Sátt og kærleikur

Sátt og kærleikur

Hið nýja líf í Kristi gefur okkur samúð, meðaumkun, og samkennd gagnvart hvert öðru. Góðmensku, góðvild, gæsku og vinsemd. Auðmýkt, umburðalyndi gagnvart hvert öðru. Þolinmæði, þakklæti og gagnkvæma virðingu.

Við erum saman komin í húsi Drottins og tilefni okkar er Alþjóðleg samkirkjuleg bænavika, bæn fyrir einingu kristninnar og ber þessi vika yfirskriftina: Að sættast - Kærleikur Krists knýr oss.

Við biðjum fyrir einingu kirkjunnar og komum saman til að fagna, gleðjast vegna kærleika Guðs, náðar Guðs til okkar mannanna með réttlætingu og endurlausn mannsins fyrir son hans Drottinn Jesú Krist.

Við komum saman meðvituð um breyskleika hvert annars, að ekkert okkar er eins. Við virðum hvert annað og umberum í kærleika Krists. Við viljum stuðla að sáttum og einingu innan kirkjunnar fyrir og vegna frelsara okkar Drottins Jesú Krists. Það er hann sem sameinar og gefur hina fullkomnu einingu.

I Kærleikur Krists

Lesum saman í 2. Korintubréfi 5:14-15: Kærleiki Krists knýr oss, því að vér höfum ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla, þá eru þeir allir dánir. Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.

Það er Kærleikur Krists sem knýr oss. Það er hinn sami kærleikur sem Drottinn Guð sýndi okkur mönnum í gegnum það að hann gaf okkur sinn eingetna son.

Í Jóhannesarguðspjalli 3:16-17 segir: Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.

Í 1. bréfi Jóhannesar 4:10 lesum við: Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.

Að vera friðþæging þýðir að kærleikur Guðs kom á sáttum, hann fyrirgefur.

Kærleikur Krists er að hann gaf líf sitt og það er fyrir kærleika Krists að hann dregur okkur nær sér til samfélags við sig, hann vill gefa okkur persónulega reynslu, upplifun með sér.

Það er fyrir hlýðni Krists, undirgefni hans, dauða hans á krossi og upprisu frá dauðum, hann tók misgjörð, afbort, og allar syndir syndir okkar á sig og hann fyrirgaf og fyrir Jesú erum við börn Guðs föður í dag.

II Ef einn er dáinn fyrir alla

Við lásum áðan í 2. Korintubréfi 5:15: Ef einn er dáinn fyrir alla, þá eru þeir allir dánir. Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.

Einn er dáinn fyrir alla, það er fyrir Drottinn Jesú Krist, það er fyrir hann sem við eigum eilíft líf, ef það væri ekki fyrir hann þá værum við öll dáinn um eilífð, við værum glötuð fjarri lifandi Guði. Hið sanna líf felst í því að taka við honum fyrir trú, inn í hjarta okkar, taka við hans lífi, hann sigraði dauðann til að gefa okkur eilíft líf. Jesús er Gjöf Guðs til okkar, hann er hið eilífa líf.

Jesús Kristur gaf líf sitt, hann sigraði dauðann og með honum erum við einnig dáinn en við erum og einnig með honum upprisinn til að lifa með honum um eilífð.

Ekki til að lifa okkur sjálfum, heldur honum. Það er okkar sjálf sem þekkir ekki Guð, okkar eigin vilji er andstæða við vilja Guðs.

Það er kærleikur Guðs, það er sama hversu við reynum sjálf, það er ekkert í þessum heimi sem getur uppfyllt hjarta okkar, uppfyllt það tóm í sálu okkar, það er aðeins eitt og það er kærleikur hans, sem er skapari okkar og eigandi Drottinn Jesú Kristur.

Það er talað um brúðina í Ljóðaljóðunum, en það segir “um nótt leitaði ég hans sem sál mín elskar.“

í Ljóðaljóðunum 3. kafla, vers 1-4, segir Í hvílu minni um nótt leitaði ég hans sem sál mín elskar, ég leitaði hans, en fann hann ekki. Ég skal fara á fætur og ganga um borgina, um strætin og torgin. Ég skal leita hans, sem sál mín elskar! Ég leitaði hans, en fann hann ekki. Verðirnir, sem ganga um borgina, hittu mig. "Hafið þér séð þann sem sál mín elskar?" Óðara en ég var frá þeim gengin, fann ég þann sem sál mín elskar. Ég þreif í hann og sleppi honum ekki, fyrr en ég hefi leitt hann í hús móður minnar og í herbergi hennar er mig ól.

Tökum eftir þessum orðum: “Fann ég þann sem sál mín elskar. Ég þreif í hann og sleppi honum ekki.”

Hver er synd mannsins? Syndin er uppreisn mannsins gegn Guði sjálfum sem skapara og eiganda, vantraust á Hans heilaga, Guðdómlega eðli.

Sannleikurinn er sá að Guð þráir að gefa okkur öllum það besta í öllum hlutum í okkar daglega lífi sem er samfélag við sig, við kærleikann.

Hann vil gefa okkur reynslu, persónulegt samfélag við sig, þar sem við fáum að upplifa og lífa í honum fyrir hans heilaga anda.

Í okkar fallna eðli viljum við vera óháð, sjálfstæð, ráða sjálf, fara okkar eigin leiðir.

Í Sálmi 1:6 segir: Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.

Upplifir þú líf þitt í vegleysu, hefur þú tapað áttum, ert þú stefnulaus?

Við erum sköpuð af Guði til samfélags við Guð, til að vera eitt með honum.

Við þurfum ekki að standa ein. Án samfélags við Guð erum við andlega gjaldþrota. Lykillinn er að gefast upp fyrir Guði, við erum sköpuð til þess að eiga samfélag við hann, það er að taka á móti sáttargjörðinni, fyrirgefningu hans, að vera eitt með honum.

Í Jesaja 53:6 standa þessi orð: Vér fórum allir villir vega sem sauðir, stefndum hver sína leið, en Drottinn lét misgjörð vor allra koma niður á honum.

Misgjörð vor allra kom niður á honum, Kristur með dauða sínum, hefur greitt lausnargjaldið fyrir mig og þig.

III Ný sköpun í Kristi Jesú, Guð sætti oss við sig

Lesum áfram í 2. Korintubréfi 5:17-20: Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til. Allt er frá Guði, sem sætti oss við sig fyrir Krist og gaf oss þjónustu sáttargjörðarinnar. Því að það var Guð, sem í Kristi sætti heiminn við sig, er hann tilreiknaði þeim ekki afbrot þeirra og fól oss að boða orð sáttargjörðarinnar.

Þetta eru stórkostleg tíðindi: Hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til.

Ert þú að njóta þess að lifa í dag, ert þú að njóta augnabliksins, ert þú þakklát eða þakklátur fyrir daginn í dag?

Hvað er það sem heldur þér í fjötrum? Jesús kom til að frelsa, það er frelsi í því að fyrirgefa. Jesús fyrirgefur og það er í gegnum Jesú sem við fyrirgefum bróður og systur okkar og það er fyrir Jesú sem við fyrirgefum okkur sjálfum.

Að horfa til baka er hjálplegt og oft á tíðum nauðsynlegt í þeim tilgangi að eignast lækningu sárra atvika eða minninga. En við eigum ekki að dvelja eða festast í því sem liðið er, að festast í því liðna dregur úr okkur þrótt og heldur okkur frá því að lifa og njóta þess sem er núna. Allt er frá Guði.

Hann fyrirgefur og við erum réttlætt, það eru komnar á eilífar sættir milli okkar og Guðs. Misgjörð, afbrot og syndir okkar frammi fyrir lifandi Guði eru ekki lengur til, það er að baki Guðs í gleymskunnar hafi.

Sjá nýtt er orðið til. Það er í Kristi Jesú sem við höfum eignast eilífa sáttargjörð.

Sjá nýtt er orðið til - Kærleikur Krists knýr oss. Við erum knúin áfram af kærleika hans, lífi hans, upplýst, full af gleði, við höfum fundið hinn sanna tilgang, við eigum frið hið innra. Við höfum eignast fullvissu, fengið að snerta hið eilífa líf, eins og segir í Jóhannesarguðspjalli 18:3: En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.

IV Okkur er gefin þjónusta sáttargjörðarinnar.

Við lásum í 2. Korintubréfi 5. kafla versi 19: Guði sætti oss við sig fyrir Krist og gaf oss þjónustu sáttargjörðarinnar.

Jesús talar um kærleikann í Jóhannesarguðspjalli 15:13-17: Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan.

Jesús í kærleika lagði líf sitt í sölurnar fyrir okkur, hann gaf líf sitt, hann var knúinn af kærleika föður síns, það er kærleikur hans sem dregur okkur til hans: Ég hef útvalið yður. Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan.

Það er þessi þjónusta sáttargjörðarinnar: Að við leggjum líf okkar í sölurnar fyrir vini okkar, það er fyrir kærleika Krists í oss. Hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til, kærleikur Krists knýr oss. Fjötrar, múrar falla, það sem skilur að er tekið í burt fyrir kærleika Krists.

Hið nýja líf í Kristi gefur okkur samúð, meðaumkun, og samkennd gagnvart hvert öðru. Góðmensku, góðvild, gæsku og vinsemd. Auðmýkt, umburðalyndi gagnvart hvert öðru. Þolinmæði, þakklæti og gagnkvæma virðingu.

Í 1. Korintubréfi 13:4-8 og 13 er ritað um kærleikann: Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.

V Að vera eitt

Jesús bað þess að við öll mættum vera eitt eins og faðirinn og hann eru eitt.

Jesús bað til föður síns í Jóhannesarguðspjalli 17:11:

Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum, en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni, sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við.

Það er talað um kærleikann í 1. Jóhannesarbréfi 4:16 Vér þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á oss, og trúum á hann. Guð er kærleikur, og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.

Og við munum eftir orðum Jesú í Matteusarguðspjalli 18:20 Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.

Þar er kærleikurinn mitt á meðal.

Ég bið Drottinn um að blessa ykkur og það er mín bæn að það orð Guðs sem við höfum fengið að heyra megi vera ykkur huggun, hvatning og blessun. Kæra samkoma. Ég þakka áheyrn ykkar og einnig þakka ég ykkar sem eruð að hlusta á þessa útsendingu.

Drottinn blessi þig. Í nafni Drottins Jesú Krists. Amen.