Hjúskaparlögin nýju eru kveikjan að þarfri grein, sem Sigurður Björnsson, óperusöngvari, ritar þann 22. júní síðastliðinn í Morgunblaðið. Ég segi greinina þarfa, því í henni eru bornar fram spurningar og hugrenningar, sem án vafa brenna á mörgum sem vilja kenna sig við kirkju og kristni en sjá vandkvæði á því að hugtakið hjónaband verði notað um önnur sambönd en þau sem samanstanda af tveimur fullveðja einstaklingum af sitthvoru kyni.
Í greininni kallar Sigurður eftir skýrum og ljósum rökum fyrir því að kirkjan geti leyft samkynhneigðum að ganga í hjónaband. Sjálfur er hann efasemdamaður þar um og því til stuðnings teflir hann fram þremur biblíutilvitnunum sem virðast styðja þær efasemdir. Tvær þeirra gætu við fyrstu sýn hæglega falið í sér gagnrýni á samkynhneigð og sú þriðja staðfest að hjónaband eigi ekki við um neitt annað en samband karls og konu. Ekki er þó allt sem sýnist.
Biblíuversin sem um ræðir eru 3. Mós. 18.22 þar sem segir að karlmaður megi ekki liggja með karlmanni eins og legið er með konu; Rm. 1.24-27 þar sem talað er um konur, sem hafi breytt eðlilegum mökum í óeðlileg og karla sem hafi hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, og Mt. 19.4 þar sem Jesús bregst við spurningu farísea um hvort manni sé leyfilegt að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem vera skuli.
Umræddar ritningargreinar hafa verið mjög til umfjöllunar á meðal guðfræðinga undanfarna áratugi og kennir þar ýmissa grasa í nálgun og túlkun. Margir hafa þó orðið til að færa sannfærandi rök fyrir því að í 3. Mós. 18.22 og Rm. 1. 24-27 sé ekki verið að fjalla um samkynhneigð sem slíka heldur liggi textunum til grundvallar gagnrýni á heiðna guðsdýrkun og trúarsiði, þar sem gengið hafi verið fram með kynngi og ergi, en á því menningarsvæði þar sem biblíuritin urðu til var það vel þekkt að kynlífsathafnir tíðkuðust við framkvæmd sumra trúarathafna. Það þarf því ekki að koma allskostar á óvart að umræddur texti í 18. kafla 3. Mósebókar kemur í beinu framhaldi af orðum þar sem varað er við dýrkun guðsins Móloks. Í upphafskafla Rómverjabréfsins er spjótum svo fyrst og fremst beint að skurðgoðadýrkendum, sem í stað þess að tilbiðja dýrlegan, eilífan Guð hafa tilbeðið myndir af dauðlegum mönnum, fuglum, ferfætlingum og skriðkvikindum og hafa þess vegna verið ofurseldir svívirðilegum girndum. (Sjá Rm. 1.23-27)
Af framansögðu má ljóst vera að ritningastaðirnir, sem Sigurður les sem fordæmingu á samkynhneigð þurfa alls ekki að fela neitt slíkt í sér, og reyndar er það niðurstaða fjölmargra textaskýrenda að hvergi í Biblíunni sé vegið að samkynhneigð eins og við þekkjum hana eða skilgreinum nú á tímum.
Um þriðja ritningarstaðinn sem nefndur er til sögunnar í grein Sigurðar er það svo að segja að í því samhengi sem hann stendur hjá Mattheusi, þ.e.a.s. í versunum 19.1-12, er ekki fjallað beinlínis um hjónabandið sem slíkt heldur er umfjöllunarefnið skilnaður. Þá eru þeir til, sem hafa lesið út úr textanum gagnrýni á hjónabandið, en það er út af fyrir sig áhugavert, eins og dr. Clarence Glad hefur bent á, að texti sem felur í sér gagnrýni á hjónabandið skuli að hluta vera notaður af mörgum helstu kirkjudeildum heimsins sem partur af hjónavígsluritúali. Þar fyrir utan má á það benda, að orð Jesú um hjónaband og skilnað í umræddri textaheild eru að mörgu leyti óræð og eins og sveipuð dulúð, en hann kýs að taka sérstaklega fram að ekki sé á allra færi að skilja boðskap sinn um efnið. Lokaorð hans opna svo upp á gátt ýmsa túlkunarmöguleika, en þar segir hann einfaldlega: “Sá höndli sem höndlað fær.”
Um ofangreind ritningarvers mætti svo vitaskuld hafa fjölmörg orð fleiri en fyrir áhugasama má t.d. benda á að hægt er að kynna sér nokkuð ítarlega umfjöllun um þau, sem og afstöðu til samkynhneigðar og hjónabands, á vef Þjóðkirkjunnar þar sem slóðin er: HYPERLINK "http://kirkjan.is/samkynhneigdogkirkja/" http://kirkjan.is/samkynhneigdogkirkja/. Er það m.a. á grundvelli þeirrar guðfræðilegu umfjöllunar sem þar er að finna, að prestar, djáknar og guðfræðingar – samtals 111 manns - hafa með ýmsum hætti að undanförnu lýst Þjóðkirkjuna reiðubúna til að stíga það skref með ríkisvaldinu, að leyfa samkynhneigðum að ganga í hjónaband.
Það skal að lokum tekið fram að umræða um þetta mál innan Þjóðkirkjunnar hefur staðið yfir vel á annan áratug og verið allt annað en einföld eða sársaukalaus. Það er hins vegar í ljósi orða Lúthers um að kirkja þurfi stöðugt á endurnýjun að halda – ecclesia semper reformanda – sem ég tel að það hafi verið Þjóðkirkjunni afar mikilvægt að fara í gegnum þessa umræðu og horfast þannig í augu við bæði ný viðhorf og breytta tíma, en eitt af því sem segja má að sé kjarnaatriði í boðskap Krists er að hvað eftir annað hvetur hann áheyrendur sína til að endurmeta hlutina en hengja sig ekki í úreltar hugmyndir og kenningar þannig að það verði á kostnað kærleika eða lífs.
Greinin birtist upphaflega þann 13. júlí 2010 í Morgunblaðinu.