Opinberunarhátíð

Opinberunarhátíð

Opinberunarhátíð er eins og morgunstund þegar maður gengur að glugganum og sviftir gluggtjöldunum til hliða og birtan flæðir inn til manns í herbergið. Nema að það er ekki fjöllin dásamlegu sem blasa við manni í náttúrunni heldur dýpt himinsins, undur og leyndardómar, sem blasa við augum.

Á þrettánda degi jóla, síðasta jóladeginum, koma vitringarnir í guðspjallinu. Hallgrímur Pétursson kemst svo að orði í rímuðum barnaspurningum:

Opinberunarhátíð heitir þrettándi þá komu vitringar úr austurlandi.

Dagatalið hefur að geyma skemmtilegheit eins og þessa staðreynd að þrettán daga höldum við jól, þrettán daga gleðskap í skammdeginu, svo það fer illa á því að gera kristindóm að einhverjum leiðindum. Og þessi dagur heitir Epiphania, opinberunarhátíð, og næstu sunnudaga eru Ritningarlestrar og guðspjöll um opinberun Guðs, hvernig Guð birtist okkur mönnum.

Opinberunarhátíð er eins og morgunstund þegar maður gengur að glugganum og sviftir gluggtjöldunum til hliða og birtan flæðir inn til manns í herbergið. Nema að það er ekki fjöllin dásamlegu sem blasa við manni í náttúrunni heldur dýpt himinsins, undur og leyndardómar, sem blasa við augum.

Stjarnan og ljósið er íhugunarefni okkar eins og hjá Grundtvig gamla í sálminum góða: Ó, hve dýrleg er að sjá (Sb. nr. 108). Og þá lesum við þessa ævintýralegu sögu um vitringana úr austurlöndum sem koma langan veg til að lúta Kristi, tigna hann og dýrka, færa honum konunglegar, spámannlegar og prestslegar gjafir, vegna þess að allt þetta er hann, Drottinn okkar og frelsari.

Skoða mósaíkmynd af vitringunum frá Ravenna á Ítalíu frá ca. 550

Það er til helgisaga um fjórða vitringinn. Ég þekki ekki vel uppruna hennar, hún er einhvers konar flökkusögn, um gamla öldunginn sem þráir að mæta Kristi og gerir það í kærleiksverkum:

Gráhærður öldungur var á leið til Betlehem. Hann hafði meðferðis flösku með dýrindis smyrslum, gullmola og rauðan rúbínstein, sem hann virti fyrir sér með mikilli aðdáun. Er hann nálgaðist bæinn var fyrir honum hópur manna sem var að stumra yfir særðum dreng á veginum. Öldungurinn gekk að drengnum og áður en hann vissi af var hann búinn að hella öllum dýrmætu smyrslunum yfir sár drengsins. Því næst hélt hann áfram för sinni til Betlehem. “Ég á þó alltaf gullmolann og rúbíninn,” hugsaði hann með sér. Allt í einu var tekið í hönd hans og sagt: “Góði herra, gef mér ölmusu ég er gamall og fátækur.” Gráhærði öldungurinn leit á vesalings beiningamanninn, og gat ekki fengið af sér að neita bæn hans. Hann átti enga aðra peninga en gullmolann og lagði hann í útrétta hönd beiningamannsins. “Enn á ég ljómandi rúbín handa barninu, og er hann jafn mikils virði og smyrslin og gullið til samans.” Leið hans lá fram hjá torgi, þar sem verið var að selja þræla. Það var verið að bjóða upp yndislega fallegt barn. Rétt hjá stóð móðir barnsins yfirkomin af harmi og sorg. Þetta var meira en viðkvæmt hjarta gráhærða öldungsins gat þolað. Þetta gat hann ekki horft á aðgerðarlaus. “Rúbíninn minn, rúbíninn minn”. Hann ruddist í gegn um mannþyrpinguna með steininn í hendinni og keypti barnið. Hann rétti móðurinni barnið og sagði brosandi útundir eyru af ánægju: “Taktu barnið þitt, nú áttu það sjálf, taktu það”. Hann hvarf á braut án þess að bíða eftir þakklæti konunnar. En allt í einu nam hann staðar. Ánægjubrosið stirðnaði á vörum hans. Hann neri saman höndunum í örvæntingu, og tár kom í augu hans. “Ó, hrópaði hann, nú á ég enga gjöf eftir”. Hann sneri við hryggur í huga. Eftir stutta stund tyllti hann sér niður á þúfur við veginn. Hann hallaði sér upp að tré og sofnaði. Þegar hann vaknaði aftur, ljómaði hann af gleði og hélt för sinni áfram hress í huga. Hvað hafði komið fyrir? Hann hafði dreymt draum. Í draumnum hafði hann séð fyrir sér barnið í Betlehem á hnjám móður sinnar. Hann hafði fallið fram fyrir barnið til þess að tilbiðja það. Er hann hóf upp augu sín, sá hann að dýrmæti steinninn glóði á enni barnsins og gullmolinn hans lá í litlu barnshöndinni. Er hann horfði hugfanginn á þetta, heyrði hann lága hvíslandi rödd barnsins, er það sagði: “Það, sem þið gerið einum af minnstu bræðrum mínum, hafið þið gert mér”. (Sagnaskrínið, 280 smásögur úr ýmsum áttum. Reykjavík, 1995. s. 42-43.)

Þessi helgisaga eða dæmisaga er sprottinn af dæmisögu Jesú í Matteusarguðspjalli 25. kafla sem vitnað er til þar sem Jesús segir þessi orð: “Það, sem þið gerið einum af minnstu bræðrum mínum, hafið þið gert mér”. Þetta er dæmisagan um uppgjörið mikla, þegar verk okkar verða prófuð. Og þar er okkur kenndur þessi leyndardómur Guðs ríkis, að Guð þarf ekki á líknarverkum okkar að halda heldur þjónum við Kristi þegar við hjálpum meðbræðrum okkar og systrum, þeim sem er hjálparþurfi og í neyð, þar mætum við Kristi.

Það er athyglisvert að Matteus segir einn þessa dæmisögu og hann einn segir frá komu vitringanna til Betlehem. Harla ólíkar sögur sem virðast við fystur sín beina okkur hvor í sína átt. Þegar ég var að segja börnunum á jólatrésskemmtun þessa sögu með tilþryfum milli jóla og nýárs um fjórða vitringinn læddist sá grunur að mér að þessi helgisaga væri gagnrýni á allan íburð konunganna þriggja, allt tildrið og prjálið, rétt eins og jólasagan hjá Lúkasi og prédikanir prestanna hefur tilhneigingu til að verða. Og, jú, reyndar jólahaldið allt hjá okkur er dálítið ofboðslegt.

Ef maður vill vera andstyggilegur við sjálfan sig, eins og sumir hafa tilhneigingar til, sérstaklega meinlætamenn, þá er raunveruleikinn langt í frá hugsjón jólanna. Og allar þessar sögur um hjálp við vesalinga eru eins og fjarlægir draumar, léleg smyrsl, á vonda samvisku okkar. Það þarf ekki nema að lyfta sáraumbúðunum rétt aðeins af og sjá það ógnardjúp sem þar blasir við. Samskipti Vesturlandi við þriðja heiminn, sem menn nefna gjarnan núna óréttlæti milli norður og suður hluta heimsins. Ef þessi boðskapur hefur glatað krafti sínum, ef jólaboðskapurinn er ekki annað en ævintýralegar sögur fyrir okkur, þá hefur ekkert birst okkur, þá er ljósið okkar eintómt myrkur. Ef saltið dofnar með hverju á þá að selta það.

En ég tel að ef við stillum saman þessum tveimur hugsunum, annars vegar að tilbiðja Krist, eins og vitringarnir gerðu, og hins vegar að þjóna Kristi, eins og gráhærði öldungurinn eða sauðirnir í dæmisögu Jesú, þá komumst við að kjarnanum í guðspjalli Matteusar.

Hann kennir okkur að Jesús birtir okkur Guð. Frá fyrstu stund er Jesús tilbeðinn af vitringunum (Matt. 2) og að lokum tilbiðja lærisveinarnir hann á fjallinu (Matt. 28). Það er til málverk eftir Leonardo da Vinci ófullgert reyndar þar sem hann sýnir tilbeiðslu vitringanna og þar krjúpa þeir djúpt fyrir Jesú-barninu og tilbeiðslan ljómar úr augum þeirra og Jesú-barnið blessar þá. Það er í trú á hann, þeirri trú, að hann sýnir okkur kærleika Guðs, að það verður glóra í því í mannlegu samfélagi að elska eins og Kristur gerði. Það er kærleikurinn, Guð, sem hefur birst okkur. Og þá á ég við það að þegar við lesum þetta bókmenntaverk, sem Matteusarguðspjall er, þá sjáum við KÆRLEIKANN. Það er aðeins til einn kærleikur, Guð, sem birtist okkur í mörgum myndum í lífinu. Ef við lítum þannig á tilveru okkar, þá er hún allt annað en guðlaus, Guð fyllir hana. Og það er í þjónustu hvert við annað að við reynum kærleikann. Það er hann sem gefur lífi okkar gildi og merkingu. Þannig séð verða þessar sögur ljós okkar og stjarna, sem leiða okkur inn að kjarna lífsins.

Og þegar það gerist að sannindi sagnanna verður fyrir augum okkar að raunveruleika í lífi einstaklinga þá veit maður að þetta eru engin ævintýri eða helgisögur heldur raunveruleikinn, Guð, sem fyllir allt í öllu, hann hefur opinberast okkur.

Þessar hugsanir hef ég fest í nokkrar vísur:

Drottinn Kristur kominn er, klukkur slá til tíða. María í skauti sér Son Guðs ber hinn fríða. Oss til heilla heldur sú hlýðin Drottins leiðir. Frelsarann hún fæðir trú, faðm út barnið breiðir.

Guð er barn í fátækt fætt, fyrirheitin rætast. Móðurfaðmur Guðs fær gætt, Guð og heimur mætast. Vex á þyrnirunna rós, roðnar jurtin smáða. Lífsins gáta gerist ljós; Guð upp reisir þjáða.

Önd vor mikli Drottins dáð, dýrðleg stjarna ljómar, ást Guðs birtist, eilíft ráð, englasöngur hljómar: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og með mönnum friður.“ Drottinn hár af himninum hingað stígur niður.

Koma að jötu konungar, Kristi lúta vilja. Hirðar Guð sinn hylla þar, heit Guðs engla skilja. Allir dýrka Drottinn nú, dýrðar hátíð halda. Krist vorn Drottinn tignar trú tíðargjörð allra alda.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Skoða heimasíðu höfundar