Hvernig Grundtvig auðgaði jólin okkar

Hvernig Grundtvig auðgaði jólin okkar

Jólin nálgast og innan skamms hljómar sálmurinn kæri, Í Betlehem er barn oss fætt. Uppruni þessa sálms er jólakvæði frá því á 14. öld sem notað var til leiks í kringum jötu.
fullname - andlitsmynd Einar Sigurbjörnsson
19. desember 2009

Barnið í jötu

Saga sálmsins Í Betlehem er barn oss fætt

Jólin nálgast og innan skamms hljómar sálmurinn kæri, Í Betlehem er barn oss fætt:

1. Í Betlehem er barn oss fætt. Því fagni gjörvöll Adams ætt. Hallelúja, hallelúja.

2. Það barn oss fæddi fátæk mær. Hann er þó dýrðar Drottinn skær. Hallelúja, hallelúja.

3. Hann var í jötu lagður lágt, en ríkir þó á himnum hátt. Hallelúja, hallelúja.

4. Hann vegsömuðu vitringar, hann tigna himins herskarar. Hallelúja, hallelúja.

5. Þeir boða frelsi' og frið á jörð og blessun Drottins barnahjörð Hallelúja, hallelúja.

6. Vér undir tökum englasöng, og nú finnst oss ei nóttin löng. Hallelúja, hallelúja.

7. Vér fögnum komu frelsarans, vér erum systkin orðin hans. Hallelúja, hallelúja.

8. Hvert fátækt hreysi höll nú er, því Guð er sjálfur gestur hér. Hallelúja, hallelúja.

9. Í myrkrum ljómar lífsins sól. Þér, Guð, sé lof fyrir gleðileg jól. Hallelúja, hallelúja.

Uppruni þessa sálms er jólakvæði frá því á 14. öld sem notað var til leiks í kringum jötu. Það er til í nokkrum mismunandi útgáfum og versin eru sex til tólf. Það var snemma þýtt á þjóðtungur og til eru þýskar þýðingar frá því á 14. öld og ekki er útilokað að það hafi verið til í þýðingum á einhverri tungu Norðurlanda á 14., 15. öld. Siðbótarmenn tóku kvæðið upp í sálmabækur sem þeir fóru að gefa út upp úr 1520. Í fyrstu sálmabókum lútherskra var sálmurinn gjarnan bæði á latínu og á móðurmáli. Þannig var það t.d. í dönskum sálmabókum og í þeim fyrstu skiptust latneska og danska versið á sennilega í þeim tilgangi að hægt væri að syngja sálminn í víxlsöng milli prests og safnaðar eða kórdrengja, sem voru latínuskólapiltar, og annars safnaðarfólks [Malling 1962, s. 356-361; Kjærgaard, 2002, s. 107-109]. Guðbrandur tók sálminn upp í sálmabók sína 1589 þar sem hann er bæði á latínu og íslensku en þó ekki settur upp með sama hætti og í dönskum sálmabókum heldur kemur latneski textinn fyrst með fyrirsögninni: „Puer natus in Behtleem. Gamall söngur að syngja í kirkjunni.“ Eftir latneska sálminn stendur fyrirsögnin: „Sami sálmur á íslensku útlagður.“ Gert er ráð fyrir að sálmurinn sé sunginn við sama lag bæði á latínu og íslensku. Sálmurinn var líka tekinn upp í Grallarann 1594 og skyldi syngja eftir blessun á jóladag og með sama lagi og prentað var í Sálmabók 1589. Í Grallara var sálmurinn eingöngu á íslensku en latneski textinn var tekinn upp í 6. útgáfu Grallarans 1691 og þá með öðru lagi [sjá Páll Eggert Ólason 1924, s. 73-74 og 223-224, lög nr. 13 og 14].

Í Sálmabók Guðbrands er latneski texti sálmsins á þessa leið og er hann samhljóða latneska textanum í dönsku sálmabókinni frá 1569:

1. Puer natus in Bethleem, unde gaudet Jherusalem. Haleluia.

2. Hic iacet in praesepio, qui regnat sine termno. Haleluia.

3. Cognovit bos et asinus quod puer esset Dominus. Haleluia.

4. Reges de Saba veniunt. Aurum, thus, mirrham offerunt. Haleluia.

5. De matre natus virgine sine verili semine. Haleluia.

6. Sine serpentis vulnere de nostro venit sanguine. Haleluia.

7. In carne nobis similis peccato sed dissimilis. Haleluia.

8. Ut redderet nos homines Deo et sibi similes. Haleluia.

9. In hoc natali gaudio benedicamus Domino. Haleluia.

10. Laudetur sancta Trinitas, Deo dicamus gratias. Haleluia.

Þýðingin er á þessa leið og er hún mjög nákvæm:

1. Borinn er sveinn í Betlehem, best gleðst af því Jerúsalem. Hallelúja.

2. Í hörðum stalli hvílist hann, hvers ríki aldrei endast má. Hallelúja.

3. Uxi og asni þekktu þar, að þetta barnið Drottinn var. Hallelúa.

4. Kóngar af Saba komu með klárt gull, myrru og reykelsið. Hallelúja.

5. Fæddur af móður meyju var, manns völd engin komu til þar. Hallelúja.

6. Ormsins spilling ei var á þeim, af blóði voru barst í heim. Hallelúja.

7. Hann líkist oss að holdsins mynd, hreinn og ójafn oss að synd. Hallelúja.

8. Að oss með gæsku gjörði hér, Guði líka og sjálfum sér. Hallelúja.

9. Á fæðingartíð frelsarans, fagni og syngi kristnin hans. Hallelúja.

10. Helgasta þrenning heiðruð sé, með hreinni trú og þakklæti. Hallelúja.

Eins og áður sagði var sálmur þessi hugsaður sem leikur barna í kringum jötu en algengt var á miðöldum að um jólatímann væri komið fyrir jötu inni í kirkjum eða á torgum og helgileikur hafður um hönd kringum hana. Upphafsmaður þessa siðar var Frans frá Assisi sem mun hafa látið byggja fyrstu jötuna af þessu tagi fyrir jólin 1223. Sálmur Lúthers Af himnum ofan boðskap ber (Sálmabók nr. 85) og jólakvæði séra Einars í Eydölum, Nóttin var sú ágæt ein (sbr. Sálmabók nr. 72), eru líka upphaflega kvæði ætluð til leikja kringum jötu.

Í sálminum Borinn er sveinn í Betlehem er jötunni sjálfri og umhverfi hennar lýst í fyrstu fimm erindunum. Upphafsorðin, Puer natus, er bein tilvitnun til andstefsins að inngöngusálmi jólanætur úr Jesaja 9.5: Barn er oss fætt ... – Puer natus est nobis. Uxi og asni voru algengt efni á myndum af fæðingunni þegar á miðöldum og með orðunum að dýrin vissu að barnið væri Drottinn er skírskotað beinlínis til spádómsbókar Jesaja, 1.3: „Uxinn þekkir eiganda sinn og asninn jötu húsbónda síns en Ísrael þekkir ekki, fólk mitt skilur ekki.“ Vitringarnir eru nefndir kóngar af Saba sem sömuleiðis er bein skírskotun tveggja ritningarstaða. Annar Davíðssálmur 72.10 og 15: „ ... konungarnir frá Saba og Seba munu færa honum skatt. [...] Megi hann lifa og hljóti hann gull frá Saba ...“ Hinn staðurinn er Jesaja 60.6: „ ... allir, sem koma frá Saba, færa þér gull og reykelsi ...“ Vers sex til átta túlka merkingu jólaboðskaparins og afleiðingar þær sem fæðing Guðs sonar hefur fyrir mann og heim. Í versum níu og tíu er söfnuðurinn kallaður til lofgjörðar. Sálmurinn Borinn er sveinn í Betlehem var í öllum gröllurum en Sálmabók 1801 felldi hann niður ásamt mörgum gömlum sálmum. Hann hefur sennilega þó verið sunginn víða á heimilum og í kirkjum þar sem fólk hélt áfram að notast við Grallarann. Til að koma til móts við fólk sem hélt upp á gömlu sálmana hóf séra Stefán Thorarensen á Kálfatjörn að umyrkja gamla sálma sem nutu alþýðuhylli og komu nokkrar umyrkingar eða endurbætur hans á gömlum sálmum fyrst í viðbæti við Sálmabók 1801 sem út kom 1861 og loks í Sálmabók 1871. Endurbót hans á sálminum Borinn er sveinn í Betleham kom í Sálmabók 1871 og er á þessa leið – Sálmabók 1871 nr. 78:

1. Oss barn er fætt í Betlehem. Þeim boðskap gleðst Jerúsalem! Hallelúja, hallelúja.

2. Í hörðum stalli hvílir sá, er heimsins ríki gjörvöll á. Hallelúja, hallelúja.

3. Og fátæk mær hinn æðsta ól, og englar boða’ hin fyrstu jól. Hallelúja, hallelúja.

4. Oss líkist hann að holdsins mynd en hreinn var þó af allri synd. Hallelúja, hallelúja.

5. Svo Guðs að börnum gjörði’ oss hér, og Guði líka’ og sjálfum sér. Hallelúja, hallelúja.

6. Á fæðingarhátíð frelsarans því fagni og syngi kristnin hans. Hallelúja, hallelúja.

7. Vor heilög þrenning heilög sé, með hreinni trú og þakklæti! Hallelúja, hallelúja.

Séra Stefán fellir niður þriðja og fjórða vers sálmsins en heldur hinum.

Ef við berum textann í Sálmabók 1589 og endurbót séra Stefáns saman við sálminn Í Betlehem er barn oss fætt sjáum við strax að hér er um mjög ólíka texta að ræða. Og til að finna ástæðu þess þurfum við að bregða okkur til Danmerkur. Þar í landi hóf skáldið og presturinn N. F. S. Grundtvig á öðrum áratug 19. aldar að enduryrkja og betrumbæta gamla sálma. Hann leitaði uppi forna sálma sem alþýðu voru kærir en sálmabók skynsemishyggjunnar, fyrirmynd þeirrar sálmabókar sem hér á landi var kölluð Leirgerður og út kom 1801, hafði úthýst. Þessa sálma betrumbætti hann og bjó í búning sem honum þótti betur sæmandi frá guðfræðilegu en einkum þó frá listrænu og fagurfræðilegu sjónarmiði. Meðal sálma sem Grundtvig fór höndum um var sálmurinn Borinn er sveinn í Betlehem – Et barn er født i Betlehem. Endurbót Grundtvigs kom fram þegar árið 1820 en í endanlegri mynd í útgáfu dönsku sálmabókarinnar 1855 og hefur hún verið í dönsku sálmabókinni síðan. Í útgáfu Grundtvigs er sálmurinn á þessa leið:

1. Et barn er født i Betlehem, thi glæde sig Jerusalem! Halleluja, halleluja!

2. En fattig jomfru sad i løn og fødte Himlens kongesøn. Halleluja, halleluja!

3. Han lagdes i et krybberum, Guds engle sang med fryd derom: Halleluja, halleluja!

4. Og Østens vise ofred der guld, røgelse og myrra skær. Halleluja, halleluja!

5. Forvunden er nu al vor nød, os er i dag en frelser fød. Halleluja, halleluja!

6. Guds kære børn vi blev på ny, skal holde jul i Himmel-by. Halleluja, halleluja!

7. På stjernetæpper lyseblå skal glade vi til kirke gå. Halleluja, halleluja!

8. Guds engle der os lære brat at synge, som de sang i nat: Halleluja, halleluja!

9. Da vorde engle vi som de, Guds milde ansigt skal vi se. Halleluja, halleluja!

10. Ham være pris til evig tid for frelser bold og broder blid! Halleluja, halleluja!

Þessi sálmur er mjög einkennandi fyrir tök Grundtvigs við þýðingar sálma og raunar birtast þarna mörg uppáhaldsstef hans. Upphaf sálmsins, Et barn er født i Betlehem, er samhljóða upphafslínu sálmsins frá því hann fyrst birtist í danskri sálmabók 1553 en sálmurinn hafði haldist óbreyttur í dönskum sálmabókum þar til upplýsingarfólk felldi hann niður úr sálmabókum á 18. öld. En að öðru leyti fer Grundtvig frjálslega með efni sálmsins. María fær sess strax í öðru erindi og er þar nefnd „fattig jomfru“ sem fæðir himneskan konungsson. Englasöngurinn er nefndur í þriðja erindi og kóngar frá Saba verða í samræmi við jólaguðspjall Matteusar að „Østens vise“ í fjórða erindi. Þó að Grundtvig breyti þarna röð versa og hagræði efni þeirra skín frumsálmurinn þó í gegn. En úrvinnsla hans verður öllu frjálslegri í fimmta erindi þar sem hann slær á strengi úr sinni eigin hörpu og skírskotunin til frumsálmsins er ekki jafnljós: Okkar neyð er nú að baki því að í dag fæðist okkur frelsari (5. vers). Þar sést eitt einkenni á sálmum Grundtvigs að leggja áherslu á að atburðurinn, sem hver sunnudagur eða hátíð greini frá, gerist „í dag“. Og fögnuðurinn heldur áfram í sjötta versi: Við erum orðin Guðs börn og boðið til fagnaðar á himnunum. Þar syngjum við lofsöng með stjörnur himins sem teppi undir fótum og lærum að syngja með englunum, já verðum englar sem megum líta ásjónu Guðs (7. – 9. erindi). Sálminum lýkur á lofgjörðarversi. Þannig lætur Grundtvig sálminn kalla okkur til hátíðar á himnum. Í sálmasögu sinni segir Anders Malling að þetta verk Grundtvigs hafi bjargað sálminum forna og þess vegna lifi hann í Danmörku og Noregi. Hins vegar hafi hann horfið úr notkun í Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi þrátt fyrir nýjar þýðingar [Malling I, 1962, s. 361]. Hvað sem líður Svíþjóð og Finnlandi þá er þessi ályktun alröng varðandi Ísland þar sem sálmurinn hefur lifað góðu lífi og vissulega að miklu leyti fyrir áhrif frá Grundtvig.

Íslensk sálmaskáld fylgdust nefnilega vel með þróun sálmakveðskapar í Danmörku og endurbætur Grundtvigs á gömlum sálmum voru kunnar og féllu vel að smekk manna hér. Séra Stefán Thorarensen reið á vaðið og birtust endurbætur hans á nokkrum fornum sálmum fyrst í Sálmabókarviðbæti 1861 og síðan í Sálmabók 1871. Umyrking eða endurbót hans á sálminum Borinn er sveinn í Betlehem er greinilega innblásin af Grundtvig. Hins vegar er Stefán talsvert íhaldssamari en Grundtvig eða trúrri frumsálminum eins þótt hann haldi ekki sömu upphafslínu og sálmurinn hafði haft hjá Guðbrandi. Þannig heldur hann jötunni – harða stallinum – í öðru erindi og nefnir Maríu fyrst í því þriðja. Eins og hjá Grundtvig er María nefnd „fátæk mær“ og hann kemur englunum fyrir. Stefán minnist ekki á uxann og asnann fremur en Grundtvig og sleppir kóngunum, gerir þá heldur ekki að vitringum! Lagboðinn er í Sálmabók 1871 Borinn er sveinn í Betlehem eins og upphaf sálmsins var í Sálmabók Guðbrands og í Grallaranum.

Þeir sem stóðu að útgáfu Sálmabókar 1886 settu miklu strangari fagurfræðilegar og listrænar kröfur á sálma en forráðamen Sálmabókar 1871 höfðu gert. Því hlaut umyrking séra Stefáns ekki náð fyrir augum þeirra og var þó séra Stefán meðal nefndarmanna. Í staðinn tók nefndin inn nýja þýðingu á hinum forna sálmi eftir séra Valdimar Briem. Og í útgáfu hans eru áhrif Grundtvigs enn auðsærri en í útgáfu séra Stefáns. Til viðbótar heimfærir Valdimar sálminn með snilldarlegum hætti. Sú heimfærsla er vissulega innblásin af Grundtvig en sýnir um leið mjög sjálfstæð tök séra Valdimars á verkefninu. Þýðing séra Valdimars sló í gegn og er sungin enn þann dag í dag. Lagboðinn var í Sálmabók 1886 eins og í Sálmabók 1871 Borinn er sveinn í Betlehem.

Ef við lítum á sálm Valdimars Briem þá fylgja fyrstu þrjú erindin útgáfu Grundtvigs. Það er athyglisvert hversu séra Valdimar leggur meiri áherslu á andstæðurnar guðlegt-mannlegt, jarðneskt-himneskt en Grundtvig: Það fæðist barn í Betlehem. Það barn fæðist oss eins og hjá séra Stefáni Thorarensen með beinni skírskotun til Jesaja 9.5 en fögnuðurinn yfir fæðingu barnsins nær til mannkyns alls, gjörvallrar Adamsættar. Móðirin var fátæk en barnið samt dýrðar Drottinn. Hann var lagður í jötu en ríkir samt á himnum. Menn, vissulega vitringar, vegsama hann en um leið tigna hann herskarar himins. Og það er englasöngurinn sem við viljum taka undir og finnst nóttin ekki lengur löng. En Valdimar Briem kallar ekki til kirkju á himnum eins og Grundtvig heldur ítrekar hann að Guð stígur niður, alla leið inn í íslenska baðstofu, dimma og lágreista. Þannig sjáum við í þriðja til sjötta erindi sjálfstæða úrvinnslu Valdimars Briem á stefjum bæði úr upphafssálminum og úr þýðingu Grundtvigs. Niðurlag sálmsins, versin 7-9, eru alveg sjálfstætt verk séra Valdimars Briem. Eins og Grundtvig vill hann að söngur englanna bergmáli á jörðu og fagnar því að við erum orðin systkin Guðs sonarins og konungsins Jesú Krists. En höll Guðs er ekki himnesk kirkja eins og hjá Grundtvig heldur „hvert fátækt hreysi.“ Þar er Valdimar Briem kominn heim í íslenska sveit þar sem baðstofan í hverjum lágum bæ er höll sem Guð sjálfur gistir. Og sól lífsins, Jesús, lýsir skammdegismyrkrið. Meðan Grundtvig kallar okkur til að hefja okkur upp úr hversdeginum ítrekar séra Valdimar að Guð stígur niður til að helga hversdaginn.

Lagboðinn við sálminn Í Betlehem er barn oss fætt er Borinn er sveinn í Betlehem og sami lagboði var líka við þýðingu séra Stefáns Thorarensens í Sálmabók 1871. Það vísar til upphafslínu sálmsins í Sálmabók og Grallara Guðbrands. Í Sálmasöngsbókinni sem Pétur Guðjónsson tók saman í framhaldi af útgáfu Sálmabókar 1871 og út kom 1878 er sálmur séra Stefáns undir lagboðanum Borinn er sveinn í Betleham [Pétur Guðjónsson 1878, s. 7, nr. 9]. Lagið í þeirri bók er er hins vegar annað lag en var í Sálmabók 1589 og Grallaranum 1594 og er sama lag og við notum nú á dögum við sálminn Í Betlehem er barn oss fætt. Það lag byggist á lagi sem var í Grallaranum 1691 við latneska texta sálmsins. Það er nokkru yngra lag en lagið í Sálmabók 1589 og höfðu bæði lögin verið notuð í Danmörku á 17. og 18. öld. Tónskáldið A. P. Berggren, sem var organisti við Trinitatiskirke í Kaupmannahöfn og kennari Péturs Guðjónssonar, endurbætti yngra lagið í kringum 1840 og náði útgáfa Berggrens mikilli útbreiðslu í Danmörku. Í dönsku sálmasöngsbókinni eru bæði lögin við sálminn í þýðingu Grundtvigs og misjafnt eftir kirkjum hvort lagið er notað þar í landi [Kjærgård 2002, s. 109. Sjá og http://www.dendanskesalmebogonline.dk/]. Eldra lagið, sem var í Sálmabók 1589 og Grallaranum 1594, var kynnt hér á landi upp úr 1960. Dr. Róbert Abraham Ottósson stóð fyrir þeirri kynningu og lét syngja lagið undir texta séra Stefáns. Sönghópurinn Þrjú á palli söng lagið inn á plötu 1971. Lagið náði nokkurri útbreiðslu meðal kóra og sönghópa eftir það og í viðbæti við Sálmabók íslensku kirkjunnar sem gefinn var út 1991 og nefnist Sálmar 1991 voru vers 1, 2, 3, 5 og 7 úr þýðingu Stefáns Thorarensens tekin upp undir þessu lagi og hafa haldist í prentunum Sálmabókarinnar síðan sem sálmur nr. 567. Þetta gamla lag er mjög fallegt. Texti séra Stefáns stendur hins vegar texta séra Valdimars langt að baki. Í endurgerð séra Valdimars Briem fékk sálmurinn mynd sem skilar andblæ hins forna miðaldasálms jafnframt því að vera sjálfstæð heimfærsla á boðskap hans. Yfir texta sálmsins er ákveðinn léttleiki og mýkt sem hvert barn getur tileinkað sér.

Í myrkrum ljómar lífsins sól. Þér, Guð, sé lof fyrir gleðileg jól. Hallelúja, hallelúja.

Tilvitnanir

Kjærgaard, J. 2002, Salmehåndbog II.

Malling, A. 1962, Dansk salmehistorie I.

Páll Eggert Ólason 1924, Upptök sálma og sálmalaga í lútherskum sið á Íslandi – Fylgirit Árbókar Háskóla Íslands.

Pétur Guðjónsson 1878, Sálmasöngsbók með þrem röddum – útg. annaðist Einar Jónsson,