum neyðarhjálparinnar fyrir jól. Margir kvíða því sem síðan tekur við. En eins og einn hjálparsatrfsmaður sagði við mig í liðinni viku, geta hjálparstofnanir ekki brauðfætt þúsundir alla daga mánaðarins.
En gegn vonleysinu, gegn uppgjöfinni er okkur á aðventu og jólum og alla daga boðað fagnaðarerindi Jesú Krists. Fagnaðarerindi sem kallar okkur til starfa, til að endurbyggja samfélagið, í þetta sinn á bjargi en ekki sandi mislukkaðra mannlegra hugmynda og kenninga.
Og bjargið, það er Jesús Kristur.
En hvernig getur fagnaðarerindi hans aukið okkur von?
Jú, það er vegna þess að fagnaðarerindið er byltingarboðskapur.
Í þeim átökum sem nú geysa víða um jarðarkringluna er það tákn kærleika Guðs í myrkum heimi, manngildishugsjónar í heimi sem svo oft fyrirlítur lífið, réttlætis í heimi sem svo oft hefur óréttlætið að leiðarljósi. Hjálparstarf hverskonar er sprottið af meiði Fagnaðarerindisins, meðal annars hjálparstarf kirkjunnar.
Jólasöfnun hjálparstarfs kirkjunnar er knúin fram af þessu fagnaðarerindi sem flutt er hinum fátæku, en sú söfnun nær einmitt hámarki í dag.
En fagnaðarerindi Jesú Krists er ekki aðeins einhverskonar áfallahjálp þegar illa fer, skjól til að hlaupa í, athvarf í vondum heimi.
Nei, það er stefnuskrá réttlætisins í heiminum, stefnuskrá sem nær til alls mannlífs og er ekkert mannlegt óviðkomandi.
Það er stefnuskrá sem byggja má á nýtt samfélagið– Nýtt Ísland. Undir þá stefnuskrá skrifum við fyrir hönd barnanna okkar þegar við berum þau til skírnar. Þá stefnuskrá staðfestum við í fermingunni og sérhvern dag þegar við göngum til góðra verka alla æfidaga okkar. Jóhannes skírari, Aðventan, jólin, allt bendir á hið sama, á réttlæti Guðs sem kom í heiminn í og með Jesús Kristi og er kraftur til umbyltingar.
Jesús býður okkur að endurreisa íslenskt samfélag á bjarginu sínu. Það yrði samfélag manngildis, kærleika, heiðarleika og réttlætis.
Og þó stormar blésu -– og þó flóðið æddi, þá myndi það samfélag ekki falla né haggast.
Og það myndi ekki verða rotnuninni að bráð, eins og samfélag vonleysins sem Obama talaði um.
Þetta er hinn sanni fagnaðarboðskapur dagsins, fagnaðarerindi kristinnar trúar.
Megi þetta fagnaðarerindi lýsa okkur á komandi hátíðum og verða okkur hvatning til þess að leggja réttlætinu lið í orði og verki. Megi það verða okkur hvatning til að byggja Nýtt Ísland, land vonarinnar á nýju ári og um alla okkar daga. AMEN.